Borgarlína

Ég bý sem betur fer ekki á því svæði landsins sem hefur gengið undir nafninu "höfuðborgarsvæði". Því ættu hugmyndir um borgarlínu ekki að koma mér við og ég því ekki að tjá mig um þá vitleysu.

En því miður, þá er ljóst að borgarlína verður ekki byggða af þeim sem hana fá, Reykjavíkurborg og þeim sveitarfélögum sem henni liggja næst. Það er heldur ekki hugmyndin að þeir sem nota borgarlínuna borgi. Nei, mestur hluti kostnaðar er ætlað ríkissjóði, þ.e. að það fé sem ég greiði til samneyslunnar verði nýtt í þessa framkvæmd. Þar með er borgarlínan mér viðkomandi.

Þær kostnaðaráætlanir sem nefndar hafa verið eru frá 40-70 milljarðar króna. Þegar nákvæmnin er ekki meiri en þetta, er ljóst að menn vita akkúrat ekkert hvað þeir eru að tala um. Það er gjarna svo, þegar einhverja hugmyndir glópa koma fram, hugmyndir sem ætlunin er að ríkissjóður fjármagni, að áætlanir eru dregnar niður sem hægt er og vel það. Því má gera ráð fyrir að 70 milljarðarnir séu nær þeirri niðurstöðu sem reiknimeistarar glópanna gátu reiknað sig niður á, með tilfæringum. Það er einnig þekkt staðreynd hér á landi, að slíkar hugmyndir glópanna, þar sem kostnaði er velt á ríkissjóð, eru nærri því að tvöfaldast frá áætlunum og jafnvel meira. Þar er nærtækast að nefna Vaðlaheiðagöng. Því er fráleitt að ætla að borgarlínu verði komið á fyrir minna fé en 140 milljarða, jafnvel mun hærri upphæð. 70 milljarða framkvæmd til að þjóna einungis örfáum prósentum þeirra sem um höfuðborgarsvæðið þurfa að ferðast, er fráleit upphæð. Allt umfram það er gjörsamlega út úr korti. Þetta væri svo sem allt í lagi ef sveitarfélögin sem að þessari glópa tillögu standa, ætluðu að fjármagna hana sjálf og ef notendum kerfisins væri ætlað að greiða rekstur þess. Ef ríkissjóð væri haldið utanvið þessa vitleysu.

Forsendur þessa verkefnis eru fráleitar. Fyrir það fyrsta eru áætlanir um fjölgun þeirra sem almenningssamgöngur muni nota vægast sagt ótrúlegar. Og þar sem þessi svokallaða borgarlína byggir fyrst og fremst á því að þrengja að einkabílnum, er ljóst að með einhverjum hætti þurfti að reikna notkun hans niður. Það var gert með þeim ævintýralega hætti að áætla að nærri þriðjungur þeirra sem um höfuðborgarsvæðið ferðast, muni gera það með öðrum hætti en notkun einkabíls eða almenningssamgangna. Þ.e. að um þriðjungur íbúa þessa svæðis muni ferðast fótgangandi eða á reiðhjólum!! Eru menn algjörlega ga-ga!

 

Um miðjan sjöund áratug síðustu aldar voru menn stórhuga í hugmyndum um gatnagerð á höfuðborgarsvæðinu og tengingu þess við landsbyggðina. Þá var rætt um hraðbrautir þvers og kruss um höfuðborgina og hugmyndir um slíkt net hraðbrauta settar fram. Sumar þessara hugmynda urðu að veruleika, þ.e. það sem við köllum stofnbrautir í dag, aðrar döguðu uppi. Segja má að þetta hafi í raun verið látið þróast eftir þörf hverju sinni, með örlítilli fyrirsjá. Sú þróun stóð yfir allt fram yfir aldamót.

Eins og áður segir, voru þessar hugmyndir stórar og jafnvel hægt að kalla sumar þeirra afkvæmi glópa. Sem dæmi átti tenging Suðurlands við borgina að vera gegnum Elliðaárdalinn. Til allrar lukku var því breytt og sú tenging færð austur fyrir Hálsa. Í þessum hugmyndum var m.a. hraðbraut frá Elliðaárvogi norður að Klepp og þaðan með ströndinni alla leið vestur á Granda. Segja má að Sundabraut, sem kom mun seinna, sé afkvæmi þessarar hugmyndar, þ.e. vestur undir Hörpu. Þar endar sú stofnbraut. Tengingin vestur á Granda er enn ekki komin og mun aldrei verða, enda þær hugmyndir sem um hana voru meira í ætt við umferðamannvirki stórborga erlendis. Hugmyndin gekk út á að leggja þann hluta hraðbrautarinnar á brú sem lægi yfir Geirsgötu og meðfram hafnarsvæðinu, vestur á Granda. Bygging þessarar brúar hófst og byggt um 85 metra kafli á henni. Síðan ekki meir. Þessi kafli stendur enn, er framan við það hús sem nú hýsir tollinn. Undir þessari brú er til húsa það sem kallast Kolamarkaður.

Borgarlína mun sjálfsagt hljóta sömu örlög og hraðbrautarhugmyndin. Hún mun þróast eftir þörfum. Uppbygging umferðamannvirkja mun auðvitað eflast í takt við fjölgun íbúa á svæðinu. Slík uppbygging mun að sjálfsögðu fela í sér betra flæði umferðar og samhliða því mun að sjálfsögðu verða gert ráð fyrir betra flæði strætisvagna. Þannig mun í reynd verða byggð einhverskonar borgarlína, án þess þó að hún sé látin drottna yfir allri annarri umferð. Kannski fær hún annað nafn, svona eins og hraðbrautirnar kallast nú stofnbrautir.

Með þessari hugmyndafræði verða umferðamannvirki byggð upp fyrir alla, ekki bara þau 4-6% íbúa höfuðborgarsvæðisins sem glóparnir telja að muni ferðast með almenningssamgöngum. Þá er verið að byggja upp umferðamannvirki fyrir alla landsmenn og sjálfsagt mál að ríkissjóður komi að því verki. Við landsbyggðafólk getum þá komist okkar ferða um höfuðborgina okkar, án þess að þurfa að leggja bílnum í einhverju bílastæðahúsi í jaðri hennar og flækjast í einhverju framandi strætisvagnakerfi um borgina.

Eini vandinn við þetta er að fyrst af öllu þarf að vinna upp þau ár sem þróun umferðamannvirkja hafa legið niðri og jafnvel verið vísvitandi eyðilögð.


mbl.is Bílastæðahús við línuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband