Sprengisérfræðingarnir á Akranesi
6.1.2018 | 21:24
Sagan endalausa af Akranesi heldur áfram. Menn eru duglegir við að sprengja en sílóin neita að falla. Þetta er að verða nokkuð fyndið, svona í skugga hættuástandsins sem hefur skapast.
Ekki hefur niðurrifssvæðið verið afgirt, jafnvel þó nokkrir dagar sé frá því að fyrsta sprenging fór fram og sílóin skekktust verulega, svo stór hætta skapast. Bæjarstjórn lætur duga að framkvæmdaaðilinn kaupi einn mann frá öryggisfyrirtæki í Reykjavík til að vakta svæðið. Eins og einn maður geti eitthvað gert til varnar því að óviðkomandi, kannski börn, fari inn á hættusvæðið.
Í viðtali við visir.is sagði Þorsteinn Auðunn Pétursson, framkvæmdastjóri Work North ehf., að eftir mistök fyrirtækis hans, fyndist í landinu 10.000 sprengisérfræðingar. Ennfremur sagði hann að með fyrstu sprengingu væri búið að "stilla turnana af", svo nú myndu þeir falla í rétta átt við þá næstu! Fyrir það fyrsta áttu sílóin (turnarnir) að falla beint niður, samkvæmt fyrstu fréttum og í öðru lagi skeði ekkert við þá næstu! Sílóin standa enn jafn skökk og áður og hrunhættan ekki minni.
Ummælin um fjölda sprengisérfræðinga í landinu eru hins vegar umhugsnarverð. Auðvitað er hann þarna að skjóta á alla þá sem gagnrýnt hafa fyrirtæki hans. Hitt væri svo sem ágætt ef í landinu væru svo margir sprengisérfræðingar sem hann nefnir. Þá gæti hann væntanlega skipt út þeim manni sem hann réð til verksins fyrir alvöru sprengisérfræðing. Ljóst er að sá sem verkið vann hefur litla þekkingu á því starfi, ef nokkra!
Ekki hefur enn fengist skýring bæjarstjórnar á því hvers vegna verktakanum var heimilað að yfirgefa svæðið, eftir fyrstu sprengju. Skýr krafa átti auðvitað að vera um að verkinu yrði haldið áfram, dag sem nótt, þar til sílóin væru fallin og hætta liðin hjá. Enga undantekningu átti að gefa frá þeirri kröfu!! Þarna átti vinnueftirlit og lögregla einnig að koma að máli, til stuðnings bæjarstjórn.
Annars verður að segjast eins og er að framkvæmdarstjóra Work North ehf. hefur tekist snilldarlega að afvegaleiða umræðuna um þær framkvæmdir sem hann stendur að á Akranesi, hefur tekist að halda niðri allri umræðu um öryggismál á framkvæmdarsvæðinu. Þar má auðvitað einnig sakast við bæjarstjórn og löggilta eftirlitsaðila s.s. vinnueftirlitið og lögreglu.
Í hverju verki, sem telst til stærri framkvæmda, hverju nafni sem þær nefnast, er fyrsta verk að tryggja vinnusvæðið og girða það af. Þetta á ekki síst við þegar verið er að rífa niður byggingar. Eðli málsins vegna, þá skapast mun meiri hætta á slíkum vinnustöðum en flestum öðrum. Oftar en ekki er í lok vinnudag einhverjar byggingar hálfrifnar, styrkur þeirra verið skertur verulega og hætta á hruni veruleg.
Framkvæmdasvæði eru spennandi, einkum hjá börnum og því með öllu óskiljanlegt að verktaka hafi verið heimilað að hefja verk áður en tryggilega væri séð til að óviðkomandi kæmist ekki á svæðið. Reyndar er að skilja á bæjarstjóranum að verktakinn hafi farið nokkuð framúr heimildum bæjarins, þó þetta atriði hafi ekki verið nefnt í því sambandi.
Mikil gagnrýni hefur komið á verktakann vegna þessara mistaka og hvernig unnið hefur verið úr þeim. Þeir sem gagnrýna eru ekkert endilega sprengisérfræðingar, þó framkvæmdastjórinn haldi slíku fram. Það er hans ódýra og barnalega afsökun á eigin mistökum. Sjálfur tel ég mig mega gagnrýna þetta framferði verktakans, þó ég hafi aldrei unnið með sprengiefni, enda gagnrýnin ekki bara á vanmat við sprenginguna, heldur ekki síður hvernig unnið var að málinu eftir að mistökin áttu sér stað og hvernig staðið hefur verið að öryggismálum á framkvæmdasvæðinu í heild sér.
En gleymum ekki að fleiri bera ábyrgð, bæjarstjórn, vinnueftirlit og lögregla eru aðilar að þessu máli líka. Hver mun bera ábyrgð ef slys verður, kannski á barni sem fer inn á svæðið?
Sílóin standa enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Löggæsla, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Facebook
Athugasemdir
Það er ákaflega lítill sérfræðingabragur yfir niðurrifi þessara sílóa.
Ég held þeir ættu að breyta nafni fyrirtækisins í "Work more north, where explosives are not required"
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 7.1.2018 kl. 01:29
Mér dettur alltaf í hug stefið í brúðuþattunum um klaufabárðana, þegar minnst er á þetta. Þetta er orðið ansi vandræðalegt hjá þeim og ekki bætir úr skák að verkstjórnandinn sé með þennan derring og láti sem að þetta sé svona planað dæmi. "Stilla sílóin af" hahahaha.
Fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. Kannski fara þeir yfir strikið í angist yfir að mistakast og fylla allt af dýnamíti. Kannski ná þeirr allri versmiðjunnu í einu blasti, svona óvart. :D
Jón Steinar Ragnarsson, 7.1.2018 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.