Stjórnarskrá

Allir eru sammála um að endurskoða þarf stjórnarskránna okkar, hún á að vera í sífelldri endurskoðun. Það verk á þó ekki að vinna með flaustri eða af hraði og alls ekki þegar þingi hefur verið slitið og þingmenn því í raun umboðslausir.

Nokkuð skiptar skoðanir eru um hvernig staðið skuli að endurskoðun stjórnarskrár. Flestir vilja að það verk verði unnið með þeim hætti að skoða fyrst hvar helst þurfi að færa hana til nýrra tíma, hvar vantar inní hana ákvæði og hverju má henda út. Að því loknu verði ráðist í breytingar þar sem mest þörf er og síðan koll af kolli. Mestu skiptir þó að þessari vinnu ljúki aldrei, að stöðug skoðun stjórnarskrár sé við lýði.

Aðrir vilja taka niðurstöðu svokallaðs stjórnlagaráðs og setja hana sem stjórnarskrá yfir landið, telja það plagg vera lokaniðurstöðu sem aldrei má breyta. Helstu rök þess fólks er að þjóðin hafi kallað eftir slíkri stjórnarskrá og sumir eru jafnvel svo forskammaðir að segja að þjóðin hafi kosið um það plagg.

Reyndar var þjóðin aldrei spurð, þegar ákveðið var að stofna til þessa stjórnlagaráðs. Engar kosningar fóru fram um hvort breyta ætti stjórnarskránni, né undirskriftasöfnun. Fámenn klíka tók þá ákvörðun, klíka sem hafði náð yfirráðum á stjórnarheimilinu.

Þegar síðan kom að því að kjósa á þetta blessaða ráð, var þátttaka kjósenda svo dræm að í raun hefði átt að láta þar staðar numið. Þeir fulltrúar sem kosnir voru, til ráðsins, fengi fylgi 3% þjóðarinnar og þaðan af minna.

Loks er þessir fulltrúar skiluðu afurð sinni, var þjóðinni veitt heimild til að segja sína skoðun. Reyndar var þjóðinni skammtað örfá atriði þessarar afurðar og mátti segja sinn hug um þau. Ekki fékk þjóðin að láta álit sitt í ljósi um afurðina í heild sér. Og eins og við var að búast, var þátttaka þjóðarinnar í þeirri könnun vægast sagt dræm, enda í raun lítið sem hægt var að kjósa um.

Það liggur ljóst fyrir að þjóðin hefur í raun aldrei fengið að segja hug sinn um hvort bylta skuli stjórnarskrá Íslands. Tvennar kosningar hafa farið fram til Alþingis, síðan afurð stjórnlagaráðs var lögð fram og í þeim báðum hafa þeir flokkar sem mest tala um byltingu stjórnarskrár, fengið vægast sagt lélega kosningu. Kannski segir það meira en flest annað um hug þjóðarinnar til afurðar ráðsins.

Er ekki rétt, þar sem nú skal kosið til Alþingis innan fárra vikna, að kanna um leið hug fólks til breytinga á stjórnarskrá. Það mætti t.d. spyrja kjósendur hvort þeir vilji frekar afurð stjórnlagaráðs sem stjórnarskrá eða vandlega endurskoðun á lengri tíma sem síðan lyki með sífelldri endurskoðun og bótum.

Megin stefið ætti þó að vera einföld stjórnarskrá, vel skiljanleg, þar sem einungis er tekið á þeim þáttum sem nauðsynlegt er að hafa yfirlög um.

Aldrei má þó breyta frá þeirri reglu að breytingar á stjórnarskrá kalli á samþykkt tveggja þinga, með samþykki þjóðarinnar á milli, ásamt endurnýjun þingmanna á umboði sínu. Þetta er eini varnaglinn gegn því að misvitrir og kannski valdasjúkir menn getir yfirtekið stjórn á landinu. Eini varnaglinn gegn því að einræði geti náð fótfestu.


mbl.is Tillaga Bjarna „óásættanleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Af þessu tilefni er rétt að rija upp hvenær og hvers vegna þessi stjórnarsrársirkus byrjaði. Nokkuð sem safó og hennar nótar vona að rifjist ekki upp.

Hér er frétt frá febrúar 2009 sem lýsi því hvað þeir töldu mest aðkallandi í komandi stjórnartíð.

http://www.visir.is/g/200938564492

Jón Steinar Ragnarsson, 21.9.2017 kl. 22:00

2 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Islendingar hafa ekkert að gera með nýja eða breytta Stjórnarskrá fyrr en þeir geta lesið, skilið og farið eftir núverandi Stjórnarskrá.

Jóhann Kristinsson, 25.9.2017 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband