??????

HB Grandi hefur lokað á botnfiskvinnslu á Akranesi og spurning hvort þessi frétt sé fyrirboði um að uppsjávarvinnslu verði einnig hætt. Myndin með fréttinni er af bræðsluverksmiðju HB Granda á Akranesi, ekki Sementsverksmiðjunni.

Hvað um það, saga Sementsverksmiðjunnar, frá stofnun til ársins 1993, er að öllu leyti góð saga. Þessi verksmiðja framleiddi sement fyrir landsmenn og á þessum tíma varð gífurleg uppbygging hér á landi. Verksmiðjan var vel rekin, skaffaði fjölmörg störf og sparaði mikinn gjaldeyri fyrir þjóðarbúið.

Árið 1993 tók að halla undan fæti. Stofnað var svokallað opinbert hlutafélag um verksmiðjuna (ohf), en á þeim tíma trúðu margir að slíkt fyrirkomulag væri töfralausn alls. Kratar voru kannski þar fremstir í flokki, enda með ráðuneyti iðnaðar á þeim árum undir sinni könnu. Efasemdarraddir heyrðust vissulega um þessa breytingu, að þetta væri einungis fyrsta skrefið í einkavæðingu verksmiðjunnar, einkavæðingu sem myndi enda með falli hennar. Ráðamenn þjóðarinnar á þeim tíma lofuðu hátíðlega að verksmiðjan yrði aldrei einkavædd, þetta væri einungis breyting á formi rekstrarins, breytingar sem myndu jafnvel auka hag hennar enn frekar.

Ekki gekk það þó eftir og þrátt fyrir hátíðleg loforð tók einungis einn áratug að einkavæða þessa verksmiðju. Þá fyrst byrjar hörmungarsaga hennar af alvöru. Ákveðið vandamál hafði skapast á þeim tíma er verksmiðjan starfaði sem ohf, en það sneri að lífeyrisskuldbindingum. Þær skuldir voru orðnar nokkrar, við ríkissjóð. Þegar verksmiðjan var auglýst til sölu var skýrt að væntanlegur kaupandi yrði að taka yfir þessar skuldbindingar, enda rekstur verksmiðjunnar að öðru leyti í þokkalegu standi, hús og búnaður vel viðunandi og því í raun einungis verið að koma þessari skuld ohf við ríkissjóð fyrir kattarnef.

Ekki vildi þó betur til við söluna, einkum kannski vegna afskipta Akranesbæjar, en að hún var seld þeim aðila sem kannski síst hafði burði til að reka hana. Nokkur tilboð komu, en því eina sem ekki stóðst var tekið. Niðurstaðan varð að ríkið tók á sig lífeyrisskuldbindingarnar og kaupandi greiddi málamyndunarverð, dugðu vart fyrir bílaflotanum sem verksmiðjunni fylgdi.

Níu árum síðar var verksmiðjan öll og Akranesbær sat uppi með lóð fulla af húsnæði sem ekki var til neins nýtilegt.

Frá árinu 1993, þegar hin svokallaða Viðeyjarstjórn (D+A) sat, hafa Akurnesingar þurft að horfa upp á og taka þátt í þessari sorgarsögu. Og henni er ekki enn lokið, þvert á móti. Fram til þessa hafa hörmungarnar lent á bæjarfélaginu í formi minnkandi tekna og á starfsfólkinu í missi sinna starfa. Nú hefjast fjárútlátin, einkum vegna afskipta bæjarstjórna á hverjum tíma af söluferli verksmiðjunnar.

Enginn veit hvað mun kosta að rífa verksmiðjuna. Víst er að áætlaðar 400 milljónir hrökkva þar skammt. Verksmiðjan var vel byggð og það verður ekkert einfalt mál að rífa hana. Þó tekur út yfir allan þjófabálk að svo virðist sem forsvarsmenn bæjarins hafi ákveðið að láta skorsteininn standa, telja hann einhverja bæjarprýði. Einfaldast og ódýrast er þó að rífa þennan stromp, þ.e. ef það er gert áður en byrjað verður að byggja umhverfis hann. Strompurinn er orðinn feyskinn, enda byggður m.t.t. að um hann leiki heitt loft, dag og nótt. Nú þegar eru farnar að sjást geigvænlegar sprungur á honum og ljóst að mjög dýrt, ef þá mögulegt, er að gera hann þannig úr garði að hann fái staðið.

Líklegast er þó að vandinn með strompinn leysast af sjálfu sér, innan stutts tíma, með því að hann falli sjálfur til jarðar. Við skulum þá vona að hann falli í rétta átt, annars gæti mannslíf verið í veði!

 Viðbót:

Eftir að færslan var rituð hefur mbl.is skipt um mynd við fréttina. Því er upphaf pistilsins úrelt.

 

 


mbl.is Úr álögum moldarkofanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband