"Minnihlutalýðræði"

Á þessu kjörtímabili hefur orðið "minnihlutalýðræði" heyrst nokkuð oft. Hver höfundur þessa orðskrípis er þekki ég ekki, en eins og gefur að skilja vellur þetta bull oftast úr munni þeirra sem eru í minnihluta á Alþingi, þó einstaka þingmenn meirihlutans séu nokkuð skotnir í þessu orðskrípi. Samkvæmt því sem næst verður komist á merking þessa orðs að vera að þeir sem í meirihluta eru skuli hlusta á og fara að ráðum minnihlutans. Ekki að núverandi minnihluti hafi sýnt neina tilburði til þess á síðasta kjörtímabili.

Auðvitað er ekkert til sem heitir minnihlutalýðræði. Lýðræði byggir alltaf á kosningum og vilja meirihluta þeirra sem kjósa. Stjórnmálaflokkar setja sér stefnu og tala fyrir ákveðnum áherslum. Kjósendur meta það sem fyrir þá er borið og kjósa síðan þann flokk sem þeim hugnast best. Þeir flokkar sem ná að mynda meirihluta á Alþingi sjá síðan um stjórn landsins, samkvæmt þeim stefnum og áherslum sem þeir boðuðu kjósendum. Þannig er lýðræði og getur ekki með nokkru móti verið á annan hátt. Það fer enginn í kjörklefann til að kjósa einn flokk og ætlast síðan til að sá flokkur starfi eftir stefnu og áherslum annars flokks.

Því miður eru alltaf einhverjir stjórnmálamenn sem misskilja þetta hlutverk sitt, misskilja lýðræðið. Sumir telja sig með því vera einhverskonar sáttasemjara, að þeir séu að sætta mismunandi sjónarmið. Lýðræðið gengur ekki út á það, lýðræðið gengur út á að meirihlutavilji sé virtur!

Eitt gleggsta dæmið um þennan fáránleik er nú að bíta okkur landsmenn í rassinn, með ófyrirsjáanlegum og skelfilegum afleiðingum. Þegar stjórnmálamaður sem mikið hefur hælt sér af svokölluðum "sáttarstjórnmálum" (annað orðskrípi) komst í stól ráðherra, þá var eitt fyrsta verk þess stjórnmálamanns að undirrita samkomulag við meirihluta borgarstjórnar. Þetta samkomulag var í algerri andstöðu við stefnu þess flokks sem þessi stjórnmálamaður er í og í andstöðu við þær áherslur sem lofað var fyrir kosningar, nokkrum vikum fyrr. Þá var þetta samkomulag einnig í fullri andstöðu við stefnu og áherslur samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Því til viðbótar var þetta í algerri andstöðu við undirskriftasöfnun meðal kjósenda, þar sem yfir 70.000 manns rituðu nafn sitt.

Með þessu gerræði, sem gert var í nafni svokallaðrar sáttar, gekk þessi stjórnmálamaður freklega gegn vilja meirihluta kjósenda og niðurstaðan mun valda mikilli úlfúð meðal þjóðarinnar. Öryggi landsbyggðarfólks er sett að veði og gjáin milli landsbyggðar og höfuðborgar mun dýpka. 

Þarna má segja að orðskrípið "minnihlutalýðræði" opinberist best. Afleiðingarnar verða síðan enn frekari ósátt og illindi.


mbl.is Sorglegt að neyðarbrautin loki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka góðann pistil, að vanda. "Sáttastjórnmálamaðurinn"er sem betur fer horfinn af sjónarsviðinu og það vonandi að eilífu." Minnihlutalýðræðið" veður hinsvegar áfram og sér ekki fyrir endann á því óbermi. Uppvöðslu réttskoðunarelítunnar verður að stöðve, með öllum tiltækum meðölum frjálsrar umræðu og upplýsingar. Baktjaldamakk þeirra sem hæst hafa, um gegnsæi og upplýsta umræðu, verður að stöðva. Hættulegra fólk lýðræðinu, hefur aldrei haft hærra á Íslandi. Það ber að stöðva.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 12.6.2016 kl. 02:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband