"Eitthvað annað"
14.5.2016 | 12:10
Í gegnum árin hafa þeir sem andvígir eru stóriðju gjarnan talað um "eitthvað annað", þegar umræðan fer að verða þeim erfið. Ekki hafa fengist skilgreiningar á hvað þetta "eitthvað annað" er, ekki fyrr en eitthvað óvænt dúkkar upp, oftast öllum að óvörum og án þess að nokkur bein stefnumörkun hafi átt sér stað. Nú hælir þetta sama fólk sér af vexti ferðaþjónustunnar, segja hana dæmi um "eitthvað annað".
Vöxtur ferðaþjónustunnar hér á landi er þó minnst að þakka einhverri stefnumörkun og allra síst stjórnmálastéttinni. Ástæða þessa vaxtar má að stæðstu eða öllu leiti þakka bankahruninu og því falli sem varð á gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Ferðir hingað til lands urðu allt í einu ákaflega hagstæðar fyrir erlenda ferðamenn. Þetta ýtti af stað bolta sem enn rúllar, þó gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum sé hægt og örugglega að styrkjast. Hversu lengi sá bolti rúllar er erfitt að segja til um, en víst er að hann mun hægja verulega á sér. Þar kemur fyrst og fremst til það gullgrafaraæði sem ferðaþjónustuaðilar stunda af miklum móð. Það mun því verða sjálf ferðaþjónustugreinin sem mun leggja ferðaþjónustuna í rúst og það fyrr en síðar. Móðirin étur barnið sitt.
En aftur að fyrirsögninni, "eitthvað annað".
Umræðan um stóriðju hér á landi er oftast byggð á upphrópunum án allra staðreynda. Helstu "rök" þeirra sem andskotast út í þennan hornstein hagkerfis okkar, eru mengun, fá og illa launuð störf og skattaundanskot stóriðjufyrirtækja. Hvernig skoðast þessi rök í samanburðinum við ferðaþjónustuna?
Engin fyrirtæki hér á landi búa við strangari kröfur um mengunarvarnir og stóriðjan og engum fyrirtækjum hefur tekist að ná eins miklum árangri í minnkun mengunar á hvert framleitt tonn og þau sömu fyrirtæki. Allar sínar mengunarvarnir verða þær að greiða sjálfar, ekki hægt að sækja neitt fé til ríkissjóðs til þeirra framkvæmda. Er nú svo komið að íslensk stóriðja er með allra minnstu mengun á hvert framleitt tonn í heiminum, auk þess að nýta að stórum hluta endurnýjanlegan orkugjafa við framleiðsluna. Út frá sjónarmiði náttúruverndar á heimsmælikvarða, væri því algjörlega galið að loka þeim!
Ferðaþjónustan, hins vegar, mengar mjög mikið og skilur eftir sig varanlegan skaða á náttúrunni. Engar kröfur eru gerðar til þeirra sem hana stunda um mengunarvarnir, á einn eða neinn hátt. Þegar svo allt er komið í óefni og skaðinn er orðinn óviðráðanlegur, jafnvel varanlegur, er kallað eftir "aðstoð" frá ríkissjóð. Nú síðasta dæmið er Mývatn, en það má telja upp fjölda annarra dæma, s.s. skortur á salernisaðstöðu, stígagerð og að ógleymdri hálkueyðingu við ferðamannastaði, svona eins og kallað var hátt eftir nú í vetur. Hvers vegna er ferðaþjónustuaðilum ekki gert skylt að sjá um þessi mál sjálfir, að þeir greiði fyrir rannsóknir og endurbætur svo ferðaþjónustan geti blómstrað? Að hverju þarf ríkissjóður að hlaupa undir bagga með ferðaþjónustunni, meðan önnur fyrirtæki verða að standa sjálf undir kostnaði við slíkar aðgerðir. Ekki er eins og verðlagning ferðaþjónustuaðila sé svo knöpp, þvert á móti virðist þessi fyrirtæki, þó mörg séu, blómstra ágætlega.
Vissulega eru tiltölulega fá störf við stóriðjuna í landinu, ekki "nema" u.þ.b. 10 þúsund, með afleiðustörfum, jafnvel enn fleiri. Hins vegar eru þessi störf í öllum tilfellum vel launuð miðað við sambærileg störf. Stóriðjan kemst ekki upp með að vera með undirboð eða svarta starfsemi innan sinn vébanda.
Í ferðaþjónustu starfar hins vegar mun fleira fólk, hversu margir veit enginn þar sem svört starfsemi þar er fljótandi út um allt. Laun þeirra sem á annað borð eru gefin upp, eru með því allra lægsta sem þekkist og oftar en ekki undir lögbundnum kjarasamningu. Mesta vinna margra stéttarfélaga, þ.e. þeirra sem er stjórnað af fólki sem nennir, sú ein að reyna að fylgjast með og krefjast bóta á brotum á kjarasamningum. Þau ná þó aðeins litlum hluta þeirra brota. Samhliða aukningu ferðaþjónustunnar er kall eftir auknu húsnæði fyrir ferðafólk og spretta því hótelin upp sem gorkúlur út um allt land, þó geggjunin sé þó hvergi eins mikil og á höfuðborgarsvæðinu. Flutt er inn verkafólk til að byggja þetta húsnæði, oftar en ekki er svindlað á því kjaralega og þar blómstrar einnig svarta starfsemin.
Því er stöðugt haldið fram að stóriðjufyrirtæki greið ekki sína skatta hér á landi, stundi skattsvik. Engum hefur þó tekist að benda á nein lögbrot í því sambandi, ekki síðan nokkru fyrir síðustu aldamót. Stóriðjan er enda undir vökulum augum skattayfirvalda og útilokað fyrir þau að stunda einhver skattsvik. Bókhald þeirra er opið eftirlitsaðilum og í mörgum tilfellum hverjum sem vill. Hins vegar geta menn deilt um hvort þeir alþjóðasamningar sem við erum aðilar að séu okkur hagsælir, þegar kemur að skattlagningu þessara fyrirtækja. Eftir sem áður eru stóriðjufyrirtækin með allra stæðstu skattgreiðendum landsins, bæði í beinum og óbeinum sköttum.
Hvernig er þessu háttað í ferðaþjónustunni? Fjöldi fyrirtækja er sjálfsagt með óaðfinnanlegt bókhald, annar fjöldi, kannski stærri, er með bókhald sem ekki stenst skoðun og svo er fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu sem eru alls ekki til, bókhaldlega séð. Það er vitað að mikið ósamræmi er í aukningu gjaldeyris hér á landi, notkun erlendra greiðslukorta og yfirleitt aukning á neyslu ferðafólks, stenst engan veginn skattaskil ferðaþjónustunnar. Þetta hefur valdið skattayfirvöldum heilabrotum og þó vilji þar á bæ sé ríkur til að láta dæmið stemma, er langur vegur frá að það sé að takast. Það er því hverjum manni ljóst að skattsvik eru landlæg meðal ferðaþjónustunnar.
Það er ljóst að þetta "eitthvað annað" er ekki að virka sem skyldi hjá okkur, enda engin bönd eða nein stjórnun af neinu tagi á ferðaþjónustunni. Þar fær hið villta eðli gullgrafarans að ráða og mun það að lokum verða hennar banabiti.
Væri ekki betra að gera þetta af einhverjum sóma, að um þessa starfsgrein giltu sömu reglur og aðra starfsemi hér á landi. Ferðaþjónustufyrirtækin eru að selja afurð og fyrir hana verða þau að greiða, að lágmarki þannig að hægt sé að hafa einhverja stjórn og bönd á henni. Að blóðmjólka landið fyrir skammtímagróða mun aldrei skila neinu.
Það þarf auðvitað að setja mörk um fjölda ferðafólks til landsins, setja mörk um fjölda á hverjum stað og koma á stýringu. Það er galið að hver sem er geti selt ferðir hvert sem er án allrar stjórnunar eða eftirlits. Það er ekki fjöldi ferðafólks sem gildir, heldur gæði þeirrar þjónustu sem við veitum. Færra ferðafólk þarf ekki að þýða lægri tekjur af því, þvert á móti gætu þær bæði hækkað og orðið stöðugri og styrkari.
Þeim sem að einhverju leyti verða uppvísir að lögbrotum, hvort heldur skattsvikum eða öðrum lögbrotum, á umsvifalaust að úthýsa frá allri þátttöku í þessum geira, um aldur og ævi. Fyrir þá sem stunda þessa iðju af skynsemi og fara að lögum í landinu, er óþolandi að svikarar fái gengið lausum hala í þessari atvinnugrein.
Nú er talað um að ferðaþjónustan sé enn einn hornsteinn hagkerfis okkar. Því fer fjarri. Meðan þessi starfsemi er rekin með þeim hætti sem nú er, meðan skattsvik þykja eðlileg, meðan hver sem er getur gert hvað sem er, meðan engin stjórn er á þessum málum, er ferðaþjónusta stæðsta ógnin við hagkerfi þjóðarinnar.
Þetta þarf þó ekki að vera svona, þarf einungis að koma böndum á ferðaþjónustuna og reka hana eins og hjá siðmenntaðri þjóð!
Stóriðjan er sannarlega einn af hornsteinum okkar hagkerfis og það getur ferðaþjónustan einnig orðið. Það eina sem þarf er að ferðaþjónustunni verði sett sömu skilyrði og stóriðjunni. Að hér verði rekin sjálfbær ferðaþjónusta á besta hugsanlegan mælikvarða.
Gista í þvottahúsum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.