Gamlar fréttir

Þessi "opinberun" er í sjálfu sér ósköp fátækleg. Allir landsmenn vita að gífurlegt fjármagn "týndist" í tengslum við bankahrunið.

Hvar fólk geymir sitt fé skiptir ekki höfuð máli. Það sem máli skiptir er hvernig það fé er til komið, hvort um vafasöm eða ólögleg viðskipti er að ræða og það þá þýfi, eða hvort um er að ræða heiðarlega fengið fé. Þá skiptir öllu máli að það hafi verið upplýst hjá skattayfirvöldum um þá eign og greiddir af henni skattar.

Varðandi hjónakornin Jón Ásgeir og Ingibjörgu, kemur ekki enn fram hvort þetta er illa fengið fé né hvort af því hafa verið greiddir skattar hér á landi. Samkvæmt ummælum Ingibjargar, þá gerir hún greinarmun á hvar fé er geymt, hvort skattar skuli greiddir hér og því líklegt að ekki hafi verið greiddir skattar til íslenska ríkisins af því. Þá segir hún að viðskipti með það fé sem geymt er í skattaskjóli komi ekki við íslenskum fyrirtækjum hennar, að engin tengsl séu þar á milli. Eignarhald hennar af 365 miðlum er þó í gegnum fyrirtæki sem hún geymir í skattaskjóli, svo þar féll sú kenning.

Fréttamenn eða fréttamiðlar hafa þó hvorki vald né kunnáttu til að rannsaka þetta. Það er einungis saksóknari sem slíkt vald hefur og getu. Það er því með öllu óskiljanlegt að þessi gögn skuli ekki vera fyrir löngu komin í hendur hans, áttu að berast honum jafn skjótt og þau komu hingað til lands. Að öllum líkindum er meðferð Jóhannesar Kr á gögnunum og sú tregða að afhenda þau réttbærum yfirvöldum, búin að skaða málið svo að það verður ekki lengur dómtækt.

Það er búið að rústa mannorði nokkurra pólitíkusa hér á landi með þessum skjölum. Vel getur verið að hjónin Jón Ásgeir og Ingibjörg eigi sér einhverjar málsbætur í þessu máli. Það verður ekki vitað fyrr en saksóknar fær skjölin og rannsakar þau. Ef hann þá fær þau einhvertímann. Á meðan er mannorð JÁJ og IP rústað, að seku eða ósekju.

Er ekki búið að valda þjóðinni nægum skaða með þessum skrípaleik Jóhannesar Kr og sérvaldra fjölmiðla? Er ekki kominn tími til að taka réttarkerfið í notkun og láta fólk sem hefur vald og getu til að skoða þessi mál.

Hrunið olli þjóðinni miklum skaða, sumum varanlegum. Opinberun Panamaskjalanna er einungis einn liður í að rétta okkur af sem þjóð, liður sem vissulega kemur nokkuð seint. Að nýta þau til að rústa mannorði fólks, hvort sem það er sekt eða saklaust, að nýta þessi skjöl til að stofna til uppþota í þjóðfélaginu, að nýta þessi skjöl til eiginn frama, bæði fjárhagslega og pólitískt, lýsir best fávisku og siðleysi þeirra sem með skjölin höndla. Þetta fólk er engu betra en þeir sem sekastir kunna að vera, samkvæmt þessum skjölum.

Einhver kann að segja að með þessari færslu sé ég að taka málstað JÁJ og IP. Ekkert er fjarri mér en að mæra þau hjón, en allir verða að njóta réttmælis, líka þeir sem kunna að reynast sekir.

Við verðum að standa vörð réttaríkisins, ef við viljum halda sjálfstæði. Um leið og við færum dómsvaldið frá dómstólum og yfir til götunnar og fjölmiðla, hrynur lýðveldið.

Ég skora á Jóhannes Kr að afhenda þessi gögn strax til saksóknara, áður en skaðinn verður meiri á okkar þjóðfélagi. Hann er þegar orðinn nægur. Jóhannes Kr er örugglega búinn að taka afrit af gögnunum og því hefur hann það vald að geta opinberað gögnin síðar, ef saksóknari er ekki nógu duglegur að vinna úr þeim.

Mestu máli skiptir að saksóknari fái gögnin sem fyrst. Kannski er það þegar orðið of seint vegna meðferðar á þeim til þessa og þau ekki nýtanleg lengur fyrir dómstólum. Hins vegar gætu þau nýst honum til að finna eitthvað af því glataða fé sem hér hvarf í tengslum við hrunið. Kannski þarna sé eitthvað brot af þeim á annað þúsund milljörðum sem glötuðust vegna bónuskeðjunnar og tengdra fyrirtækja, fundið. Það getur enginn né má, rannsakað annar en embætti saksóknara. Þá er hugsanlegt að gögnin geti hjálpað til við saksókn á þeim málum sem enn á eftir að dæma í, vegna hrunsins.

Hvað sem öllu líður, þá má ekki gerast að rannsókn mála, saksókn og dómur, færist á hendi fjölmiðla og götunnar. Það er ekki lausn þess vanda sem hér skapaðist við hrunið, vanda sem margir eiga enn eftir að vinna sig úr og sumum tekst aldrei. Slík meðferð sakamála er einungis til þess fallin að auka enn á sundurlindi þjóðarinnar og valda sárindum hjá þeim sem verst urðu fyrir afleiðingum hrunsins.

Eina von þess fólks er að þessi mál gangi veg réttvísinnar, að réttarkerfið fái staðist!!


mbl.is Vísaði í frétt DV í svari til Kjarnans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband