Sjálfstæðisflokkur yfirtekur Framsókn

Það var vissulega happ fyrir suma þingmenn Sjálfstæðisflokks að dómstóll götunnar dæmdi SDG úr stól forsætisráðherra. Í stað hans kom maður sem er meðfærilegri og ekki eins fastur fyrir.

Og nú hafa þessir þingmenn virkjað formann sinn til óhæfuverka. Afnám verðtryggingar er kastað frá borði, búvörusamningurinn er kominn í uppnám og samningur við ESB um aukinn innflutning á matvælum skal virkjaður hið fyrsta. Tvö síðustu atriðin eru þó nátengd og verða að afgreiðast samtímis, en laumukratar Sjálfstæðisflokks vilja ekki hlusta á það.

Þetta gæti þó orðið dýrkeypt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kjósendur þess flokks, sem flestra annarra eru bundnir klafa verðtryggingar og ekki víst að kjósendur flokksins verði par hrifnir ef þessu máli er kastað fyrir róða.

Í samþykkt Sjálfstæðisflokka, á síðasta landsfundi segir meðal annars:

"Landsfundur leggur til að ríkisstjórn ráði færustu erlendu sérfræðinga til að leggja mat á hvernig hægt er að skipta út verðtryggðu lánaumhverfi og taka upp lánaumhverfi sem þekkist í nágrannalöndum okkar"

Þetta getur ekki verið skýrara og því ljóst að Sjálfstæðisflokkur ætlar að hundsa þessa landsfundarsamþykkt flokksmanna.

Í ljósi þessar samþykktar landsfundar Sjálfstæðisflokks frá árinu 2015, er rétt að benda á að landsfundur sama flokks árið 2013 samþykkti enn skýrari stefnu gegn verðtryggingu og í ljósi þess var málið sett í stjórnarsáttmálann, enda báðir flokkar með þetta á stefnu sinni. Strax í upphafi stjórnarsamstarfsins var skipuð nefnd sem átti að skila niðurstöðum um hvernig þetta yrði framkvæmt. Eitthvað misskildu flestir nefndarmenn erindi sitt. Einungis einn nefndarmaður skildi erindisbréfið rétt og skilaði hann tillögum um hvernig afnema ætti verðtrygginguna, hinir komu með nefndarálit um hvernig mætti minnka vægi hennar, en ekkert í erindisbréfinu hvað á um að það skyldi skoðað. Enn hefur ríkisstjórnin ekkert gert með þessi álit nefndarinnar, hvorki um afnámið né minnkun vægi hennar. Hins vegar hefur landsfundur Sjálfstæðisflokks, eftir að nefndin skilaði af sér, áréttað um afnám verðtryggingar!

Það gjörningaveður sem skapað var hér á landi fyrir tveim vikum síðan, um arf eiginkonu forsætisráðherra, gjörningaveður sem olli því að hann hefur nú stigið til hliðar, kætti margann stjórnmálamanninn. Þar sáu margir sæng sína útbreidda og ætluðu sér mikla sigra í kjölfarið.

Stjórnarandstaðan glutraði niður tækifærinu, fyrst og fremst vegna ákafa og óþverra orðbragðs, þar sem sannleikanum var umsvifalaust snúið á haus og ef það dugði ekki, þá kastað á glæ. Hún er nú sem vængbrotinn fugl og streðast við að halda sama sameiginlega fylgi og áður, þó einhver hreyfing sé á því milli hinna fjölmörgu hópa sem skipa nú stjórnarandstöðu.

Framsóknarmenn, samflokksmenn SDG, fóru hægar í sakirnar. Þó eru þar menn sem eru að nýta sér þessa uppákomu, sjálfum sér til hagsbóta. Sumir ganga lengra en aðrir og eigi þeir skömm fyrir. Verst er þó að enginn þingmaður þess flokks hefur burði eða vilja til að standa á þeirri grundvallar stefnu flokksins að afnema skuli verðtrygginguna. Eftir að SDG er frá er því leikur Sjálfstæðisflokks, gegnum samstarfsflokkinn auðveldur.

Mesta kátínan var þó innan Sjálfstæðisflokks, einkum meðal laumukrata þess flokks. Þeir hafa ekki legið á liði sínu og ætla sér stóra persónulega sigra. Þetta er að takast, þ.e. allt þar til kjósendur segja sitt orð í kosningum. Þá er víst að því fólki verður ekki hampað.

Formaður flokksins, fjármálaráðherra, kom sem klettur fram fyrir þjóðina meðan á gjörningaveðri fjölmiðla stóð. Margur fékk trú á honum og hélt að nú væri hann að sýna sig. Reyndar héldu fjölmiðla að mestu hlífiskildi yfir honum, enda verkefni þeirra fyrst og fremst að koma forsætisráðherra frá, að losa fjármagnsöflin við mestu ógnina.

Hvort fjármálaráðherra sýndi sitt rétta andlit í gjörningaveðrinu, andlit hins sterka, eða hvort hann er að sýna það nú, andlit hins undirgefna, skal ósagt látið. Víst er að þarna er um tvo persónuleika að ræða.

Hvað sem því líður, þá mun sú ákvörðun að ræða ekki frekar afnám verðtryggingar koma í bak Sjálfstæðisflokks. Stjórnarandstöðuhóparnir munu auðvitað taka þetta mál upp á sína arma. Margir kjósendur munu falla fyrir því, jafnvel þó á síðasta kjörtímabili hafi verið frekar unnið gegn afnámi verðtryggingar en afléttingu hennar.

Framganga sumra Framsóknarþingmanna í gjörningaveðrinu og nú eftir það, er með þeim hætti að rótgrónum framsóknarmönnum er nóg um. Því mun litlu breyta fyrir hann, úr því sem komið er, hvort afnám verðtryggingar verður eða ekki. Enda enginn þingmanna flokksins með hreðjar til að standa gegn yfirgangi laumukrata Sjálfstæðisflokks.

Það er sorglegt að horfa uppá stjórnmálamenn glutra frá sér tækifærum. Það er ljóst að verðtryggingin mun verða afnumin, einhvertímann. Annað gengur einfaldlega ekki upp, hvorki stjórnunarlega á hagkerfinu né fyrir alþýðu landsins. Sá eða þeir stjórnmálaflokkar sem munu standa að þeirri afléttingu, standa að þeirri losun hafta almennings, munu hljóta lof þjóðarinnar fyrir, um langan tíma.

Ljóst er að slíka kjarkmenn er ekki að sjá á Alþingi nú, þar er undirgefnin við fjármálaöflin allsráðandi, sama í hvaða horn eða skúmaskot er litið. Sá eini sem hingað til hefur sýnt þor til að ráðast gegn þessum öflum hefur verið hrakinn burt!!

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú getur þó glaðst yfir því að Píratar eru búnir að skilgreina sig.  Þeir hafa ákveðið að hlamma sér niður vinstra megin í forinni.  Þetta kalla þeir heiðarleika.  Ekki er öll vitleysan eins.  

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/16/vilja_reka_heidarleg_stjornmal/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.4.2016 kl. 11:43

2 identicon

Það er nú ekkert nýtt að sjálfstæðismenn hunsi Landsfundarsamþykktir, samanber Icesave, því spyr maður sig til hvers er verið að halda Landsfund. Nú eru sjálfstæðismenn búnir að stylla Framsóknarmönnum upp við vegg, og greinilegt að ekki stendur til að afnema verðtrygginguna.Nú á framsókn ekki nema einn leik í stöðunni, leggja fram frumvarp til laga, um að verðtrygggingin verði reiknuð út samaber 13gr. laga 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem verðbætur skuli greiðast í hverjum mánuði, og höfuðstóllinn lækki sem nemur afborguninni, og ef X-D hafnar verður að stóla á stjórnarandstöðuna, annars að að slíta stjórnarsamstarfinu og kjósa strax. Ef framsókn gerir ekkert geta þeir sleppt því að bjóða fram í næstu kosningum.

Björn Sig. (IP-tala skráð) 17.4.2016 kl. 13:53

3 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Það hlýtur að gerast þannig Björn Sig.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið andvígur að afnema verðtrygginguna, enda eru skjólstæðingar Sjallana peningaelítan. 

Ég held að stjórnarsamkomulagið hafi alltaf hljóðað upp á það að Framsókn setur fram frumvarp um afnám verðtryggingar og Sjallarnir styðji það ekki, þess vegna var það samkomulag að setja verðtryggingarfrumvarpið fram í enda núverandi rikisstjórnar, sem að ég voni að gerist.

Þetta er gott útspil og þá sjáum við virkilega hvar vinstriflokkarnir eru, greiða þeir atkvæði með frumvarpinu eða eru vinstriflokkarnir á móti almúga landsins og greiða atkvæði á móti frumvarpinu.

Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist í verðtryggingarmálinu og þetta væri gott trompspil fyrir Framsókn.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 17.4.2016 kl. 16:45

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sælir Björn og Jóhann.

Vissulega væri það útspil fyrir Framsókn að leggja fram þingmannafrumvarp um afnám verðtryggingar.

En eru einhverjir þar eftir sem hafa hreðjar til þess? Mun ekki verða lúffað fyrir Sjálfstæðisflokknum?

Það er vissulega rétt að innan Sjálfstæðisflokks eru sterk öfl sem vilja halda verðtryggingunni. En meðal kjósenda þess flokks og grasrótarinnar sem mætir á landsfundi, er sterkur vilji til afnáms hennar.

Atkvæðin fær Sjálfstæðisflokkur fyrst og fremst frá almennum kjósendum. Fá atkvæði er hægt að sækja til fjármálaaflanna. Svo merkilegt sem það nú er, þá hefur okkur enn tekist að halda sama vægi atkvæðis milli kjósenda, óháð efnahag þeirra.

Gunnar Heiðarsson, 17.4.2016 kl. 16:52

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Elín, það er fátt að gleðjast varðandi Pírata, nema að fylgi þeirra er farið að stefna niðurá við. Nýjasta útspil þeirra, að skilgreina sig til vinstri, mun vissulega hraða þeirri þróun.

Gunnar Heiðarsson, 17.4.2016 kl. 16:55

6 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Það ku vera rétt að Landsfundur Sjalla hefur haft meirihluta fylgjandi afnámi verðtryggingu ef eitthvað er að marka fréttir af þeirri samkundu.

En það er nú svo furðulegt að það sem er samþykkt á landsfundum bæði á Íslandi og í öðrum löndum, að það er ekki alltaf farið eftir vilja landsfunda.

En ég endurtek; hef alltaf haft það á tilfinningunni að stjórnarsamkomulagið hafi verið að verðtryggingin verði það síðasta sem verður lagt fyrir þingið og Bjarni gat ekki lofað að Sjalfstæðisflokkurinn kæmi til með að styðja frumvarpið. Þannig að ef að frumvarpið yrði að lögum með fylgi vinstriflokkana og Sjallar á móti, þá væri ástæðulaust að krefja stjórnarflokkana til að segja af sér og bjóða til kosninga, af þvi að kosningar yrðu hvort sem er eftir kanski 2 mánuði.

Ef báðir flokkar hafi haft 100% samstöðu með afnámi verðtryggingar, þá held ég að það hafi verið eitt það firsta sem Rikistjórnin hafi sett fram, af því að mikill hluti landsmanna vill afnema verðtryggingu og vinsældir flokkana hefðu farið upp sem um munaði.

Bara mín vangaveltan um verðtryggingarmálið.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 17.4.2016 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband