Aflandseyjan Ísland
2.4.2016 | 23:13
Sennilega er engin aflandseyja meiri og betri en Ísland, þ.e. fyrir þá sem búa erlendis. Auðvitað getur Ísland aldrei orðið aflandseyja fyrir þá sem hér búa, ekki frekar en Tortóla getur ekki verið aflandseyja fyrir íbúa þeirrar eyjar. AFLANDS þýðir auðvitað eingöngu annað land en viðkomandi býr í. Hvergi þekkjast hærri vextir en hér á landi.
Reyndar ætlaði ég ekki að rita staf um þær deilur sem nú hafa litað umræðuna hér á landi síðustu daga, fyrr en allar staðreyndir lægju á borðinu, þó margir hverjir hafi verið fljótir til að dæma án staðreynda. Það liggur fyrir að þetta dæmi er mun stærra en hingað til hefur komið fram og við einungis séð toppinn af ísjakanum. Þó verð ég að segja að mér brá nokkuð þegar í ljós koma að ég sjálfur, sem hef samviskulega greitt alla mína skatta og gjöld til samfélagsins hér á landi, alla mína tíð, er eigandi fjár á aflandseyjum eða svokölluðu skattaskjólum. Nú nagar mig efinn um hvort ég er lögbrjótur við skattaskil á Íslandi, en útilokað er fyrir mig að komast að því, þar sem umsjónaraðili minn fyrir þessu fé eru lífeyrissjóðir. Samkvæmt þeirri sömu frétt eiga flestir landsmenn töluverða fjármuni í aflöndum og hugsanlega skattaskjólum. Það tók vissulega á mig að komast að þessari staðreynd.
En hvað er skattaskjól? Það er með það orð eins og aflandslönd að þar fer túlkun auðvitað eftir framkvæmd. Ef geymt er fé erlendis kallast það aflands og ef greiddur er skattur af því fé erlendis eða ekki, kallast það skattaskjól. Þeir sem geyma fé erlendis og greiða af því skatta hér á landi, eru því ekki í skattaskjóli, hvert sem nafn á því aflandi er sem peningarnir eru geymdir í. Þeir sem geyma sitt fé erlendis og greiða ekki af því skatta eru sannarlega brotlegir við lög, ekki hinir. Þetta er auðvitað einfalt og ætti öllum að vera ljóst.
En að umræðunni hér á landi síðustu daga. Ekki ætla ég að gera tilraun til að skrifa um þátt ruv í þessari umræðu. Fréttastofan hefur sjálf dæmt sig í þeim leik og allt of langt mál að skrifa um þá firru alla. Fáránleiki fréttastofu og pólitísk ítök sumra stjórnmálaflokka innan stofnunarinnar hefur þar opinberast svo vart verður um deilt. Engin furða þó Sigmundur Davíð vilji ekki ræða þessi mál við þá stofnun. Reyndar er vandséð að lengur verði haldið uppi þessari stofnun af sameiginlegum sjóðum landsmanna, eftir afrek síðustu daga og spurning hvort ekki eigi bara að arfleiða VG og Samfylkinu hana. Mun réttara að þeir flokkar greiði fyrir þann ósóma sem frá ruv kemur, en saklausir landsmenn sem vilja það eitt að fá réttar og sannar fréttir.
Fljótlega kom í ljós að fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingar er einn þeirra sem á peninga erlendis. Þessi maður var vel virkur innan stjórnkerfisins og mótandi þar meðan síðasta ríkisstjórn sat. Hann hefur hins vegar aldrei setið á Alþingi, en það er ekki mælikvarði á vald eða áhrif á það sem stjórnvöld framkvæma hverju sinni. Svo merkilegt sem það er, þá kallar núverandi formaður Samfylkingar eftir að þessi maður fái friðhelgi. Þetta væri kannski ekki undarlegt, nema fyrir það að téður formaður hefur gengið hart fram í árásum á forsætisráðherra. Þó liggur fyrir að það er eiginkona forsætisráðherra sem á peninga erlendis, ekki hann sjálfur og af þeim peningum hefur samviskusamlega verið greiddir skattar hér á landi. Það liggur einnig fyrir að fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingar á ekki einungis fé í einu aflandi, heldur nær net hans yfir fjölda aflanda og að skattar hafa ekki verið greiddir af því fjárhaldsneti hér á landi. Með þessari kröfu sinni hefur formaður Samfylkingar opinberað tvískinnungshátt sinn að fullu. Ekki að furða þó flokkur hans sé að þurrkast út af pólitíska sviðinu hér á landi.
Enn hafa einungis nokkur nöfn verið nefnd í þessari umræðu og víst er að þeim mun fjölga verulega. Pandóruboxið hefur verið opnað og snákarnir flæða úr því. Sennilega eru allir stjórnmálamenn stjórnarflokkanna þegar nefndir, en hugsanlegt er að fréttastofa ruv haldi verndarhendi sinni yfir einhverjum þingmönnum, núverandi eða fyrrverandi, stjórnarandstöðuflokkanna.
Hvað sem því líður, þá er ljóst að eignir Íslendinga erlendis eru margfalt meiri en þegar hefur komið fram, jafnvel þó eignir landsmanna erlendis gegnum lífeyrissjóðanna sé dregin þar frá. Því er ljóst að enn eiga eftir að koma upp mörg nöfn. Margir þeirra sem nefndir munu verða eru einfaldlega fólk úr viðskiptalífinu, en eins og landsmenn þekkja er siðferði flestra þeirra á afar lágu plani. En það munu örugglega einnig dúkka upp nöfn manna sem eiga eða hafa átt beinan þátt í stjórnun landsins. Þingmenn og ráðherrar eru einungis hin opinberu andlit stjórnkerfisins, hinir raunverulegu stjórnendur sjást sjaldan. Ekki mun ég dæma þetta fólk af eignum þess, né hvar þær eru geymdar. Dómur minn mun alfarið verða um hvort þetta fólk hefur greitt sín gjöld af þessu fé til sameiginlegra sjóða okkar og auðvitað af því hvernig þessir fjármunir urðu til. Um það snýst málið og ekkert annað.
Siðferði. Mikið hefur verið rætt um siðferði stjórnmálamanna og margir sem halda því fram að það sé siðlaust að eiga mikið fé. Að það sé siðlaust að geyma það erlendis. Þetta er vissulega skoðun og hverjum frjálst að hafa hana. En menn ættu aðeins að spá í hvað felst í slíkri skoðun, hvort mismuna eigi fólki eftir efnahag og útilokun efnafólks frá stjórnun landsins sé af hinu góða. Þar eiga allir að sitja jafnir, þó vissulega megi halda því fram að efnað fólk sem velur að fara í stjórnmál geri slíkt af hugsun, meðan sá efnaminni gerir slíkt kannski frekar fyrir launin.
En siðferði snýr ekki að peningum, svo fremi að þeir séu taldir fram til eignar og af þeim greidd þau gjöld sem lög hverju sinni kalla eftir. Siðferði snýr að því hvernig ákvarðanir eru teknar og þar getur margt legið að baki. Var það merki um gott siðferði að lofa þjóðinni kvöldi fyrir kosningar að ekki yrði sótt um aðild að ESB en svíkja það síðan daginn eftir? Var það merki um gott siðferði að segja þjóðinni tveim dögum fyrir kosningar að enginn icesave samningur væri í burðarliðnum en taka síðan á móti sendiboðum sínum þrem dögum síðar, með samning undir höndum? Var það merki um gott siðferði að krefjast þess af þingheim að sá samningur skyldi samþykktur óskoðaður, af Alþingi? Svona mætti lengi halda áfram, en megin málið er að öll verk síðustu ríkisstjórnar báru merki um algeran siðferðisbrest. Hverjar ástæður þess voru á eftir að koma í ljós.
Það er því siðferðisbrestur þegar stjórnmálamenn breyta ekki eftir því sem þeir lofa. Alvarleiki þess brests fer síðan eftir því hversu mikilvægt málefnið er og hversu oft menn verða uppvísir af slíkum brotum. Núverandi ríkisstjórn gæti sannarlega orðið uppvís af slíkum siðferðisbrotum, en enn er ekki hægt að dæma hana. Það verður ekki gert fyrr en að loknu kjörtímabilinu, þá mun sjást hvort við öll loforð verður staðið. Margt hefur þó áunnist og engin ástæða að ætla að ekki verði þau mál sem eftir eru kláruð. Þar vigtar auðvitað mest afnám verðtryggingar.
Og þegar það orð kemur upp, verðtryggingin, þá vakna ýmsar spurningar, svona í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið undanfarna daga. Mun t.d. nafn Seðlabankastjóra koma upp í þeirri umræðu? Allir vita að hann er ekki á flæðiskeri staddur fjárhagslega og spurning hvar hann geymir sitt fé. Er það í Svissneskum banka og ef svo er hafa verið greiddir af þeim skattar hér á landi? Eða flutti hann sitt fé til landsins? Og ef svo er, nýtti hann sér þá þá aflætti sem bankinn gefur? Hvort heldur er, þá væri skömminni skárra að hann geymdi sitt fé í Svissneskum banka, svo fremi að af því fjármagni séu greiddir skattar hér á landi. Hitt væri merki um mjög mikinn siðferðisbrest, ef hann hefur flutt sitt fé hingað heim, að maður tali ekki um ef hann hefur notið afsáttarins og aukið fjármagn sitt um 20% með því. Verst væri þó að vita að hann geymdi sitt fé hér heima í ljósi þess að hann er nánast einráður um hvert vaxtastig er hér á landi hverju sinni, en hvergi í heiminum er það hærra.
Nafn annars manns, sem hefur verið drjúgur í stjórnmálaumræðunni síðustu misseri og kallast því sannarlega stjórnmálamaður, en það er Kári nokkur Stefánsson. Upplýst hefur verið að hann flutti gegnum Seðlabankann inn 800 milljónir króna. Væntanlega hefur það fé aukist um 20% við þessa millifærslu. En hvernig eignaðist Kári þetta fé? Hvernig gat hann átt yfir 800 milljónir aflands? Hvernig varð það fé til? Greiddi hann skatta af þessu fé hér á landi, meðan það var í geymslu aflands? Kári þessi átti viðskipti við stórann hluta þjóðarinnar, fyrir nokkrum árum síðan. Allir töpuðu á þeim viðskiptum við Kára, margir hverjir aleigunni!!
Ég kaus Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum og skammast mín ekkert fyrir það. Ekki er ég þó flokksbundinn, heldur vel mínu atkvæði stað í hverjum kosningum sem mér þóknast best. Oft hef ég einfaldlega haldið því fyrir mig.
Ástæða þess var fyrst og fremst málflutningur Sigmundar Davíðs, jafnvel þó allir segðu hann vera óraunhæfan. Hann hélt því fram að hægt væri að losa um fjármagnshöftin með því að láta kröfuhafa greiða fyrir þann skaða sem slík aflétting gæti valdið. Aðrir flokkar voru allir með lausnir sem byggðu á lántökum til að greiða þann skaða, þáverandi stjórnarflokkar ætluðu að fá slíkt lán hjá ESB, í tengslum við inngöngu í þá brunarúst. Sjálfstæðisflokkur var með ákaflega loðnar lausnir, sem í stuttu máli fólust í að þjóðin tæki þann skaða á sig. Þetta markmið Sigmundar Davíðs er langt komið með að takast, alla vega sá þáttur að láta kröfuhafa greiða lausnargjald sitt. Svo undarlega beri við nú að þeir sem sögðu hann fara með fleipur fyrir kosningar, telja nú að ekki hafi verið nógu langt gengið! Íslensk stjórnmál eiga engan sinn líka!
Auðvitað vissi ég að Sigmundur Davíð væri að efnafólki kominn og eiginkona hans einnig. Ég vissi líka að þau hjón bjuggu erlendis síðustu árin áður en hann kom í íslensk stjórnmál. Því kom mér ekkert á óvart þegar eiginkona hans upplýsti þjóðina um erlenda eign sína, fannst það frekar vera léttir. Það er með hann eins og Seðlabankastjóra, að mér líður betur að vita að peningarnir séu geymdir erlendis, enda þá minni hagsmunir af þeim við ákvarðanatökur hér heima. Hitt áttaði ég mig ekki á að hann væri beinlínis að snuða sína fjölskyldu með framgöngu sinni og vænt þætti mér um ef einhver annar stjórnmálamaður gæti sýnt fram á það sama! Þau rök að ekki hafi verið gengið nægjanlega langt gegn kröfuhöfum, sé vegna þessarar eignar eiginkonunnar, standast ekki. Sér í lagi þegar slík rök koma úr kjafti þeirra sem héldu því fram að til kröfuhafa væri ekkert að sækja, að eignaréttur þeirra væri heilagur. Tvískinnungur þeirra sem svo tala lýsir best pólitískri heimsku þeirra!
Menn ættu að hræra svolítið upp í gráa grautnum sem er í kúlunni sem situr á búk þeirra og mynnast umræðunnar fyrir síðustu kosningar. Þá geta menn séð að Sigmundur Davíð gekk þá götu sem hann ætlaði, götu sem allir aðrir töldu ófæra. Þá geta menn einnig spurt sig hvers vegna aðrir stjórnmálaflokkar töldu þá leið ófæra og hvort hugsanlega einhverjir eiginhagsmunir hafi stjórnað þeirra hugsun. Hvort það gæti verið að fylgispekt síðustu ríkisstjórnar, bæði fyrir kosningar og ekki síður eftir að þjóðin hafði kastað henni frá völdum, við kröfuhafa föllnu bankanna hafi stafað af einhverjum eiginhagsmunum!!
Eins og fyrr segir þá höfum við enn einungis séð toppinn af ísjakanum. Auðvitað er nauðsynlegt að öll spil verði lögð á borðið, að nöfn allra þeirra sem í skjalinu eru verði gerð opinber. Að fyrir hvern og einn þeirra verði upplýst hvernig þeir eignuðust það fé sem þeir geyma erlendis og hvort af því hafi verið greiddir skattar og gjöld. Innan þessa hóps er örugglega fjöldi fólks sem er heiðarlegt og hefur greitt sín gjöld til samfélagsins. Fyrir það er mikilvægt að afbrotamenn verði afhjúpaðir.
En það þarf auðvitað að opna fleira en þetta. Alla leynd af skjölum Alþingis varðandi stofnun nýju bankana og samskipti stjórnvalda við kröfuhafa verður að opna. Hugsanlega er með því hægt að fá útskýringar á þeirri hegðun sem síðasta ríkisstjórn viðhafði. Mögulegt er að sú hegðun eigi sér eðlilegar skýringar og afléttu leyndar yfir þessum skjölum mun þá sýna það.
Þetta er ekki allt, það þarf einnig að upplýsa þjóðina hvers vegna sumir fengu að halda sínum eignum eftir hrun meðan aðrir urðu að sætta sig við að þær voru af þeim teknar. Þarna er fyrst og fremst verið að tala um fyrirtæki landsins, en auðvitað má einnig skoða hvers vegna bönkum var gert kleyft að taka íbúðarhúsnæði af fólki, sem svo var svo óheppið að taka ólögleg lán fyrir þeirri fjárfestingu eða hin landsfrægu verðtryggðu lán. Hvort þeir aðilar sem misstu sínar eignir á þeim forsemdum eigi ekki einhverjar kröfur á bankana.
Þá þarf ekki seinna en strax að afnema verðtryggingu lána hér á landi og taka upp heilbrigt vaxtakerfi, eins og þekkist í öllum hinum vestræna heimi.
Vill að Vilhjálmur njóti friðhelgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:26 | Facebook
Athugasemdir
Thakka gódan og skeleggan pistil. Thad er óskandi ad umraedan um öll thessi mál, verdi adeins hófstilltari en hún hefur verid og ad allt verdi dregid fram, sem máli skiptir. Thad er kominn tími til ad thjódinni sé sýndur sá sómi ad upplýsa hana um thad sem makkad var á bak vid tjöldin eftir hrun, alveg eins og ad upplýsa um eignir lífeyrissjóda á erlendum reikningum. Launthegar landsins eru jú eigendur ad theim fjármunum, eins og síduhöfundur bendir réttilega á.
Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.
Halldór Egill Gudnason (IP-tala skráð) 3.4.2016 kl. 00:25
Góður sem fyrr þakka þér þennan pistil Gunnar Heiðarsson.
Helga Kristjánsdóttir, 3.4.2016 kl. 02:14
Kærar þakkir fyrir þennan pistil. Vonandi bera menn gæfu til að ræða þessi mál á öfgalausan og málefnalegan hátt á næstu vikum. Því miður er ég ekki viss um að það verði þannig.
Skarfurinn.
Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 3.4.2016 kl. 06:54
Nokkuð langt, en þörf skapar gott mál hjá þér Gunnar Heiðarsson og hafðu þökk mína fyrir.
Hrólfur Þ Hraundal, 3.4.2016 kl. 09:23
Þakka góðan pistil það er komið inn á allt sem í raun skiptir máli
Jón Aðalsteinn Jónsson, 3.4.2016 kl. 12:28
Lengi getur böl versnað
20.10.2013 | 15:42
Meðan Bandaríkin taka hart á öllu er snýr að fjárplógstarfsemi, eins og að dæma þá einstaklinga sem voru í forsvari fyrir sukkinu í margfölld ævilöng fangelsi og láta síðan fyrirtækin sjálf borga sektir af áðuróþekktum upphæðum, er eins og ekkert hrun hafi orðið hér á landi.
Hér á landi er þeim mönnum sem voru í aðalhlutverki hrunsins tekið fagnandi þegar þeir koma aftur heim með fullar töskur af dollurum sem þeir náðu að koma undan og földu á Tortóla, fyrir hrun. Ekki nóg með að þeim sé fagnað, heldur kaupir Seðlabankinn þann gjaldeyri af þessum mönnum á yfirverði. Peningana nota svo víkingarnir til að kaupa aftur fyrirtækin sem þeir notuðu sem skálkaskjól til að koma fé úr landi, auk lögfræðikostnaðar til að verjast dómskerfinu. Auðvitað átti Már bara að taka við töskunum og þakka pent fyrir. Það var engin ástæða til að greiða fyrir innihald þeirra og allra síst á yfirverði.
Að einhver sé dæmdur fyrir sinn þátt virðist vera útilokað. Reyndar hafa tveir dómar fallið, en þeir eru frekar í ætt við dóma fyrir búðahnupl en bankarán. Og fyrirtækin eru ekki sektuð. Bankarnir safna auð sem aldrei fyrr og er hagnaður þeirra miklu meiri nú en fyrir hrun, þökk sé blessaðri verðtryggingunni og heiðarlegu fólki sem borgar samviskusamlega af sínum lánum.
Við bankahrunið opnaðist Pandórubox spillingarinnar hér á landi. Spillingar sem almenningur var grunlaus um en hafði staðið um nokkra hríð. Eftir hrun héldu flestir að siðferðið myndi breytast og vissulega hefur það breyst og það mikið.
En ekki til batnaðar!!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Þetta eru orð síðuhafa 2013. Hvernig væri að vera samkvæmur sjálfum sér.
Jónas (IP-tala skráð) 3.4.2016 kl. 16:41
Þakka góðar athugasemdir. Átti reyndar von á að fá yfir mig holskeflu blótsyrða og fleira í þeim dúr. Það er huggun að vita að til er fólk sem vill ræða málið málefnalega, án þess að ráðast gegn persónum. Takk fyrir það.
Þetta er hárrétt hjá þér Jónas og litlu við að bæta. Kannski upplýsingar þær sem ruv hefur verið að flagga varpi einhverju ljósi á þessa spillingu, hina raunverulegu spillingu þar sem fé var tekið ófrjálsri hendi og það falið. Þá verður ruv auðvitaða að leggja öll spil á borðið, ekki bara þau sem fréttastofu þóknast og styður það pólitíska spil sem hún spilar. Ef þingmenn hafa dug til að varpa leyndinni sem er á skjölunum í leyniherbergi Alþingis, mun sjálfsagt verða hægt að gera sér enn frekari grein fyrir þeirri spillingu.
Það er með öllu óskiljanlegt að þegar Seðlabankinn ákvað að verðlauna þá sem komu með fjársjóði til landsins, skuli ekki hafa verið sett ströng skilyrði um að þeir sem slíkt ætluðu að nýta sér yrðu að gera grein fyrir uppruna þess fjár. Hvar í veröldinni er hægt að fá verðlaun frá seðlabanka þjóðar fyrir það eitt að skila aftur þýfi? Hvar í veröldinni er hægt að koma með fúlgur fjár inn í hagkerfi, án þess að uppruni þess sé sannreyndur?
Slíkt kallast á mannamáli peningaþvætti og er lögleysa í flestum ríkjum heims!!
Gunnar Heiðarsson, 3.4.2016 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.