Snákaolíusölumenn
6.3.2016 | 23:02
Það er vissulega margt sem betur má fara í þjónustu við ferðamenn hér á landi. En það verður auðvitað að vera einhver skynsemi í kröfum um bætur. Er nauðsynlegt að halda hvaða göngustíg sem er opnum allan veturinn, með tilheyrandi kostnaði? Er ekki eitthvað annað þarfara, eins og bætur í salernismálum vítt um landið, svo ferðamenn þurfi ekki að ganga örna sinna í húsagörðum fólks?
Erlendis þykir ekkert tiltökumál að sumum ferðastöðum sé lokað eða aðgengi þeirra takmarkað, yfir vetrartímann. Þar er stígum og heilu svæðunum lokað og engum dettur til hugar að brjóta slíkar lokanir, enda oftar en ekki fangavist vís við slík afbrot.
Enginn getur keypt sig inn á Yellowstone þjóðgarðinn yfir vetrartímann. Víða, t.d. við Mt'Rushmore eru göngustígar lokaðir, þó hægt sé að komast á bílastæðin þar, yfir vetrartímann. Fólk sem vill heimsækja þann stað á þeim tíma gengur að því vísu að útsýnið er takmarkað af þessum sökum.
Er ekki vandinn hér sá að fólki er seld vara sem ekki er til? Væri ekki réttara að gera fólki grein fyrir að ekki sé allstaðar hægt að komast að vinsælum ferðastöðum hér á landi yfir vetrartímann? Að ferðafólk sem hingað kemur á þeim tíma gangi að því vísu að um takmarkað aðgengi sé á sumum stöðum.
Það hlýtur að vera í verkahring ferðaþjónustunnar að sjá til þess að ferðafólk sé rétt upplýst. Að ferðafólki sé seld vara sem hægt er að afhenda.
Með þeim hugsanahætti sem fram kemur í þeirri frétt sem þetta blogg er hengt við, er víst að ferðaþjónustunni mun verða rústað og það fyrr en seinna. Gullgrafaraæðið er farið að sýkja ferðaþjónustuna meira en góðu hófu gegnir.
Þar er hver snákaolíusölumaðurinn af öðrum.
Rústum ferðaþjónustu líkt og síldinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvaða stefnu ætli Píratar hafi í þessum málum? Ég er með hugmynd fyrir þá. Setjum kvóta á hámarksfjölda sæta sem má selja? Og leyfum flugfélögunum að slást um þennan uppboðskvóta. Þannig stýrum við fjöldanum og öflum fjár fyrir kostnaði af þessum átroðningi.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.3.2016 kl. 00:51
Hvað segir Ögmundur Jónasson nú? Eða Steingrímur Gunnarsson leiðsögumaður? Er hann ennþá vopnaður járnsög á ferðum sínum um landið?
http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/04/12/hopur-folks-aetlar-fritt-inn-a-geysissvaedid-i-dag/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.3.2016 kl. 09:15
Ég er með betri hugmynd fyrir Sjóræningjana svo að þeir þurfa ekki að lýsa yfir einhverri stefnu flokksins í þessu malefni.
Setja málið í þjóðaratkvæðisgreiðslu.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 8.3.2016 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.