Manni er gjörsamlega misboðið

Verið getur að forstjóri Lýsis telji virkilega að hún og þeir sem með henni störfuðu við útskipun í Straumsvík hafi verið að bjarga fyrirtækinu frá skaða. Ef svo er þá er hugsun þessa forstjóra ansi grunn og reyndar bendir öll fréttin til að staðreyndin sé einmitt sú.

Forstjóri lýsis segir að 11 starfsmenn standi að verkfallinu í Straumsvík og standi í veg fyrir launahækkun til annarra starfsmanna. Það eru öll stéttarfélög sem samning eiga við Rio Tinto í Straumsvík, utan skrifstofufólks, sem stendur að verkfallinu. Og það er ekki vegna verkfallsins sem ekki næst að semja, heldur er verkfallið til komið vegna þess að fyrirtækið neitar með öllu að semja við starfsmenn nema að uppfylltu óaðgengilegu skilyrði.

Þá kvartar forstjórinn undan umræðunni sem orðið hefur vegna þessarar vinnu hennar og kollega við útskipun í Straumsvík. Hún síðan klikkir út með því að nefna kynferði sitt í því sambandi. Forstjóri Lýsis getur alveg gengið að því sem vísu að kynferði hennar kemur málinu ekkert við, nema ef vera skyldi til mildunar umræðunnar. Víst er að þó einungis karlar hefðu unnið við þessa útskipun hefði sannarlega verið sett í umræðuna launakjör þeirra sem hæðstu launin höfðu við þessa útskipun og hvernig farkostum þeir mættu á til vinnu. Það er ekki á hverjum degi sem sést hér á landi löndunargengi sem hefur nokkrar milljónir í laun á mánuði og mætir til vinnu á bílum sem kosta um eða yfir 20 milljónir króna!

Þá telur forstjóri Lýsis að einhverjir séu að reyna að hrekja Rio Tinto úr landi og gefur í skyn að þar séu fremstir í flokki starfsmenn fyrirtækisins. Ekki ber þetta merki um að forstjóri tali, svo vitlaust sem það er. Ef einhver er að reyna að hrekja starfsemi Rio Tinto úr landi er það sjálft fyrirtækið. Það liggur fyrir að fyrirtækið gerði slæma orkusamninga og einnig liggur fyrir að fyrirtækið hefur fjárfest í breytingum sem ekki skila árangri. Þetta tvennt gerir að verkum að fyrirtækið er rekið með tapi. Færsla á störfum við ræstingar, mötuneyti og öryggisgæslu mun eingin áhrif hafa á þann taprekstur. Hins vegar er ljóst að laun þessara hópa mun lækka verulega við slíka breytingu, þó ekki sé nema af þeirri einu ástæðu að við bætist milliliður sem að sjálfsögðu vill fá einhvern arð af þjónustunni við Rio Tinto.

Starfsmenn standa því ekki harðir gegn kröfum Rio Tinto vegna þess að þeir óski þess að fyrirtækið loki, eins og forstjóri Lýsis telur, heldur standa þeir harðir gegn þessari kröfu til að verja launakjör sinna samstarfsmanna.

Reyndar er ekkert í kjarasamningi starfsmanna Straumsvíkur við sinn atvinnurekenda sem bannar verktöku. Fyrirtækinu er í sjálfs vald sett að bjóða hvaða verk sem er út, en með þeim skilyrðum að laun þessa fólk haldi sér, að sömu laun séu greidd fyrir sömu vinnu, hver sem launagreiðandinn er. Það myndi hins vegar auka kostnað fyrirtækisins verulega, enda eins og áður segir þá vill auðvitað milliliðurinn fá sitt.

Manni er gjörsamlega misboðið þegar forstjóri fyrirtækis talar á þann hátt sem forstjóri Lýsis gerir. Þetta ber merki þess að blessaður forstjórinn hafi ekki hundsvit á rekstri fyrirtækja, mannlegum samskiptum eða yfirleitt neinu sem að starfsmannahaldi snýr. Og þetta er með launahæstu forstjórum landsins. Fyrir hvað?!!

Einn góður maður, sem um margra ára skeið var forstjóri í einu af stóriðjuverum þessa lands, sagði eitt sinn að fyrirtækið er starfsfólkið. Hús tæki og búnaður er bara járnadrasl sem starfsfólkið nýtir til að búa til verðmæti. Það færi betur ef fleiri forstjórar hefðu jafn heilbrigða hugsun og þessi maður hafði!


mbl.is „Manni er gjörsamlega misboðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur og málefnalegur pistill hjá þér, 

Evert (IP-tala skráð) 5.3.2016 kl. 07:52

2 identicon

Gunnar, oftar en ekki er ég sammála skrifum þínum en ekki núna.  Er það þín skoðun að þegar upp koma deilur á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga þá eigi atvinnurekendur alltaf að ganga að öllum kröfum stéttarfélaga en eigi ekki undir neinum kringustæðum rétt að gera neinar kröfur? Geta atvinnurekendur aldrei átt réttmætan málstað? Er það hin gefna niðurstaða?  Ég held að ég hafi aldrei orðið vitni af jafn furðulegum forsendum fyrir því að keyra samninga um kaup og kjör í hnút og stéttarfélögin eru að gera í þessu máli.  Ísal býður allt það sem aðrir aðilar á mrkaðnum hafa fengið ofan á laun sem eru hærri en gengur og gerist. Fyrirtækið gerir eingöngu þá kröfu að fá að sitja við sama borð og aðrir varðandi hugsanlega verktöku og hefr boðið góðan aðlögunartíma í þessu sambandi þannig að fullorðnir núverandi starfsmenn lendi ekki illa í því. Afhverju er það ósanngjörn krafa?

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 5.3.2016 kl. 10:18

3 identicon

Er ísal að bjóða sömu kauphækkanir og hin almenni markaður hefur gert ? 
á núverandi kjarasamningi borgar álverið í straumsvík nýjum starfsmenni 214000 kr. í byrjunarlaun. 

Álverið í straumsvík ef langt frá því að samþykkja einhvern SALEK sáttmála SA og ASÍ 

Á okkar tímum þegar atvinnurekendur nýðast á verkafólki er það skylda okkar að vernda öll störf og láta ekki atvinnurekendur komast upp með það að borga lágmarkslaun. 

Við sjáum bara hvað er að gerast í ferðamannabransanum hér á landi. 

Galfýr (IP-tala skráð) 5.3.2016 kl. 10:31

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gunnar, varst þú ekki að leggja til í pistli fyrir nokkrum dögum, að við ættum að lækka raforkuverðið til Rio Tinto?  Mér vitanlega kemur það ekki þessari vinnudeilu við en hvort heldur þú að sé þjóðhagslega hagkvæmara

1. Falla frá gömlu ákvæði í kjarasamningum, sem tryggir verkalýðsfélagi afskipti af rekstri fyrirtækisins eða

2. Taka upp nýgerðan raforkusamning og lækka hann um einhverja milljarða eins og þú og Vilhjálmur Birgisson viljið ólmir gera.

Og hvers vegna þessi fjandsamlega afstaða gegn Katrínu Pétursdóttur? Hún er þarna sem stjórnarmaður í Ísal en ekki forstjóri Lýsis. Henni finnst það ábyggilega álíka fúlt og Gylfa Ingvarssyni að dómarar hafi úrskurðað að stjórnarmenn fyrirtækis gætu gengið í störf verkfallsmanna.  Þessi úrskurður dómsins er fáheyrður og honum verður að hnekkja.  Bara útaf vinnuöryggi er það forkastanlegt að þetta fólk hafi verið neytt til að ganga í þessi störf.  Hvað ef þarna hefði orðið vinnuslys?  Voru menn ekkert að hugsa?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.3.2016 kl. 11:58

5 identicon

Það er hluti af kjörum starfsmanna í Straumsvík, og hefur verið lengi, að verk þeirra verði ekki boðin út. Öllum ætti að vera ljóst að þetta er mikilvægt atriði fyrir starfsöryggi þeirra.

Það er mjög óvenjulegt að samningar gangi út á að starfsmenn missi réttindi sem þeir hafa. Það er því eðlilegt að starfsmenn Rio Tinto ljái alls ekki máls á að verk þeirra verði boðin út. Í því sambandi skiptir engu máli hvað önnur fyrirtæki, sem hafa ekki gert slíka samninga, búa við.

Það er ljóst að þetta atriði skiptir fjárhagslega litlu máli fyrir Rio Tinto. Tilgangurinn virðist því vera að brjóta starfsmennina niður eins og fyrirtækið er alræmt fyrir víða ef marka má fréttir.

Það er réttur starfsmanna að neita að gefa eftir réttindi. Rio Tinto ætti að haga sínum samningum í samræmi við það. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.3.2016 kl. 13:26

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Pistillinn kemur réttilega inn á aðalatriði deilunnar, kjör starfsmanna við verktöku inná vinnusvæði álversins. Alltof oft er skautað framhjá því í umræðuni að álverið getur vel boðið út verk innan svæðis en starfsfólk verktaka á rétt á sömu kjörum og fastir starfsmenn álversins.

En það sem veldur mér áhyggjum er afstaða löggjafar- og dómsvaldsins til vinnudeilna. Það þykir sjálfsagt að setja lög á vinnudeilur til að minnka fjárskaða fyrirtækja, samanber flugvirkjaverkfallið, og nú bera Straumsvíkurmenn fyrir sig rétti til að "bjarga verðmætum", sbr. ummæli talsmanns álversins, þegar ganga á í störf verkafólks, líkt og um náttúrhamfarir eða viðkvæma vöru eins og fiskafurðir sé að ræða. Ef fyrirtækið notaði þær röksemdir í lögbannsbeiðninni og sýslumaður samþykkti það lýst mér illa á framtíð vinnudeilna á landinu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 5.3.2016 kl. 19:14

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk Evert.

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2016 kl. 19:36

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Stefán Örn. Það er aldrei nein gefin niðurstaða þegar gengið er til kjaraviðræðna. Í eðli sínu eru slíkar viðræður um aukin rétt eða kjör starfsmanna og hefur svo verið frá upphafi verkalýðsbaráttu.

Hins vegar eru viðræður viðræður og oftar en ekki hafa launþegar þurft að "kaupa" sér bætt kjör, þ.e. þurft að láta eftir á einu sviði til að fá aukin rétt eða kjör á öðru. Þeir sem staðið hafa í kjarasamningagerð þekkja þetta vel.

Hins vegar eru sum atriði heilög. Stéttarfélög getur ekki né má semja með þeim hætti að einhverjir hópar innan þess hljóti verulega skerðingu af. Það er einmitt það sem deilan í Straumsvík snýst um. Fyrirtækið vill verktöku ákveðinna hópa, verktöku sem sannarlega mun lækka laun þeirra hópa verulega. Eða hvernig ætlar Rio Tinto að hagnast af slíkri verktöku? Það er ljóst að við bætist milliliður og hann vill auðvitað fá eitthvað fyrir sinn snúð. Því er ljóst að til að Rio Tinnto hafi einhvern hagnað af slíkri breytingu og sá verktaki sem verkið tekur að sér fái eitthvað fyrir sig, þarf auðvitað að lækka laun þeirra sem verkin vinna. Slíkt getur ekki né má neitt stéttarfélag samþykkja.

Þá væri með þessu verið að opna á enn frekari úthýsun starfa hjá fyrirtækinu.

Og Rio Tinto situr við sama borð og önnur fyrirtæki í þessum geira. Það má og getur sett störf í verktöku, einungis þarf að tryggja að verktakinn greiði sömu laun fyrir sömu vinnu, þ.e. að þeir sem eru á launum hjá verktakanum fái sömu laun og laun þeir sem þeir vinna við hliðina á en eru á launaskrá hjá Rio Tinto. Þetta er sambærilegt við það sem þekkist bæði fyrir austan á Reyðarfirði sem og á Grundartangasvæðinu.

Það getur varla verið ósanngjörn krafa af stéttarfélagi að vilja standa vörð um hag sinna félagsmanna.

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2016 kl. 19:53

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Mikið rétt Galfýr.

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2016 kl. 19:54

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú misskilur vandann Jóhannes. Vandi Rio Tinto í Straumsvík stafar ekki af kjarasamningum og þó þetta atriði yrði samþykkt myndi það engu breyta í vanda á rekstri fyrirtækisins.

Vandi Rio Tinto er fyrst og fremst vegna lágs verðs á áli. Samhliða því er fyrirtækið að greiða hærra orkuverð en þekkist til slíkra kaupenda. Þá voru gerðar dýrar breytingar á búnaði í fyrirtækinu sem ekki hafa skilað þeim árangri sem að var stefnt.

Það er ekkert sem við getum gert varðandi heimsmarkaðsverð á áli og þeir dýru breytingar sem Rio Tinto fór út í eru gerður hlutur. Hins vegar er verð á raforku eitthvað sem við getum breytt.

Það hlýtur því að koma til greina að skoða þann þátt, þegar ljóst er að fyrirtækið er að fara að leggja upp laupanna. Auðvitað yrði slík aðkoma með skilyrðum af hálfu stjórnvalda.

Ef þú hefur lesið mína pistla um þessa deilu ættir þú að hafa lesið um hvernig saga Landsvirkjunar og Straumsvíkur tvinnast saman og hvern árangur sú saga hefur haft fyrir okkur sem þjóð. Þá er ljóst að í dag er mikill fjárhagslegur ávinningur af því að þetta fyrirtæki fái starfað áfram hér á landi. Hvert álit menn hafa á Rio Tinto skiptir svo sem ekki öllu máli í því samhengi, þó sannarlega væri best að losna við það stórfyrirtæki úr jöfnunni.

Ég hef enga fjandsamlega afstöðu gegn Katrínu Pétursdóttir, persónulega. Að ég titli hana sem forstjóra Lýsis en ekki stjórnarformann Rio Tinto á Íslandi skiptir í sjálfu sér ekki máli. Pistill minn er svar við hennar orðum og ef þú lest fréttina sem hann er hengdur við þá sérðu að það er Katrín sjálf sem persónugerir hlutina og kyntengir. Þessu mótmæli ég og bendi á að ef eitthvað er þá mildi kynferði hennar og forstjóra Rio Tinto á Íslandi freka umræðuna. Er sannfærður um að hún hefði orðið mun grimmari ef einungis karlmenn hefði verið í þessu útskipunargengi.

Hins vegar þykir mér málflutningur Katrínar með þeim hætti að ekki sé samboðið forstjóra í fyrirtæki og kemur kynferði því máli ekkert við.

Ég tek undir með áhyggjum þínum af dómnum og hvaða afleiðingar slíkur dómur hefði getað haft. Hann var stórundarlegur.

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2016 kl. 20:14

11 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Mikið rétt Ásmundur.

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2016 kl. 20:15

12 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er sannarleg ástæða til ótta, Erlingur. Verkalýðsbarátta hér á landi hefur orðið fyrir miklum skaða hin síðari ár. Þó dómsvaldið og framkvæmdavaldið sýni þar oftar en ekki misvitra tilburði, er ástæðan ekki síst okkur sjálfra.

Verlýðshreyfingin er nánast dauð. Yfir heildarsamtökum stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði ríkir fólk sem ekki hefur kjark eða vilja til að standa vörð sinna félagsmanna. Til að breyta þessu þarf uppreisn innan stéttarfélaga og í beinu framhaldi af því hreinsun innan ASÍ.

Til að svo megi verða þurfa launþegar að láta til sín heyra og vera virkari í stéttarbaráttu.

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2016 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband