Tryggingagjald og aðrir skattar
5.12.2015 | 12:03
Auðvitað eru allir skattar af hinu slæma, svo er einnig um tryggingagjaldið. En ríkissjóður þarf aura til að halda uppi velferðakerfinu og þeir aurar eru sóttir til þeirra sem ættu að vera aflögufærir. Blessunarlega eru fyrirtæki þessa lands flest hver komin vel fyrir vind, eftir hremmingar hrunsins, þó enn vanti nokkuð upp á að launþegar hafi náð að rétta sinn hlut og órafjarlægð aldraðra og öryrkja frá því marki.
SA liðar hafa verið duglegir við að nudda í stjórnvöldum um skattalækkanir og orðið nokkuð ágengt, alla vega náð mun betri árangri þar en fulltrúar launþega hafa fengið í gegn fyrir sína umbjóðendur. Nú er hamast á því að tryggingagjaldið skuli þurrkað út að mestu eða öllu og hótað slitum á Salek samkomulaginu því til áréttingar. Farið hefur betra fé, enda ekki um neitt samkomulag að ræða þar, heldur einhliða ákvörðun örfárra manna sem síðan á að keyra á launþega með ofbeldi. En ekki meira um Salek að sinni, snúum okkur að tryggingagjaldinu.
Tryggingagjaldið er ætlað til að byggja upp atvinnuleysistryggingasjóð. Eðli málsins samkvæmt eflist sá sjóður meðan atvinnuleysi er lítið en rýrnar aftur þegar atvinnuleysi eykst. Því á ekki að vera að hreyfa við þessu gjaldi eftir atvinnuástandi hverju sinni, enda mesta geta fyrirtækja til að greiða í sjóðinn meðan atvinnuástand er gott. Hitt er svo annað mál hvort sú prósent sem nú gildir um sjóðinn sé rétt. Sagan segir okkur hins vegar að þetta gjald var allt of lágt áður. Í dag skilst mér að það sé um 7,5% af launum hvers starfsmanns.
SA liðar eru ekki sleipir í reikningi. Þeirra aðal rök gegn gjaldinu hafa verið að telja fram hversu mörgum starfsmönnum þeir gætu fjölgað, væri þetta gjald afnumið. Lengi framanaf héldu þeir sig við að halda því fram að laun "tíunda" starfsmannsins fælust í þessu gjaldi, en að undanförnu hafa þeir orðið enn frekari og halda nú fram að laun "áttunda" starfsmannsins felist í þessu gjaldi. Ef tryggingagjaldið er 7,5%, þá er það hins vegar laun "þrettánda til fjórtána" starfsmannsins sem felast í tryggingagjaldinu. Kannski er kominn tími fyrir SA liða að rifja aðeins upp barnaskólareikning.
Rök byggð á slíkum samanburði má gera um fleira. Tekjuskattur og útsvar af launum er frá rúmum 37% upp í rúm 47%, eftir tekjum. Þetta segir að fyrir hverja fjörutíu tíma vinnuviku renna sextán tímar í plús til ríkisins, þ.e. ef þessir skattar yrðu felldir niður þyrfti launþeginn ekki að vinna nema innanvið 24 stunda vinnuviku til að hafa sömu laun. Er eitthvað vit í að rukka fólk um tekjuskatt og útsvar?!
Þegar síðan launþeginn fer með þá peninga sem hann fær afhenta, eftir að tekjuskattur og útsvar, auk annarra gjalda, hefur verið kroppað af þeim, og verslar einhverjar vörur eða þjónustu fyrir þessa aura, er í flestum tilfellum fjórðungur tekinn af honum í skatt. Til að geta verslað fyrir sín laun verður launþeginn að vinna fjórðu hverja klukkustund, þ.e. í stað fjörutíu tíma vinnuviku dygði honum að vinna þrjátíu stundir á viku, til að kaupa sömu vöru eða þjónustu, ef virðisaukaskattur yrði afnuminn. Er eitthvað vit í að rukka fólk um virðisaukaskatt í hvert sinn sem það opnar budduna?!
Svona má lengi telja, með því einu að nota sömu rök og SA liðar nota gegn tryggingagjaldi. Eftir stendur sú staðreynd að tryggingagjaldið er sú leið sem var valin til að byggja upp sjóð svo taka megi á atvinnuleysi, þegar það skellur á. Meðan uppgangur er og fyrirtæki eru rekin með ágætis hagnaði, eru geta þeirra til að efla þennan sjóð best. Eftir að atvinnuleysið er skollið á verður bæði geta fyrirtækja minni og fjöldi þeirra sem þiggja laun færri. Þá er of seint í rassinn gripið. Hvenær slíkt ástand myndast næst veit enginn, en það gæti allt eins verið handan hornsins, miðað við ástand á alheimsmörkuðum og þær stríðsógnir sem nú færst sífellt nær okkur.
Vel má endurskoða tryggingagjaldið, bæði hversu hátt það á að vera, þó varlega eigi að fara í lækkun þess og ekki síður hvort einhverjar aðstæður ættu að breyta gjaldinu. Til dæmis væri ekki vitlaust að skoða að hald gjaldinu óbreyttu meðan atvinnuleysi er lítið, en setja fram einhverskonar stiglækkun þess eftir því sem atvinnulesið eykst. Þannig að gjaldið yrði lítið sem ekkert ef atvinnuleysi færi yfir ákveðið mark. Þá gætu atvinnurekendur unnið gegn atvinnuleysinu með því að fjölga hjá sér fólki, eftir því sem tryggingagjaldið lækkar.
Sem betur fer eru flest fyrirtæki landsins rekin með hagnaði og sum hver ágætis hagnaði. Þeim er því engin vorkunn að greiða tryggingagjaldið.
![]() |
Krafa SA kemur nokkuð á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.