Að ræna fólk í nafni hagnaðar
1.12.2015 | 09:01
Það er ekki oft sem maður fagnar vondum fréttum. Frummatsskýrsla Samkeppnisstofnunar um olíufélögin er vissulega fagnaðarefni, þó þar komi fram að landsmenn hafi verið rændir um nokkra milljarða króna.
Og vissulega stíga forsvarsmenn þessara fyrirtækja fram og segja skýrsluna hið mesta rugl. Annað væri óeðlilegt. Það eru hins vegar rökin sem þessir forsvarsmenn setja gegn skýrslunni sem setur að manni hroll, annars vegar taprekstur og hins vegar vilji til að selja öðrum hugsanlegum samkeppnisaðilum eldsneyti.
Rekstur eða rekstrartap kemur þessari skýrslu ekkert við. Ef fyrirtæki er rekið með tapi má í flestum tilfellum kenna um slælegri stjórn þess. Þetta er þó hvergi eins skýrt og einmitt í rekstri olíufélaganna. Meðan eitt er rekið með tapi er annað rekið með bullandi hagnað, hagnaði sem talinn er í þúsundum milljóna króna. Ekki er hægt að kenna eldsneytisverði til neytenda þar um, þar sem munur á verði þess milli fyrirtækja er vart sjáanlegur. Og ekki er hægt að kenna innflutningsverði um heldur, þar sem þau fyrirtækin sem eru lengst frá hvort öðru í rekstrarhagnaði eru með sameiginlegan innflutning. Eftir stendur að skýringarinnar er einungis hægt að leita í mismunandi stjórnun fyrirtækjanna. Ef hagnaður fyrirtækja á að ráða för í verðlagningu er ljóst að hvaða hálfvita sem er má setja í stól forstjóra. Metnaðurinn liggur þá ekki í að reka fyrirtækið á sem hagkvæmasta hátt, heldur í því einu að halda verði eldsneytis nægjanlega háu svo greiða megi allan ósómann sem í fyrirtækinu tíðkast.
Hin rökin, að olíufélögin séu boðin og búin til að selja væntanlegum samkeppnisaðilum eldsneyti, er hins vegar verulega umhugsunarverð. Hver er þá samkeppnin? Þetta er svo sem engin nýlunda hér á landi, að ráðandi aðilar á smásölumarkaði ráði einnig heildsölunni og um leið verðmynduninni. Það er huggulegt að geta þannig ráðið smásöluverði samkeppnisaðilans! Hér á landi eru lög sem banna slíkt, þó þau virðist ekki ná yfir verslun og þjónustu og alls ekki yfir eldsneytissölu. Þessi lög virðast einungis ná til innlendra orkufyrirtækja og þjónustufyrirtækja sem oftar en ekki voru á hendi ríki og bæja, hér áður fyrr, en eru nú sum hver rekin sem "ohf". Hvers vegna ná þessi lög ekki einnig yfir olíufyrirtækin? Hvers vegna mega þau bæði vera með heildsöluna og smásöluna? Væri ekki rétt að slíta tengslin þarna á milli og láta alla smásala sitja við sama borð?
Hvað sem öllu líður, þá er nú loks komin sönnun þess sem margir hafa haldið fram, að olíufélögin hér á landi séu að taka til sín meira fé af sínum viðskiptavinum en heiðarlegt getur talist.
Ekkert svigrúm til lækkunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.