Er þetta forstjóri ?
1.11.2015 | 04:49
Það er meira andskotans bullið sem veltur upp úr þessum manni og hann er titlaður forstjóri Landspítalans! Það er kannski ekki undarlegt þó allt logi í verkföllum við þessa stofnun, ef forstjórinn hefur ekki meiri þroska en þetta!
Hýrudráttur er bannaður með lögum hér á landi. Þegar fólk fær ekki greitt fyrir sannarlega vinnu er það hýrudráttur og þannig verklag er stundað á Landspítalanum, undir stjórn Páls Matthíassonar.
Páll skýlir sér á bakvið dómstóla og segist ekki hafa valdi til að leiðrétta slíka framkomu við sína starfsmenn. Málið fór auðvitað fyrir dómsstól vegna hýrudráttar, ef hann hefði ekki komið til hefði ekkert dómsmál komið til. Það má kannski segja að ljósmæður á Landspítalanum hafi farið rangt að málum með því að láta stéttarfélag sitt sækja málið, í stað þess að reka það sjálfar í eigin nafni. Með því að láta stéttarfélagið reka málið var það tekið fyrir af félagsdóm en ekki alvöru dómstól. Félagsdómur hefur aldrei verið þekktur fyrir að fara eftir lögum, heldur ráða þar önnur og annarlegri sjónarmið. Alvöru dómstóll hefði aldrei treyst sér til að dæma hýrudrátt löglegan, enda það í algjörri andstöðu við lög landsins. Hitt er svo annað mál, miðað við framkomu forstjórans gegn sínu starfsfólki, að ef ljósmæður hefðu farið með málið fyrir dómstóla í eigin nafni, væri sennilega stutt í uppsagnarbréf til þeirra.
Það er alveg magnað, núna á árinu 2015. skuli hýrudráttur vera látinn viðgangast, að nokkrum manni skuli detta til hugar að haga sér með þeim hætti. Og enn er undarlegra að forstjóri Landspítalans skuli hafa lagt sína blessun yfir þá aðgerð, þegar samband starfsfólks og yfirstjórnar spítalans er á jafn viðkvæmu stigi og nú, eftir harðar kjaradeilur og verkföll. Með þessu færðist siðferði spítalans gegn starfsfólkinu einhver sjötíu ár aftur í tímann.
Orð og athæfi forstjórans bera því ekki merki mikillar skynsemi eða þekkingar á stjórnun. Þetta hefur einnig opinberast í þeim ósóma sem hann hefur lagt sína blessun yfir varðandi endurráðningar fólks, sem í örvæntingu sagði upp starfi í tengslum við hægagang kjaraviðræðna. Heilu deildirnar eru lamaðar og þegar svo þetta fólk sækir aftur um vinnu eru teknar vikur í allskyns viðtöl, þeim uppálagt að koma með fjöldann af meðmælabréfum og komið fram við það af lítilsvirðingu. Sex vel menntaðir geislafræðingar, sumir með áratuga starfsreynslu, voru ekki ráðnir, heldur á að ráða erlent fólk í þeirra stað. Kannski er ástæða þess að þessir geislafræðingar fengu ekki endurráðniungu hafi verið vegna skorts á meðmælabréfum. Það er erfitt að sækja sér mörg meðmælabréf þegar maður hefur verið í vinnu á sama stað í 30 ár. Þá er sennilega sá eini sem getur gefið meðmælin sá hinn sami og krefst þeirra! Þá hefði maður haldið að það væri kappsmál spítalans að koma sem allra fyrst þeirri starfsemi af stað sem hægt er og þegar þetta fólk sótti aftur um sína fyrri vinnu væri það ráðið með hraði og látið mæta sem allra fyrst til starfa, í stað þess að sóa dýrmætum tíma í einhvern leikaraskap stjórnenda, sem virðist hafa þann eina tilgang að niðurlægja fólk. Er það virkilega leið til að bæta starfsandann?
Það er öllum ljóst að ástandið á Landspítalanum síðastliðið ár hefur verið erfitt. Þar er ekki öðrum aðilanum um að kenna, heldur báðum deiluaðilum. Forstjórinn hefur ekki beina aðild að gerð kjarasamninga, en getur sannarlega haft þar áhrif ef hann kærir sig um. Hann er jú forstjóri stofnunarinnar! Eftirleikurinn, þegar verkfalli líkur, er hins vegar algerlega í höndum forstjórans og þar hefur hann brugðist að fullu. Hvort ljósmæður séu hýrudregnar er alfarið á ábyrgð forstjórans. Hvernig tekið er á móti fólki þegar það snýr aftur til vinnu, eftir erfiðar kjaradeilur, er einnig að fullu á ábyrgð forstjórans. Með framkomu sinni og annarra yfirmanna spítalans er einungis verið að veikja stofnunina enn frekar, einmitt þegar þetta fólk ætti að vera á fullu að reyna að efla hana, vera að vinna með starfsfólkinu en ekki á móti því.
Það eru lítilmenni sem ekki taka ábyrgð á sinni vinnu og skýla sér bak við aðra. Svoleiðis menn eru smámenni, sem eru í sinni vinnu af einni ástæðu, eigin buddu!!
Skilur vel að fólki svíði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fjármálaráðuneytið greiðir launin, ekki forstjórinn. Landspítalinn er ekki einkafyrirtæki og forstjórinn þar hefur ekki sömu völd og forstjóri einkafyrirtækis. Þú hefur væntanlega tekið eftir að mótaðlii stéttarfélagsins var ekki spítalinn heldur fjármálaráðuneytið - er það ekki?
Geislafræðingar sem ekki drógu uppsagnir sínar til baka eftir að búið var að ganga frá samningum (med dómi), gerðu það til að reyna að þvinga fram enn meiri breytingar á kjörum. Það var þeirra áhætta. Það lýsir miklu dómgreindarleysi að segja upp og ætlast til að ekkert verði gert til að manna stöðurnar. Stjórn spítalans ber að gera hvað hún getur til að þjónustan verði veitt.
ls (IP-tala skráð) 2.11.2015 kl. 13:05
Það er rétt Is, fjármálaráðuneytið greiðir launin, en tímaskrif koma væntanlega frá hverri stofnun fyrir sig. Einkafyrirtæki eða ríkisfyrirtæki? Forstjóri er forstjóri og hann hefur völd og ber ábyrgð. Eða ertu að segja að forstjórar ríkisfyrirtækja séu bara upp á skraut? Þá mætti spara mikið fé hjá ríkinu!
Samningur geislafræðinga fór ekki fyrir dóm, heldur hjúkrunarfræðinga. Ástæða uppsagna geislafræðinga var ekki krafa um hærri laun, heldur til að þrýsta á um að við þær yrði rætt, að ríkið kæmi að samningsborðinu.
Það má svo sem segja að það hafi verið dómgreindarleysi hjá þeim að segja upp vinnunni, en það breytir ekki stöðunni. Hitt er ljóst að eftir að þær óskuðu eftir fyrri vinnu var sóað dýrmætum tíma í "ráðningaviðtöl" við þær, meðan stofnunin stóð lömuð. Ekki hef ég trú á að þeir erlendu geislafræðingar sem væntanlegir eru til vinnu á Landspítalanum hafi þurft að mæta í slík "ráðningaiðtöl", viku eftir viku. Þeir eru sjálfsgt ráðnir blindandi, eftir einhverjum meðmælum sem hægt er að kaupa fyrir lítið.
Það er hérrétt hjá þér Is, stjórn Landspítalans ber að gera hvað hún getur til að þjónustan verði veitt. Að sóa dýrmætum tíma í "ráðningarviðtöl" við fólk sem sækir um sömu vinnu hjá sama atvinnurekenda, er ekki beinlínis liður til þess. Þarna fer stjórn spítalans offari og er einungis að sýna sitt ímyndaða vald, ætlað til að niðurlægja þetta fólk!!
Gunnar Heiðarsson, 2.11.2015 kl. 14:23
Tímaskrifin komu frá spítalanum en fjármálaráðuneytið ræður hvað það gerir við þau skrif. Þú verður að skamma aðra en forstjórann með starfslýsinguna. Gætir byrjað á að ræða við heilbrigðis og fjármálaráðherrana.
Samningur geislafræðinga var víst ákvarðaður með gerðardómi. Mjög margir starfsmenn sem sagt höfðu upp (þmt. geislafræðingar) drógu uppsagnir til baka. Ekki allir samt. Þeirra stöður voru auglýstar. Það er ekki hægt að segja upp og segja svo bara 'allt í plati' þegar búið er að taka mark á uppsögninni og auglýsa. Á kannski spítalinn að segja 'allt í plati' við þá sem sóttu um?
http://ruv.is/frett/segir-haefasta-folkid-radid
ls (IP-tala skráð) 2.11.2015 kl. 15:52
Þú ættir að knna þér málin Is áður en þú fabúlerar!
Gunnar Heiðarsson, 7.11.2015 kl. 06:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.