Eru ráðamenn endanlega gengnir af göflunum?

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var Bretum gefið vænlega undir fótinn með að þeir gætu fengið orkuauðlindir okkar fyrir lítið. Að lagður yrði ljóshundur til Bretlands og við tækjum bara upp gömlu góðu tólgarkertin. Þetta var sennilega þakklætið fyrir hryðjuverkalögin sem Bretar settu á okkur og urðu að éta ofaní sig síðar.

Svo merkilegt sem það kann að virðast, þá stóð Landsvirkjun í fararbroddi þeirra sem þessar hugmyndir bera í kolli sér. Síðan hefur það fyrirtæki dregið sig að mestu út úr umræðunni, svona opinberlega, en vildarvinir og fyrrum starfsmenn (kannski á launum ennþá hjá fyrirtækinu), hafa tekið við kyndlinum og bera hann hátt.

Ekki lét Landsvirkjun þó sitja við þessa óráðssíu sína, á síðasta kjörtímabili. Með sátt og samþykki þáverandi stjórnvalda var ráðist í byggingu vindmilla upp á öræfum. Allir vita að hver framleidd MWst með vindmillu er margfalt dýrari en framleiðsla sömu MWst með vatnsafli eða gufu. Þetta vafðist þó ekki fyrir Landsvirkjun og nú er því haldið fram að vegna betri nýtingar þessara vindmilla, sé framleiðsla þeirri betri en víðast annarstaðar. Þó það nú væri, þar er verið að bera saman tvær nýjar vindmillur, sem ekki eru komnar á neinn viðhaldstíma, bera þær saman við vindmilluskóga erlendis, þar sem elstu vindmillurnar eru að komast í úreldingu vegna aldurs. Af af snilli sinni hafa Landsvirkjunarmenn komist að þeirri niðurstöðu að hér sé rétt að leggja stórann hluta af hálendinu undir vindmillufrumskóg.

Við stjórnarskiptin vorið 2013 átti maður von á að tekið yrði til í stjórn Landsvirkjunar, að skipað yrði í þá stjórn fólk sem hefði örlítinn vott af skynsemi og kjark til að skipta út forstjóranum. Vissulega var skipt um stjórn, en ekki virðist fara mikið fyrir skynsemi þeirra sem þangað völdust og kjarkurinn ekki sjáanlegur.

Lengi framanaf fóru núverandi stjórnvöld sér þó hægt varðandi breska ljóshundinn. Sumir hafa jafnvel vænt þau um að tefja það mál. Vilji Breta hefur hins vegar alltaf legið skýr fyrir, enda hagurinn allur þeirra megin.

Í gær urðu síðan kaflaskil. Þá undirrituðu forsætisráðherrar Íslands og Bretlands viljayfirlýsingu um gerð skýrslu um málið. Ljóst er að niðurstaða þeirrar skýrslu er þegar þekkt og einungis spurning hvernig höfundar púsla henni saman svo hún verði nú rétt. Við lestur þeirrar skýrslu munu menn sjá gull og græna skóga, enda lítið mál fyrir þá sem enga ábyrgð bera að hripa einhverja vitleysu á blað. Nýju fötin keisarans voru forkunnar fögur flestum þeim sem þau litu og þurfti barn til að segja fólki að keisarinn væri nakinn. Svo mun einnig verða með þessa skýrslu. Menn munu lofsyngja hana allt þar til eitthvert barnið bendir á að innihaldið sé ekkert!

Og þegar eru menn farnir að lofsyngja niðurstöðu skýrslunnar, þó enn sé ekki farið að vinna að henni. Orkumálaráðherra hefur fagnað og aðrir ráðherrar munu sjálfsagt koma hver af öðrum í fjölmiðla til að dásama þetta framtak forsætisráðherrans okkar.

Ekki lætur ruv sitt eftir liggja og í spéspegil fréttastofunnar var auðvitað kallaður til "sérfræðingur" um málið. Og fyrir valinu varð sá maður sem mest hefur talað fyrir sæstreng, sá kyndilberi Landsvirkjunar sem mest fer fyrir. Ekki var þó málflutningur þessa manns merkilegur, frekar en fyrri daginn og talaði hann þar í kross að vanda. Hvert fimm ára barn hefði getað rætt málið af meiri skynsemi.

Um vindmillu óra Landsvirkjunar er fátt að segja. Þó verður maður nokkuð hissa hvað lítið heyrist frá þeim sem skipað hafa sig talsmenn umhverfisverndar. Vissulega má segja að rafframleiðsla með vindmillum sé umhverfisvæn, svo lengi sem maður heldur augunum lokuðum.

Þarna er verið að tala um að leggja undir 35 til 40 ferkílómetra svæðis, svona í fyrsta áfanga. Þetta er álíka stórt svæði og Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnafjörður þekja! Og á þessu svæði á að byggja hátt í 80 vindmillur, af stærðargráðu sem gerir Hallgrímskirkjuturn harla lítlifjörlegann! Þessar vindmillur eiga að geta framleitt allt að 200 MW, við bestu aðstæður. Miðað við rekstrartíma núverandi vindmillna Landsvirkjunar gefur það kannski 120 MW, svona fyrstu árin, meðan þær eru nýjar. Síðan mun draga verulega úr afkastagetu þeirra.

Sjónmengunin af þessum skóg verður gífurleg og vandséð að hún réttlæti framleiðslu á rafmagni sem kostar langtum meira en kostar að framleiða með vatnsafli. Vel er haldið frá fólki upplýsingum á heimasíðu Landsvirkjunar hversu miklu dýrara vindrafmagnið er en vatnsrafmagn, enda víst að margir myndu súpa hveljur ef þeir fengju þá vitneskju.

Þarna er Landsvirkjun beinlínis að sóa fé landsmanna, fé sem betur væri ráðstafað til annarra hluta. Þetta mun síðan leiða til hækkunar raforkuverðs til heimila landsins.

Vindmillur eru ekki nein ný tækni, þó Landsvirkjun telji svo vera. Þessi tækni hefur verið við lýði um langt skeið erlendis. Frumforsenda vindmillna er þó alltaf að þær séu eins nálægt neytandanum og hægt er, vegna þess hversu dýrt rafmagnið frá þeim er. Ekki er borð fyrir báru til langra flutninga þess. Þó hefur þetta sjónarmið örlítið breyst, einkum vegna sjónmengunar og sum staðar þykir rétt að bæta einhverjum flutningskostnaði við orkuverðið, svo fá megi vindmillurnar sem mest úr augsýn. Þar hafa menn einkum horft til þess að staðsetja þær frá landi, þ.e. á grynningum utan stranda. Þessi vilji erlendra að staðsetja vindmillurnar út á hafi hefur kannski eitthvað ruglað Landsvirkjunarmenn og þess vegna telji þeir rétt að setja slíkan skóg vindmillna í "Hafinu" norðan og austan Búrfells!

Ekki er hef ég neitt á móti vindmillum, þar sem þær henta. Þess háttar orkuöflun á þó einungis að vera á hendi einkaaðila, sjái þeir sér hag í því. Ríkisrekið fyrirtæki, eins og Landsvirkjun, á ekki að taka þátt í slíkum framkvæmdum. Hér á landi eru dæmi þess að einstaklingar hafi gert tilraunir með slíkar vindmillur og jafnvel einkarekin fyrirtæki sýnt því áhuga. Þessir aðilar hafa þó allir það markmið að setja upp slíkar millur sem næst kaupanda/notanda orkunnar, gera ekki ráð fyrir flutningi hennar um langan veg. Vandinn hefur þó kannski fyrst og fremst legið í því að fólk er ekkert áfjáð um að fá slíka skóga í bakgarðinn hjá sér.

Ljóshundur til Bretlands og vindmillu frumskógur á hálendinu eru hugmyndir sem maður hélt að engum heilvita manni dytti í hug. En það er víst nóg af hálfvita mönnum hér á landi. Síðasta ríkisstjórn tók af allan vafa um það og ekki verður betur séð en núverandi stjórnvöld ætli að feta í fótspor fyrirrennara sinna.

Einfaldast hefði verið fyrir forsætisráðherra að segja við breska starfsbróður sinn að ljóshund fengju þeir ekki. Að engu skipti hvort hægt væri að reikna þannig hund til hagnaðar, við ætluðum einfaldlega að nýta okkar orku sjálfir, landi og lýð til hagsbóta. Að þetta mál væri einfaldlega ekki lengur til umræðu.

Nú er staða taflsins hins vegar komin á þann reit að skákin er töpuð. Skýrslan mun koma út og hún mun dásama hundinn. Þá eiga stjórnvöld engan leik eftir og verða að fella kónginn!!

Bretar munu þá hafa unnið endanlegan sigur, eftir þrenn töp á hafinu og eitt í fjármálaheiminum.

Kannski guðinn Þór hafi verið að lýsa vanþóknun sinni á þessari gerð forsætisráðherra, yfir höfuðborginni nú í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þetta eru hrein afglöp,hvað er að gerjast í þessu liði.Fyrir mér litur þetta út sem skiptimarkaður,eins og vitað er að tíðkast hefur alltaf í stjórnmálum á Íslandi. Vona að einhver ræsi út öfluga mótmælendur með nýjar aðferðir.Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 31.10.2015 kl. 05:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband