Atvinnurekendur vilja ekki auka framlegð
21.10.2015 | 08:41
Umræðan um styttingu vinnuvikunnar eru nú komnar upp enn og aftur. Því miður virðist þetta þjóðþrifamál aldrei komast lengra en á umræðustig og svo mun sjálfsagt verða nú.
Það eru til fjölmargar rannsóknir á áhrifum þess að stytta vinnuvikuna, enda víða sem það hefur verið gert. Flestar niðurstöður eru á þann veg að stytting vinuviku leiði til aukinnar framleiðni, einstaka niðurstaða bendir til að framleiðni haldist óbreytt, en engin rannsókn hefur sýnt að framleiðni hafi minnkað við slíka breytingu. Eðli vinnunnar kemur vissulega þarna inní og ljóst að mesta framleiðniaukningin er þar sem vinna þarf allan sólahringinn, þ.e. hjá vaktavinnufólki.
Hér á landi er vaktavinnu oftast skilað með annað hvort 12 tíma vöktum eða 8 tíma. Ef unnar eru reglulegar vaktir allan ársins hring ganga hvorugar þessara vakta upp í 40 tíma vinnuviku. Þeir sem vinna 12 tíma vaktir verða að meðaltali að skila 42 tíma vinnuviku, meðan 8 tíma vaktirnar skila 33,6 tímum á viku. Undantekningin frá þessu eru þar sem óregluleg vaktakerfi eru viðhöfð, þ.e. þar sem vöktum er raðað upp til skamms tíma í senn.
Vegna þessa hafa atvinnurekendur litið svo á að 12 tíma vaktir séu nær 40 tíma markinu og því æskilegra nota þær. Að vísu þarf hann þá að greiða hverjum starfsmanni 2 tíma í yfirvinnu fyrir hverja viku mánaðarins. Þetta er röng hugsun hjá atvinnurekendum.
Það er gleðilegt að lesa um að Alcoa Fjarðarál sé að skipta úr 12 tíma vaktkerfum yfir í 8 tíma. Opinberu rökin hjá þeim eru að þetta sé manneskjulegra og fjölskylduvænna, sem það vissulega er, en líklegra er þó að meðal stjórnenda fyrirtækisins séu menn sem kunna að lesa þá vinnu að reka fyrirtæki og þeir sjái þarna sóknartækifæri. Stytting vinnuvikunnar leiðir til ánægðara starfsfólks og ánægt starfsfólk skilar betri vinnu og minnkar fráhvörf þess frá vinnunni.
Hvernig Alcoa Fjarðarál afgreiðir síðan þann tíma sem vantar upp á lögbundin skil starfsmanna á vinnuskyldunni, veit ég ekki. Þegar Íslenska Járnblendifélagið hóf störf,vorið 1979, var ákveðið að þeir sem ynnu vaktir allan sólahringinn yrðu á 8 tíma vöktum. Þar var þeim tímum sem uppá vantaði til skila á lögbundinni vinnuviku skipt á milli starfsmanna og fyrirtækis, hluti var afgreiddur með styttingu á vinnuvikunni og hluti með skilatímum starfsmanna, sem nýttir eru til námskeiðahalds innan fyrirtækisins. Þetta hefur virkað vel og virkar enn.
Varðandi styttingu vinnuviku dagvinnufólks er málið allt mun einfaldara, reyndar möguleikarnir þar svo margir að valkvíði yrði sennilega helsta vandamálið. Algengast er þó að tengja þessa styttingu við helgarnar, annað hvort með styttingu vinnudags á föstudögum um helming, eða að unnið er annan hvern föstudag. En möguleikarnir eru óteljandi.
Eins og svo oft áður, mun þessi umræða nú sennilega ekki ná lengra. Atvinnurekendur, sem ætti eðli málsins samkvæmt að bera fram kröfurnar um styttingu vinnuvikunnar, eru upp til hópa svo fjandi heimskir hér á landi. Þeir kunna ekki að reka fyrirtæki á hagkvæmasta hátt og kæra sig ekki um að læra það. Meðan svo er, mun aldrei nást samþykkt á Alþingi um styttingu vinnuvikunnar og ekki heldur bann við 12 tíma vöktum, sem væri þó mun þarfari lagasetning.
12 tíma vaktir eru mannskemmandi og andfjölskylduvænar.
Vel raunhæft að vinna minna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frumvarpið gengur ekki út á það að stytta vinnuvikuna. Áfram verða vinnudagarnir 5 í hverri viku þó aðeins sé skilað 7 tímum á dag í stað 8. Það er sú stytting sem hefur sýnt árangur en ekki stytting vinnuvikunnar. Og þar hefur hnífurinn staðið í kúnni, árangurinn er enginn ef farið er að færa tíma og lengja vinnudaginn til að fá lengri helgar. Þetta stendur allt og fellur á því að vinnudagurinn sé 7 tímar og vinnudagarnir 5. En verklýðsfélög og verkalýðurinn halda í heimsku sinni að þarna sé gullið tækifæri til að lengja helgarnar. Verklýðsfélög og verkalýður horfa nefnilega ekki á afköst heldur viðveru, að skila sínum tímum á sem fæstum dögum til að eiga sem flesta frídaga.
Vagn (IP-tala skráð) 21.10.2015 kl. 09:27
Í greinargerð með frumvarpinu segir að það feli í sér þá breytingu að í hverri viku skuli ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna ber á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar 7 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags.
Skil nú ekki alveg hvaðan Vagn hefur þessa visku sína um verkalýðinn. Væntanlega er hann ekki í neinu félagi sem tengist starfsfólki á vinnumarkaði fyrst hann heldur þessu bulli fram.
Haraldur Rafn Ingvason, 21.10.2015 kl. 10:05
Vagn, vinnuvikan er mæld í klukkustundum. Hér á landi er hámarks fjöldi dagvinustunda á viku 40. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það hámark færist niður í 35 klukkustundir. Það er stytting vinnuviku!
Ef þú hefur lesið minn pistil þá segi ég að slíka styttingu megi gera á margann hátt og ekki endilega að vilja launþegans. Í mínum pistli segi ég að möguleikarnir á framkvæmd þessarar styttingar séu óteljandi fyrir dagvinnufólk, þó málið flækist örlítið þegar um vaktavinnu er að ræða.
Að ég skyldi nefna lengingu helganna er einungis ein aðferð við styttingu vinnuvikunnar og kannski sú aðferð sem algengust er, þar sem vinnuvikan hefur verið stytt. Önnur aðferð er að stytta hvern dag um eina klukkustund, en einhverra hluta vegna er sú leið mun minna notuð. Enn ein aðferð er að lengja hvern dag, þar sem dagvinnutímabilið hvern dag má liggja frá sjö á morgnana til fimm á daginn og fækka þannig vinnudögum hverja viku. Þessi leið hefur einnig verið notuð og reyndar hefur sumstaðar verið samið um enn lengri dagvinnutíma hvern dag en hér á landi þekkist. Þetta er sú leið sem atvinnurekendur vildu fara, þegar þetta mál komst inn í kjaraviðræður, fyrir nokkrum árum. Hugsun þeirra var að nýta allt dagvinnutímabil hvers dag til fullnustu og fjölga í staðinn fólki. Þ.e. að hver starfsmaður ynni einungis um tvo og hálfann dag í hverri viku.
Hver leiðin sem valin yrði til styttingar vinnuvikunnar skiptir kannski ekki öllu máli, svo fremi að hófs sé gætt við framkvæmdina. Sjáfsagt munum við sjá ýmsar útfærslur, enn fleiri en þessar þrjár.
Það er fjarri því að það sé sérstakur vilji verkalýðsfélaga eða verkalýðs að þjappa saman sem mestri vinnu á sem styðstum tíma, til þess eins að lengja fríin. Þar sem slíkt hefur verið gert, hefur komið af frumkvæði atvinnurekenda, rétt eins og íslenskir atvinnurekendur óskuðu eftir, fyrir svo ekki löngu síðan.
Hins vegar hefur framkvæmd styttingar vinnuvikunnar í flestum tilfellum verið með þeim hætti að haldið er sama vinnutímafjölda fyrstu fjóra daga vikunnar en sá fimmti hafður styttri. Hvort sú leið er betri en einhver önnur skal ég ekki segja til um, en þeir sem slíka vinnu stunda hafa sagt mér að þeim líki það vel. Einnig eru þeir ánægðir sem vinna óbreyttan vinnustundafjölda fimm daga aðra vikuna en fjóra hina. Fyrir mestu er að stytta vinnuvikuna, framkvæmdin er einungis útfærsla.
Þessar pælingar eiga að sjálfsögðu einungis við um dagvinnufólk. Allt önnur lögmál gilda um vaktavinnu og minn pistill snerist að mestu um þann þátt.
Þá endurtek ég að þingmenn ættu kannski frekar að snúa sér að því að banna 12 tíma vaktir. Ef það þykir of mikið að vinna 8 tíma í senn í dagvinnu, fimm daga í senn, hljóta allir að sjá að það er gjörsamlega galið að ætla einhverjum að vinna 12 tíma vaktir allt að sjö vöktum í beit, á öllum tímum sólahrings 365 daga ársins.
Ef vilji þingmanna er til þess að bæta vinnuálag landsmanna með lagasetningu, er þetta kannski sá punktur sem fyrst ætti að skoða.
Til atvinnurekenda er fátt að sækja í þessum málum, þeir kunna hvorki að reka fyrirtæki né að eiga samskipti við sitt starfsfólk.
Gunnar Heiðarsson, 21.10.2015 kl. 16:35
Vinnudagurinn er mældur í klukkustundum. Hér á landi er hámarks fjöldi dagvinustunda á dag 8. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það hámark færist niður í 7 klukkustundir. Það er stytting vinnudaga!
Þetta frumvarp og tilgangurinn með því stendur og fellur á því að vinnudagurinn verði 7 tímar og vinnudagarnir 5. Frávik frá því verða til þess að árangurinn sem ætlast er til að 7 tíma vinnudagur skili verður að engu. Og þá er ástæðulaust fyrir atvinnurekendur að styðja breytingarnar.
Vagn (IP-tala skráð) 21.10.2015 kl. 17:10
Þú þekkir greinilega lítið til um vinnumarkað, lög og samninga sem honum fylgja, Vagn.
Gunnar Heiðarsson, 21.10.2015 kl. 18:14
Það er hvergi í lögum sagt beint að vinnudagurinn megi einungis vera 8 tímar, einungis að vinnuvikan megi ekki fara yfir 40 klukkustundir í dagvinnu. Hins vegar eru oft í ráðningasamningum ákvæði um tímalengd hvers dags. Það leiðir hins vegar að sjálfu sér, meðan vinnuvikan eru fimm dagar og hámarksfjöldi vinnustunda á þeim tíma 40, að hver dagur er einungis 8 stundir.
Í almennum kjarasamningum segir að virkur vinnutími skuli vera 37 klukkustundir og fimm mínútur. Hann skal unninn á tímabilinu frá kl. 7:55 - 17:000 eða frá 7:30 - 16:35 mánudaga til föstudaga.
Í kjarasamningi VR segir: Dagvinnutímabil telst tíminn frá kl. 07:00 – 19:00 á virkum dögum. Virkur vinnutími fyrir fulla dagvinnu skal vera 36 stundir og 15 mínútur á viku.
Þannig er dagvinnutímabilið misjafnt milli kjarasamninga, en vinnuvikan aldrei meiri en 36,25 virkir tímar eða 40 klukkustundir.
Um lagalegu hlið þessa máls þá segir í lögum nr. 88/1971 Lög um 40 stunda vinnuviku:
2. gr. [Í hverri viku skulu ekki vera fleiri en 40 dagvinnutímar, sem vinna ber á því dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar, sem aðilar koma sér saman um. Heimilt er að semja um skemmri vinnuviku.
Að jafnaði skulu unnar 8 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið af aðilum.
Tillagan sem nú liggur frammi fjallar um að breyta í þessum lögum "40" í 35 og "8" í 7. Ekkert í tillögunni fjallar um aðrar breytingar á þessari grein laganna.
Því getur dagvinnutími hvers dags verið mismunandi samkvæmt lögunum, en fjöldi klukkustunda á viku getur aldrei orðið meiri en 40. Þetta endurspeglast síðan í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið, eins og dæmin tvö að ofan sýna.
Gunnar Heiðarsson, 21.10.2015 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.