Súr skilaboð læknis
4.9.2015 | 20:41
Dagur B Eggertsson, menntaður sem læknir en gegnir tímabundið starfi borgarstjóra, leggst lágt í sínu "vikulega fréttabréfi". Þar segir hann óhætt að loka neyðarflugbraut Reykjavíkurflugvallar og ber fyrir sig skýrslu frá Isavía, skýrslu sem eins og margar fleiri er pöntuð í ákveðnum tilgangi.
Samkvæmt þessari skýrslu mun nýting flugvallarins falla niður í 97%, en samkvæmt alþjóðareglum sé viðmiðið að nýtingarstuðull fari ekki niður fyrir 95%. Því telur læknirinn að allt í lagi sé að skerða getu vallarins, það stangist ekki á við alþjóðleg viðmið. Nánast öruggt er að þau skipti sem falla út eru einmitt neyðartilfelli, þegar nauð veldur því að lenda þarf á vellinum og eina brautin sem hægt er að landa á einmitt sú flugbraut sem læknirinn vill loka. Það eru frekar súr skilaboð til sjúklinga sem læknirinn sendir.
Látum vera að dæma skýrslu Isavía, þó vissulega hægt sé að finna margt athugavert við hana. Notum bara þær niðurstöður sem úr henni koma. Þar kemur skýrt fram að nýtingarstuðull Reykjavíkurflugvallar mun minnka, jafnvel þó hann sé meiri en alþjóðaviðmið krefjast.
Hvers vegna að skerða það sem gott er? Ekki dytti neinum manni í hug að skerða sín lífsgæði, bara af því það má samkvæmt alþjóðareglum. Og hvenær er þessi braut notuð? Þegar veður eru válynd er enginn að fljúga að gamni sínu. Þá er einungis flogið af neyð, t.d. til að bjarga mannslífum. Hvers vegna er lækninum svo umhugað að skerða lífsmöguleika þeirra sem slasast eða veikjast? Er virkilega svo að læknirinn telji peninga vera hærra setta en mannslíf?
Jafnvel þó skýrsla Isavía sé pöntuð í ákveðnum tilgangi og því vart marktæk, gátu höfundar hennar ekki annað en viðurkennt að nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar mun skerðast við lokun neyðarbrautarinnar. Það þarf heldur ekki sérfræðing til að komast að þeirri niðurstöðu, svo skýr sem hún er. Hver skerðingin nákvæmlega mun verða skiptir engu máli, það sem máli skiptir er að um skerðingu er að ræða. Það liggur einnig fyrir að sú skerðing mun lenda á þeim sem þurfa að nota flugvöllinn í neyð. Málið er ekki flókið.
Vel getur verið að Dagur B verði enn pólitíkus þegar fyrsti íslendingurinn lætur lífið vegna lokun brautarinnar og þá mun samviska hans sennilega lítið svertast, en hvernig ætlar læknirinn Dagur B Eggertsson að höndla þau mannslát sem verða vegna lokun þessarar brautar, eftir að hans verður ekki lengur óskað í pólitík.
Athugasemdir
Enn hefur ekki komið upp tilvik þar sem þessi aukabraut, sem einhverjir gàfu ì grìni nafnið "neyðarbraut", hefur bjargað mannslìfi. Og nær òmögulegt að til þess komi.
Fasi (IP-tala skráð) 4.9.2015 kl. 21:52
Sterk fullyrðing, sem ég held þú ættir nokkuð erfitt með að rökstyðja Fasi.
Gunnar Heiðarsson, 4.9.2015 kl. 21:58
þegar mannslìf eru ì hættu er nær undantekningarlaust um sjùkraflug með þyrlu beint à sjùkrahùs að ræða. Annað sjùkraflug kemur ì stað sjùkrabìla með sjùklinga sem eru ì stöðugu àstandi.
Fasi (IP-tala skráð) 4.9.2015 kl. 22:18
Vænna þætti mér um ef þú hefðir kjark til að skrifa undir eigin nafni, Fasi. Þykir skemmtilegra að vita við hvern ég er að hafa samskipti.
Um fullyrðingar þínar í seinni athugasemdinni, þá eru þær ekki svaraverðar. Hins vegar opinbera þær vankunnáttu þína á málinu og pólitíska blindu.
Kynntu þér málið og tjáðu þig svo.
Gunnar Heiðarsson, 5.9.2015 kl. 00:14
Það kemur pólitík ekkert við að sjúkraflug er venjulega milli sjúkrahúsa og þá er sjúklingurinn í stöðugu ástandi. Það er slæmt að missa sjúkrabíl í dag eða tvo þegar hægt er að senda með flugi. En það var hrein pólitík sem nýlega gaf þessari gömlu aukabraut nafnið "neyðarbraut", hún hefur aldrei verið neyðarbraut eða komið að gagni sem slík.
Þegar hlustað er á sögurnar sem sagðar eru mætti halda að mínútur hafi skipt máli og skilið milli lífs og dauða. En þegar farið er í fréttir af atburðunum þá kemur í ljós að björgunarsveitir drösluðust stundum með sjúklinginn í einhverja tíma áður en hann komst á sjúkrahús og þar var hann dag eða tvo áður en ákveðið var að senda hann suður. Og þá var ástandið jafnvel þannig að ekki þótti ástæða til að senda lækni með. Og aldrei var "neyðarbrautin" notuð.
Undanfarin ár hefur "neyðarbrautin" verið notuð í æfingar og leikaraskap. Sérstaklega eftir að hugmyndir komu upp um að loka henni. Þá fóru áhugasamir að nota hana bara til að á hana væru skráðar lendingar og flugtök.
Fasi (IP-tala skráð) 5.9.2015 kl. 07:37
Fyrir nokkrum mánuðum, skrifaði flugstjóri hjá Mýflugi (Mýflug sér um sjúkraflugið), í grein sinni í Morgunblaðinu rakti hann NOKKUR DÆMI þess efnis að "neyðarbrautin", VAR EINA FLUGBRAUTIN SEM VAR OPIN OG SKIPTI ÞAÐ SKÖPUM AÐ VIÐKOMANDI SJÚKLINGAR FENGU ÞÁ LÆKNISMEÐFERÐ SEM ÞEIR ÞURFTU. Í þessari grein sinni skkaut hann niður ÖLL rök Fasa og fleiri fasista, sem vegna pólitískrar blindu vilja loka þessari flugbraut og í framhaldinu flugvöllinn í Vatnsmýrinni á brott.
Jóhann Elíasson, 5.9.2015 kl. 13:40
Það er frekar fyndið Gunnar, að sjá þig hér að rífast yfir því að þetta muni skerða neyðarþjónustu við landsbyggðina þegar á sama tíma ertu að mælast fyrir því að sjálf neyðarþjónustan (LSH) sé færð lengra frá flugvellinum.
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 5.9.2015 kl. 13:55
Síðustu ummæli mín eiga líka við um hann Jóhann Elíasson.
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 5.9.2015 kl. 13:56
Það má þá allt eins snúa dæminu við Elfar, það er undarlegt að borgarstjórn, sem vill flugvöllinn burt, má ekki heyra á það minnst að spítalanum verði fundinn betri staður.
Ég er ekki viss um að þeir sem vilja völlinn burtu, eða vilja endilega planta nýjum spítala við Hringbraut, séu sammála um að tengja þessi tvö mál saman.
Hins vegar samrýmist það frekar neyðarþjónustunni að færa spítalann á betri stað innan borgarinnar, eða utan ef það er betra og láta flugvöllinn halda sér heldur en fjarlægja flugvöllinn og byggja spítalann niður í þrengslunum við Hringbraut. Lengingin á neyðarflutningnum frá flugvellinum að nýjum spítala mun ekki lengjast svo mikið þó hann væri t.d. við Elliðaárvoga. Hins vegar munu neyðarflutningar lengjast töluvert ef flugvöllurinn víkur.
Gunnar Heiðarsson, 5.9.2015 kl. 17:05
Ég er fullkomlega tilbúin að tengja þessi tvö mál saman, enda getur hver mínúta skipt sköpum fyrir líf fólks sem er verið að flytja. Ég efast um að það vilji festast í umferðini á Hringbraut eftir að hafa notað "neyðarbrautina" til að lenda.
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 5.9.2015 kl. 21:33
Hvers vegna viljið þið sem eruð svona hrifin af því að hafa flugvöllinn í óbreyttri mynd þar sem hann er (ekki á móti því sjálfur) svona mikið á móti nýja Landsanum við Hringbraut, einmitt þar sem hann er nú þegar?
Skúli (IP-tala skráð) 6.9.2015 kl. 16:05
Er þá ekki betra að hafa hvort tveggja þar sem það er núna, stutt á milli og spítallinn í stærra, betra og nútímalegra húsnæði rétt hjá?
Skúli (IP-tala skráð) 6.9.2015 kl. 16:08
Pistill minn var nú ekki um nýja Landspítalann, Skúli, þó umræðan í athugasemdum hafi þróast í þá átt.
Hins vegar get ég alveg svarað þér hvers vegna ég er á móti byggingu hans við Hringbraut.
Fyrir það fyrsta er væntanlega verið að byggja nýjan Landspítala til langrar framtíðar. Plássið sem honum er ætlað dugir þó ekki fyrir þeirri starfsemi sem nú þegar er til staðar. Þetta eitt ætti að duga til að finna spítalanum betri stað, þar sem landrýmið er nægt til að taka við þeim framförum í heilbrigðismálum sem vonandi halda áfram á svipuðum hraða og hingað til. Sem dæmi þótti þessi staðsetning, miðað við þá þróun sem þá var sjáanleg, alveg ágæt í upphafi þessarar aldar. Nú, 15 árum síðar, hefur framþróunin gert það að verkum að ekki mun verða þar pláss fyrir þá starfsemi sem nú er til staðar. Hvernig verður ástandið eftir næstu 15 ár?
Þá má nefna ýmis önnur mál, eins og aðgengi og fleira.
Kannski á ekki að blanda fjármálum inn í þessa umræðu, að verkefnið sé þess eðlis að peningar ættu ekki að skipta máli. En peningar skipta máli og sú staðreynd að fjöldi aðila hefur komist að því að fyrir þjóðarbúið sé bygging og rekstur Landspítala við Hringbraut tugum ef ekki hundruðum milljörðum dýrari, ætti einnig að setja smá spurningarmerki á andlit fólks.
Hvers vegna er ekki þeim aðilum sem komast að slíkum niðurstöðum ekki boðið til samráðsins? Hvers vegna eru ekki útreikningar þeirra teknir til skoðunar? Vel getur verið að þeir séu rangir, en það er ekki vitað nema farið sé í gegnum þá. Hvers vegna var endurskoðunarskrifstofunni, sem fengin var til að gefa út skýrslu um málið, ekki gert að kanna þessa útreikninga?
Við Íslendingar erum fræg fyrir rangar áætlanir og nánast ekkert á því sviði sem stenst, sérstaklega þegar stór verkefni eru í burðaliðnum, verkefni sem ríkissjóður ýmist fjármagnar eða ábyrgist. Oftar en ekki hafa þó ýmsir bent á skekkjuna, áður en framkvæmdir hefjast. Alltaf hafa slíkir menn verið afgreiddir sem efasemdamenn eða afturhaldssinnar, jafnvel þó oftast hafi þessir menn haft rétt fyrir sér.
Bygging nýs Landspítala er af þeirri stærðargráðu að annað eins hefur ekki þekkst hér á landi um langa hríð. Því verður að kanna vel alla hugsanlega skekkju í útreikningum og áætlunum. Minnsta vafa verður að eyða.
Það má nefna mörg misheppnuð verkefni hér á landi, þar sem offors og ákafi stjórnmálamanna var látin ráða för. Verkefni þar sem undirbúningur var lítill og augljósum skekkjum í áætlunum ýtt til hliðar. Þetta hefur kostað okkur landsmenn ómælda fjármuni, fjármuni sem sóttir eru í vasa kjósenda.
Verði af byggingu nýs Landspítala við Hringbraut mun enn eitt afrekið á þessu sviði verða staðreynd, enn einu sinni sótt í vasa kjósenda. En nú eru upphæðir af annarri og stærðargráðu en áður.
Verði að uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut er fyrir séð að löngu áður en þeirri framkvæmd lýkur, munu stjórnvöld vera farin að leita enn nýrri Landspítala stað, til að koma fyrir á einum stað allri þeirri þjónustu sem slík stofnun býr yfir.
Þetta eru megin ástæður þess að ég vil að nýr Landspítali verði byggður á betri stað, Skúli. Plássleysið og hugsanlega mun meiri kostnaður.
Gunnar Heiðarsson, 6.9.2015 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.