Vantar viljann til að halda hér stöðugleika?
17.8.2015 | 09:28
Stýrivaxtahækkun, til að vinna gegn aukinni verðbólgu, er tæknilega rétt aðgerð. En í þjóðfélagi þar sem nær öll húsnæðislán og stór hluti annarra lána er verðtryggður, virkar stýrivaxtahækkun ekki.
Nánast engin áhrif er af stýrivaxtahækkun á verðtryggð lán, ekki fyrr en verðbólgan æðir af stað. Þetta sáum við vel síðasta árið fyrir hrun, verðbólgan æddi áfram þrátt fyrir mikinn dugnað við stýrivaxtahækkanir og við hverja hækkun þeirra kom bein hækkun verðbólgunnar.
Hins vegar hafa stýrivaxtahækkanir bein áhrif á óverðtryggð lán. Hér á landi eru það einkum skammtímalán, þá oftast hjá fyrirtækjum, sem eru óverðtryggð. Fyrirtæki eru flest með einhverskonar yfirdráttareikninga, bæði til að halda rekstri óslitnum sem og til að geta greitt laun starfsmann, jafnvel þó útistandi eignir komi ekki á réttum tíma. Á þessa reikninga hafa stýrivaxtahækkanir bein áhrif og fyrirtækjum nauðugur einn kostur að láta þær hækkanir út í verðlagið. Verðbólguhvati stýrivaxtahækkanna er því staðreynd, þeir virka sem eldsneyti á eld.
Þessa staðreynd vita auðvitað bæði Már og þeir sem með honum sitja í peninganefnd Seðlabankans. Þeir vita að hækkun stýrivaxta mun ekki slá á verðbólgu, sem reyndar er einstaklega lág hér á landi, þrátt fyrir spár nefndarinnar í marga mánuði um að hún væri að æða af stað. Og vissulega mun hún gera það, með sömu afskiptum bankans af hagkerfinu.
Það virðist hins vegar skorta verulega á vilja bankastjórans og nefndarmanna, til að halda hér stöðugleika. Þeirra vilji virðist vera til þess að hér muni verðbólga aukast og það sem mest og að byggja upp eins mikinn vaxtamun við útlönd og möguleiki er á. Að því er unnið leynt og ljóst.
Því er einfaldasta og áhrifamesta leið fjármálaráðherra til að halda hér stöðugleika, að skipta út bankastjóra Seðlabankans og allri peningastefnunefndinni. Að velja í þessi hlutverk fólk sem horfir á hagsmuni þjóðarinnar, fólk sem hefur það markmið að halda hér eins miklum stöðugleika og hægt er.
Að ætla að vinna þetta mál gegnum aðila vinnumarkaðarins er óframkvæmanlegt fyrir ráðherrann. Hann ætti að vera búinn að átta sig á að þar, beggja megin borðs, eru helstu andstæðingar þjóðarinnar. Þar sitja menn fjármagnsins og þeirra hugur er til eins mikils vaxtamunar við útlönd og hægt er og mikillar verðbólgu í kaupbæti, svo þeir geti enn frekar ávaxtað auðinn. Þar eru menn ekki að hugsa um þjóðina eða framtíðina, heldur lifa menn í núinu, með þá einu hugsun hvað þeir sjálfir geta troðið í eigin buddu!
Vilja halda vöxtum lágum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessir aular í peningastefnunefnd fylgjast greinilega ekki með því sem er að gerast innan hagfræðinnar, eða horfa gagnrýnið á hlutina. Forsaga málsins er sú að innan hagfræðinnar, eins og í öðrum greinum, eiga sér stað framfarir og þar er stöðug þróun eins og á að sjálfsögðu að vera alls staðar. Það eru komnar fram vísbendingar og það hefur verið sannað að áhrif stýrivaxta eru ekki eins og talið var, þegar "ný-klassísku hagfræðingarnir" luku námi sínu (en það eru einmitt þeir sem eru í peningastefnunefnd). Svo eru margir sem vilja meina að eftir því sem stýrivextir hækki - aukist hættan á verðbólgu.
Jóhann Elíasson, 17.8.2015 kl. 09:40
Samkvæmt lögmáli Murhpy's mun eitthvað fara úrskeiðis ef það getur það. Hér höfum við tilvik þar sem söguleg dæmi sanna að ekki aðeins getur eitthvað farið úrskeiðis, heldur hefur það gert það áður, og þegar það gerist eru afleiðingarnar stórfelldar hörmungar.
Ég held að þó að Murphy hafi hiklaust tekið sæti á eldflaugavagni til að prófa skotsæti fyrir herflugmenn, þá myndi hann hugsa sig tvisvar um áður en hann settist á íslenska hagstjórnarvagninn.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.8.2015 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.