Er Dagur illa lesinn?
5.4.2015 | 07:54
Svo virðist sem Dagur sé illa lesinn um fæðingarsögu nýja landspítalans. Í upphaflegu skýrslunni, sem gefin var út 2002, var gert ráð fyrir að þessar byggingar yrðu notaða. Þetta hefur því alla tíð verið inn í áformunum.
Hitt má kannski skoða, hvort sömu forsendur sé enn fyrir hendi og árið 2002, um kostnað við endurbyggingu þeirra. Húsakostur landspítalans er orðinn mun verri en þá, ekki var komin upp skæð sveppasýking þar innandyra og ekki farið að taka herbergi og skrifstofur úr notkun vegna vatnsleka og myglu árið 2002, eins og nú. Því er ekki víst að hagurinn af því að nota gömlu byggingar áfram sé jafn mikill og áður.
En það kom fleira fram í þessari skýrslu og kannski það markverðast að valnefndin, sem ákvörðunina tók um staðarvalið, hafi ákveðið að líta framhjá þeirri leiðsögn er sérfræðihópur um staðarvalið lagði fram. Reyndar fengu þessir sérfræðingar einungis að skoða þrá staði og gefa umsögn um þá, Hringbraut, Fossvog og Vífilstaði. Af þessum þrem stöðum kom Hringbraut verst út en hinir tveir voru svipaðir. Sérfræðingarnir töldu aðkomuna skipta þar mestu máli, sem og möguleikar til framtíðaruppbyggingu.
Valnefndin kaus hins vegar að horfa framhjá hlutum eins og aðkomu og framtíð. Fyrir henni voru tvö atriði máttugust, nálægð við Háskólann og nálægð við miðborgina.
Nálægðin við Háskólann var í sjálfu sér eðlileg á þeim tíma, þar sem tæknin var önnur og verri þá en nú, t.d. takmörkuðu þá vegalendir samtengingar tölvukerfa. Þessi rök eiga ekki við í dag, þar sem lítið mál er að leggja ljósleiðara hvert sem er. Því er hægt í dag að tengja Háskólann við nýtt sjúkrahús, hvar á landinu sem það yrði reyst.
Hin rökin, nálægð við miðborgina, eru beinlínis hlægileg. Nefndarmenn töldu, sem satt er, að í sífellt meira mæli myndu sjúklingar notast við göngudeildir. Því þótti nefndarmönnum bráðnauðsynlegt að sjúklingar gættu skokkað niður í miðbæ, á eitthvert af kaffihúsunum þar! Í þessu tilfelli skipir auðvitað aðgengi og aðkoma lang mestu máli.
Ég hvet alla til að fara inn á vefsíðuna um nýja spítalann, þar er hægt að nálgast öll gögn um fæðingarsögu hans, einnig skýrsluna frá 2002, þ.e. ef hún hefur þá ekki verið tekin í burtu, vegna umræðunnar þessa dagana. Borgarstjóri gæti orðið margs vísari ef hann skoðaði þessa síðu og þær upplýsingar sem þar eru. Hann gæti þá hugsanlega farið með rétt mál, ef hann kýs svo.
Eftir standa ein rök fyrir byggingu nýs landspítala við Hringbraut, það eru rökin um að of miklum fjármunum hafi verið eytt. Slík rök hafa aldrei haldið og gera það ekki nú. Það er aldrei of sein að gera hið rétta.
Staðreyndin er einföld, það er búið að taka einn og hálfann áratug að reyna að hefja byggingu á nýjum landspítala. Allann þann tíma hefur hnífurinn um staðsetninguna staðið í þessu verkefni og tafið það. Verði hann ekki fjarlægður og skynsamari staðsetning valin, má búast við að enn líði mörg ár þar til við sjáum hús rísa.
Er þá ekki skynsamlegra að taka af skarið strax og velja þessum spítala betri stað sem sátt er um, svo hægt sé að hefjast handa.
Hagkvæmast að byggja við Hringbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er kannski rétt að vara fólk við áður en það fer á vef nýja spítalans til að skoða þar gögn. Margar skýrslur þar eru á ensku og það þykir víst ekki góð stjórnsýsla.
Gunnar Heiðarsson, 5.4.2015 kl. 08:12
Þú nefnir nálægð við háskólann og nálægð við miðbæinn. Gleymirðu ekki einu. Þetta hátæknisjúkrahús á að þjóna öllum landsmönnum. Þá þarf væntanlega sjúkraflug að vera til staðar. Og hvað ef flugvöllurinn hverfur úr vatnsmýrinni og fer eitthvað annað eins og stefnt er að? Hvað gera bændur þá?
Jósef Smári Ásmundsson, 5.4.2015 kl. 09:00
Sæll Jósef Smári.
Það er ekki ég sem nefni nálægðina við Háskólann sem rök, heldur var ég þar að vitna til orða valnefndarinnar, sem ákvörðunina tók árið 2002. Nálægð við Háskólann eru ekki lengur nein rök, þar sem tæknin er önnur og betri nú en þá.
Hitt er hárrétt hjá þér, nýi landspítalinn á auðvitað að vera fyrir alla landsmenn. Því er staðsetning hans gjörsamlega út úr kortinu. Við skulum hins vegar vona að flugvöllurinn verði aldrei færður úr Vatnsmýrinni. Hann er nauðsynlegur, hvar sem nýr landspítali rís.
Svo vil ég benda á mjög góðar færslur Egils Jóhannssonar um þetta mál, hér á moggablogginu. Hann fer fróðlegum orðum um staðsetninguna.
Gunnar Heiðarsson, 5.4.2015 kl. 15:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.