Alveg hreint með eindæmum
5.3.2015 | 08:36
Það er alveg hreint með eindæmum hvað Árni Páll getur verið barnalegur, hversu gjörsamlega hann er úr tengslum við raunveruleikann.
Hver sá sem sá viðtalið við Jón Baldvin, á Esjunni um síðustu helgi, efast ekki um að hann er afhuga ESB. Reyndar gaf hann sambandinu slíka einkunn að hörðustu andstæðingar aðildar mættu vera stoltir af. Jón Baldvin sagði ESB í alvarlegri kreppu á flestum eða öllum sviðum, sagði lýðræðið innan þess vera horfið með öllu að þar ráði embættismenn í Brussel með stuðningi stjórnvalda í Berlín. Þetta voru sterk orð frá þeim manni sem má með sanni segja að sé guðfaðir aðildarumsóknarinnar.
Og ekki voru orð Árna Páls á alþingi í gær gáfulegri. Þar hélt hann því fram að fjármálaráðherra Grikklands hefð varað við því að fallið yrði frá Evrópusamrunanum. Þetta var rangt hjá Árna Pál, það sem gríski ráðherrann sagði var að hann teldi varasamt fyrir Grikkja að kasta frá sér evrunni. Þarna er mikill munur á. Þá hélt Árni Páll því fram að ef vikið yrði frá frekari samruna myndi það leiða til fasisma, upplausnar og endalausu lýðskrumi í evrópskum stjórnmálum. Það er einmitt VEGNA þess samruna sem þegar hefur orðið og þess aukna samruna sem ræddur er, sem uppgangur mótmælenda ESB er svo mikill. Evrópusinnar, bæði hér á landi sem innan ESB, kalla þá hópa fasista. Þeir þekkja greinilega ekki mun á fasisma og lýðræði!
Ef það kallast fasismi þegar þjóðir velja sér fulltrúa í kosningum, hvað kallast þá stjórnskipan sem samanstendur af sérvöldum fulltrúum? Eins og Jón Baldvin bendir á, þá hefur lýðræðinu verið kippt úr sambandi í stjórnkerfi ESB og að stórum hluta innan þeirra ríkja sem sambandið mynda. Þess vegna eru miklar vár fyrir dyrum Evrópusambandsins, enda einmitt við slíkar aðstæður sem öfgahópar fá lifað. Í lýðræði er uppgangur þeirra mun erfiðari, ef ekki útilokaður!
Það liggur ljóst fyrir hvað aðild þýðir fyrir okkur Íslendinga. Hins vegar er ekki ljóst enn hversu langt samruni ríkja ESB muni verða, eða hvort sambandið springur í loft upp með tilheyrandi ósköpum. Því er lítill vandi fyrir okkur Íslendinga nú, að gera upp við okkur hvort við viljum inn í ESB, eða standa utan þess. Út frá því ber að ræða aðildarumsókn okkar. Og sumir aðildarsinnar hafa kjark til að opinbera sinn hug, þó flestir feli sig bak við einhverjar "samningaviðræður". Þær samningaviðræður snúast um það eitt hversu hratt við viljum verða fullgildir meðlimir ESB, ekkert um innihald þeirrar aðildar.
Eins og ástandið er innan ESB og hversu mikill vafi leikur á hvort það muni ná að lifa af þær hremmingar sem það er í um þessar mundir, er engin ástæða fyrir okkur að míga utan í það. Sjáum til hvernig hildarleikurinn endar og skoðum okkar hug að honum loknum. Með sama áframhaldi, þeirri stjórnun sem viðgengst nú innan ESB, mun það klárlega leiða til enn einna stríðsátakanna innan Evrópu. En vel getur svo farið snúið verði af leiðinni til heljar, að vald verði fært aftur til aðildarríkja, að lýðræðinu verði komið aftur á innan ESB landa. Verði svo mun sambandið sjálfsagt lifa og dafna. Þá gæti verið kostur fyrir okkur að gerast aðilar að því, fyrr ekki. Reyndar er ekkert enn sem bendir til slíks viðsnúnings, enn er haldið hraðferð til heljar, af stjórnendum ESB.
Aðildarumsókn okkar var vanhugsuð og gerræðisleg og án samþykkis þjóðarinnar. Þó óraði fáa fyrir því þá að ástandið innan sambandsins yrði með þeim hætti sem það er nú, að sú skelfing sem nú vofir yfir Evrópu yrði að staðreynd.
Því ber að afturkalla aðildarumsóknina og það strax. Stjórnvöld hafa skaðað þjóðina með sleifarskap sínum í þessu máli!!
![]() |
Jón Baldvin ekki orðinn afhuga ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.