Forstjóralaunin og þögnin
3.3.2015 | 11:37
Á föstudag í síðustu viku var tilkynnt um launahækkun til forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Nokkuð vænleg launahækkun og að auki afturvirk um 14 mánuði!
Það er tvennt sem vekur athygli mína varðandi þessa frétt. Í fyrsta lagi er þarna um að ræða forstjóra fyrir fyrirtæki sem er í almannaeigu, að stæðstum hluta Reykjavíkurborgar auk nokkurra annarra sveitarfélaga, t.d. Akraness. Í öðru lagi vekur þögnin verulega athygli mína, sérstaklega í ljósi þess að kjarasamningar eru ýmist lausir eða að losna.
Einungis tveir verkalýðsleiðtogar hafa tjáð sig opinberlega um þetta mál, Vilhjálmur Birgisson í bloggfærslu á eyjan.is og Sigurður Bessason á fréttasíðu visir.is. Á fréttamiðlum er lítið um um þetta að finna og þær fréttir þá stuttar og innihaldslausar.
En hver var þessi launahækkun forstjórans? Í fljótu bragði er ekki um mikla launahækkun að ræða, eða rétt tæp 12%. Það er þó rúmlega 4 sinnum meira en almennir launþegar fengu á sama tímabili og rúmlega 30 sinnum hærra í krónum talið. En þetta segir bara örlítinn sannleik af launasögu forstjórans.
Bjarni Bjarnason var ráðinn forstjóri OR fyrir réttum fjórum árum síðan. Frá þeim tíma hafa laun hans hækkað úr 1.340.000 kr í 1.900.000 kr. Að auki fær hann nú bíl til umráða og þiggur laun fyrir afskipti af stjórnun tveggja deilda innan OR. Deildum sem fengu það viðurnefni að kallast fyrirtæki, en eru auðvitað enn sömu deildirnar og áður. Því eru laun og launakjör forstjórans mun hærri. Hann hefur því fengið á þessum fjórum árum, í starfi hjá OR, launahækkun upp á rúm 79%. Á sama tíma hefur launavísitalan í landinu hækkað um 24% og margur launamaðurinn sem hefur fengið mun minna en það!
Stjórn OR fól stjórnarformanni að semja við forstjórann um launakjörin. Mikið væri gott að fá að semja um sín launakjör við þann mann. Ef BB tekst að plata hann svo gjörsamlega, ætti hverjum sem er að takast að plata hann upp úr skónum.
Og ekki tók betra við þegar stjórnarformaðurinn reyndi að rökstyðja þessa óhæfu sína. Hann sagði BB vera svo gífurlega miklum kostum búinn og blandar inn í þá umræðu að meðallaun starfsmanna OR séu um 650.000 kr. Um kostina skal ekki sagt, en þó ljóst að BB faldi þá mjög vel meðan hann, fyrir nokkrum árum, var forstjóri hjá öðru fyrirtæki. Hvað meðallaun starfsmanna OR kemur málinu við, er vandséð. Þó má benda á tvennt: Í fyrsta lagi eru laun forstjórans orðin 3,5 sinnum hærri en meðallaun innan OR og í öðru lagi hafa meðallaun starfsmanna hækkað eitthvað við þessa launahækkun forstjórans. Ekki ætla ég að dæma um hversu margföld laun forstjóra eigi að vera versus meðallaun viðkomandi fyrirtækis, en hitt er ljóst að hækkun meðallauna starfsmanna OR gefur kannski stjórnarformanninum von um vopn í samningum við þá. Hvað veit maður hvað þessir menn eru steiktir í hausnum.
Það hafa mörg gullkorn komið af munni BB gegnum árin og sum frekar grunnhyggin. Það þekkja þeir sem hafa umgengist og starfað með honum. Þegar hann tók við OR var þegar búið að endurskipuleggja fyrirtækið, eftir að það var nánast komið á hausinn tveim árum fyrr. Starf BB var því í sjálfu sér auðvelt, hann tók við fyrirtækinu þegar það var að hefja upprisuna. Því komu hin háfleygu orð hans um að herða þyrfti ólina, eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Og BB stóð vissulega við að hert væri ólin á viðskiptavinum OR, þó hann héldi sjálfum sér vel frá slíkum hörmungum, eins og launasaga hans innan fyrirtækisins sýnir.
En Bjarna Bjarnasyni er ekki alls varnað. Stundum ratast honum satt orð af munni, kannski óvart, en hvað um það. Þau orð hans, í tengslum við launakjör sín, að hann væri starfsmaður í opinberu fyrirtæki og því leiðandi í launum á vinnumarkaði, eru vissulega sönn.
Þá vitum við það. Starfsmenn OR geta gengið að því sem vísu að fá sömu launahækkun og forstjórinn hefur fengið síðustu fjögur ár og það sem betra er, almennir launþegar einnig.
Kannski maður geti farið að panta sér utanlandsferð!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.