Gamalkunnur söngur frá gamalkunugum andlitum
26.2.2015 | 18:51
Þessi gamalkunnugi söngur sem kemur frá gamalkunnugum andlitum, er ekki merkilegur. Verst er þó að þarna er haldið uppi svipuðum málflutningi og fyrir hrun. Þeir sem sögðu okkur korteri fyrir bankahrunið að bankarnir stæðu sterkir, virðast ekkert hafa lært af eigin heimsku.
Hvort ytri aðstæður eru góðar eða slæmar skiptir auðvitað einhverju máli, við afnám hafta. Hitt er þó mun þýðingameira að innri aðstæður séu hagstæðar. Það eru jú við Íslendingar sem munum blæða, ef illa fer og því mikilvægt að innri aðstæður séu með þeim hætti að hellst ekkert fari úrskeiðis.
Höftin eru sjálfsagt eitthvað sem ekki er komið til með að vera, þverpólitískt samráð verður að vera um losun þeirra og þetta er vissulega mikill línudans.
En það er þó engin ástæða til fljótfærni við losun þeirra, markmið losunar haftanna má aldrei verða það eitt að losa þau. Markmiðið hlýtur alltaf að vera það að losun þeirra skapi sem minnsta hættu fyrir land og þjóð. Það er betra að vera innan hafta en utan, ef losunin fer úr böndum. Um þetta hlýtur að vera pólitísk samstaða, hvað sem fyrrverandi og núverandi greinendur bankanna segja. Því er mikilvægt að gera línuna sem dansa þarf eftir við losun haftanna eins breiða og mögulegt er, svo línudansinn verði léttari.
Það kemur svo sem ekki á óvart þó Ásgeir Jónsson teli gengi krónunnar vera að styrkjast. Stærri mál en það hafa stundum farið framhjá honum. Þeir sem telja evru hinn eina sanna gjaldmiðil eru sjálfsagt sammála dósentnum. En er það svo, hefur gengið eitthvað styrkst? Auðvitað fer þetta eftir hvaða viðmið er notað, en ef skoðuð er gengisskráning nokkurra gjaldmiðla í upphafi júlímánaðar, síðastliðinn og borið saman við skráð gengi í dag, kemur svolítið önnur mynd upp.
Vissulega hefur gengið styrkst gagnvart evrunni, um heil 3,3% á þessu tímabili. Hins vegar hefur gengi krónunnar gagnvart flestum öðrum gjaldmiðlum fallið, um 6% gagnvart sterlingspundi, um tæp 18% gagnvart dollar en jenið hefur nánast staðið í stað. Það er því vart hægt að segja að gengi krónunnar hafi styrkst, nema þá að taka fram gagnvart evru. En eins og flestir vita hefur gengi evru gegnvart dollar hrapað á þessum tíma.
Hvers vegna hin hrynjandi evra er svo veigamikil í skráningu krónunnar er illskiljanlegt. Stór hluti inn- og útflutnings, er í dollurum. Því hefði maður haldið að hrun evrunnar hefði átta að koma mun skýrar fram hér og að sama skapi ætti dollar ekki að vera orðinn svona hátt skráður gagnvart krónu.
Jafnvel þó dollar sé að styrkjast á heimsmarkaði, vegna betri afkomu þar vestra, þá er það samt hrun evrunnar sem öll heimsbyggðin hræðist.
Gagnvart afnámi hafta þarf fyrst og síðast að hugsa um hag okkar Íslendinga. Það er illskárra að vera fastur í höftum en laus við þau, ef ekki er hægt að losa þau án skaða fyrir okkur.
Í raun er ekkert sem kallar á losun hafta, annað en EES samningurinn. Fyrirtæki hér á landi virðast þrífast nokkuð vel, bæði þau sem eingöngu starfa hér á landi sem og hin sem eru með starfstöðvar vítt um heiminn. Afkomutölur þessara fyrirtækja eru slíkar að vandséð að þær væru betri ef engin höft væru. Fjármálakerfi landsins hefur aldrei blómstrað meir en þessi ár sem fjármagnshöftin hafa staðið og vissulega hefur sá heimur sýnt að honum er vart treystandi til að komast á alþjóðamarkað. Það fór ekki vel síðast þegar bankar voru frjálsir til að stunda viðskipti erlendis. Hingað koma fyrirtæki erlendis frá og byggja fyrir tugi milljarða og ekki að sjá að höftin tefji það á nokkurn hátt. Það er enginn vöruskortur í landinu og allir geta keypt það sem efni og vilji er til. Þeim sem langar til útlanda kaupa bara far með næstu vél og geta út á farseðilinn fengið meiri gjaldeyri en hægt er að komast yfir að eyða, auk þess sem plastkortin eru galopin þeim til viðskipta erlendis.
En við erum bundin EES samningnum og hann því í hættu ef höft verða ekki losuð. Þá má ekki gleyma flottræfilshætti okkar. Við viljum ekki vera síðri en tug og hundraðmilljóna þjóðirnar, þó við séum bara svona eins og lítið úthverfi stórborgar.
Og svo eru það kröfuhafarnir. Þeir vilja auðvitað sitt. Þar er kannski mesta krafan um losun haftanna. Svo þeir komist nú úr þessu landi með restina af því sem eftir var við hrunið.
Þeir vilja klára verkið, sem var tafið með neyðarlögum, haustið 2009!
Aðstæður til afnáms hafta aldrei betri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er hárrétt hjá þér, að það er ekkert sérstakt sem pressar á afnám fjármagnshafta (hér eru engin gjaldeyrishöft). Nema þá kannski hagsmunir fárra sem eiga hvort sem er nóg að bíta og brenna. Almannahagsmunir krefjast hinsvegar ekkert frekar afnáms hafta, á sögulegum tíma hefur aldrei verið neitt í líkingu við stöðugleika í efnahagsmálum hér á landi, nema þá einna helst á þeim tímabilum sem hafa verið fjármagnshöft, eða rekin fastgengisstefna, eins lengi og það hélt sem var reyndar ekki mjög lengi vegna eftirgjafar stjórnmálamanna fyrir freistingunni til peningaprentunar.
Ég er hinsvegar ekki sammála því að höft á einhliða fjármagnsfutninga brjóti gegn EES-samningnum. Fjórfrelsið er nefninlega samkvæmt orðsins hljóðan: fjórþætt. Í því felst frelsi til flutnings á vörum, þjónustu, vinnuafli, og fjármagni, milli landa innan EES-svæðisins. Þessi skilyrði eru öll upfyllt hér á landi, því það eru engin höft á flutninga fjármagns til þess að greiða fyrir: vörur, þjónustu og vinnuafl.
Með öðrum orðum eru lögmæt og eðlileg viðskipti ekki í höftum.
Einu höftin sem eru í gildi ná til einhliða fjármagnsflutninga.
Fjórfrelsið er ekki einfrelsi til þess að stunda óhefta einhliða fjármagnsflutninga og spákaupmennsku milli landa, heldur haldast allir fjórir þættirnir í hendur. Tilgangurinn með fjórfrelsinu er að greiða fyrir eðlilegri atvinnustarfsemi og samkeppni. Til þess þarf að vera hægt að flytja fjármagn til að greiða með fyrir hina þrjá þættina í fjórfrelsinu: vörur, þjónustu og vinnuafl. Fjórfrelsið hefur alls ekki þann tilgang að greiða fyrir einhliða flutningum fjármagns sem nýtast til markaðsmisnotkunar og ýta undir fákeppni, enda er hvorugt af þessu einkenni fjálsra markaða.
Loks er rétt að benda á að í allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um fjármagnshöft, hafa aldrei nokkru sinni komið fram haldbær rök fyrir því afhverju ætti yfirhöfuð að afnema þau tiil fulls, það er að segja á einhliða fjármagnsflutninga. Það hefur aldrei verið fyllilega rökstutt afhverju fjármagnsflutningar ættu yfir höfuð að vera fullkomlega frjálsir, þegar öll önnur viðskipti og sérstaklega eðlileg atvinnustarfsemi, eru það alls ekki.
Þeir sem tala hvað hæst fyrir fullkomnu frelsi til einhliða fjármagnsflutninga á kostnað hagsmuna hins frjálsa markaðar, skulda almenningi skýringar á því fyrir hvern þeir eru eiginlega að vinna, því ekki eru þeir að vinna fyrir almannahagsmuni.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 26.2.2015 kl. 19:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.