Og selja svo aðgang að dýrðinni
14.2.2015 | 12:29
Það er vel til fundið hjá samgöngustofu, eða öllu heldur snillingum þeim sem innan hennar vinna, að búa til útsýnispall á grjótgarðinum á Landeyjasandi. Þangað er þá hægt að selja aðgang þeim sem vilja berja dýrðina augum, sem og þeim sem álpast þangað niður eftir í von um far til Eyja. Þeir geta þá alltént horft til Vestmanneyja.
Alltaf kemur að endapunkti, þ.e. þeim punkti að séð er að ekki verður lengra haldið. Þetta vita allir menn og flestir einhvertímann lent í þeirri ákvörðun að þurfa að snúa við. Þeir sem þverast við og rembast eins og rjúpan við staurinn, fara alltaf verr út úr vandanum en þeir sem af skynsemi snúa við meðan hægt er.
Það er fyrir nokkru ljóst að hafnamannvirki á Landeyjarsandi, ætlað til samgangna til Vestmanneyja, er óframkvæmanlegt. Jafnvel þó óþrjótandi peningar væru til verksins, mun þessi höfn aldrei getað þjónað þeim tilgangi allt árið. Þetta er staðreynd.
Því ætti að vera fyrir löngu búið að snúa af þessari leið og leita nýrrar. Peningum er betur borgið við slíkar rannsóknir og síðan framkvæmdir, þegar lausn er fundin. Meðan fé er sóað í þessa vonlausu aðgerð, er ekki að vænta nokkurra bóta á samgöngum milli lands og Eyja.
Kannski þessi útsýnispallur sé fyrsta skref samgöngustofu í að viðurkenna mistök sín. Að þangað geti fólk lagt leið sína til að berja augum einhver mestu mistök sem gerð hafa verið í gervallri samgöngusögu Íslands, svo stór mistök að jafnvel Vaðlaheiðagöng blikna í þeim samanburði.
Ekki er að efa að margur landsmaðurinn mun leggja leið sína þangað niður eftir, til að berja þetta augum og víst er að auðvelt verður að markaðssetja þessi mistök meðal erlendra ferðamanna.
Með hóflegri gjaldtöku og auknum ferðamannastraum, gæti samgöngustofa kannski náð til baka öllum kostnaði við flippið, á svona eins og 500-1000 árum!
Vegur lagður með hafnargarðinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll gunnar
þetta dæmi er með ólíkindum, pólitíkin hangir á þessu og þrjóskast með þetta eins og hundur á roði og skattborgaranum fossblæðir. Á sama tíma eru engir peningar til fyrir lækna, held að tala var 4 milljarðar í launakröfur þeirra. Er svona málflutningur marktækur?
Held að Vaðlaheiðargöng voru 10 milljarða verkefni, hver maður dæmi það fyrir sig. En óneitanlega finnst manni að kjördæmapot hefur haft meira um það mál að segja en hagkvæmni verkefnisins.
jón (IP-tala skráð) 14.2.2015 kl. 15:14
Það liggur nærri að áætlanir um kostnað við Vaðlaheiðagöng væru nærri einu tug milljarða. Því var líka haldið fram að áhættan við þá gangnagerð væri sú allra minnsta við slíka framkvæmd, hér á landi, sökum þess hversu vel málið væri undirbúið og miklar rannsóknir farið fram. Bentu menn á að þær rannsóknir hafi staðið yfir í meir en áratug, lengur en fyrir gerð nokkurra annarra jarðgangna hér á landi.
Nú liggur fyrir að þessar rannsóknir virðast hellst hafa farið fram á einhverjum skrifstofum. Af þeim sökum mun kostnaðurinn verða margfaldur við áætlunina og alls óvíst að nokkurn tímann verði hægt að klára göngin.
Til að kóróna flónskuna var hætt að bor að vestanverðu, þegar ekki var lengra komist og byrjað að austanverðu, eins og menn héldu að vandinn myndi lagast af sjálfu sér. Auðvitað átti að komast gegnum vandann, ef það er þá hægt, áður en byrjað var að bora að austanverðu.
Þá hefði einungis einn minnisvarði staðið eftir, en ekki tveir eins og nú stefnir í!!
Gunnar Heiðarsson, 14.2.2015 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.