Aumingja maðurinn

Það er ekki annað hægt en að vorkenna Guðmundi Steingrímssyni, svo takmarkað sem vit hans viðist vera. Auðvitað er þessi maður ekki eins skyniskroppinn og hann lætur, er sennilega með vel yfir meðal gáfur, en einhverra hluta vegna velur hann að halda þannig fram málstað sínum að halda mætti að þar fari verulega vitskertur maður.

Guðmundur kemur fram í hverjum fjölmiðlinum af öðrum og heldur því fram að ríkisstjórnin hafi ekki heimild til að afturkalla aðildarumsóknina að ESB, heldur því fram að einungis þjóðin hafi heimild til þess í gegnum kosningu.

Það fer tvennum sögum um hversu mikið ný ríkisstjórn er bundin af þingsályktunartillögum fyrri ríkisstjórna og þeirra athöfnum utan lagagerða. En jafnvel þó tekið sé undir þau orð þingmannsins að ríkisstjórnin sé bundin af þessari þingsályktunartillögu, er ljóst að Alþingi hefur klárlega heimild til að afnema hana, ekki síður en að hvert Alþingi hefur heimild til að breyta eða afnema lög sem áður hafa verið sett.

Þá er spurning, ef þingmaðurinn trúir sínum orðum, á hvaða forsendum aðildarumsóknin hafi verið byggð. Var þá ekki jafn nauðsynlegt að þjóðin kæmi að málinu? Er þá ekki aðildarumsóknin og aðildarferlið sem á eftir kom ómerkt?

 

Auðvitað á að afturkalla aðildarumsóknina. Hún sigldi í strand í seinnipart árs 2011 og í heimsókn þáverandi allsherjarráðherra Íslands til Brussel, í upphafi árs 2012, var strandið staðfest. Undir lok þessa árs samþykkti þáverandi ríkisstjórn að setja viðræður á ís og í upphafi árs 2013 fór þáverandi utanríkisráðherra með þau skilaboð til Brussel að formlegt hlé væri gert á viðræðunum. Að loknum kosningum vorið 2013, kosningum þar sem aðildarsinnar buðu algjört afhroð, meðan andstæðingar aðildar náðu hreinum meirihluta, fór nýr utanríkisráðherra til Brussel með þá tilkynningu nýrrar ríkisstjórnar að ekki yrðu hafnar viðræður aftur.

Það sem klikkaði hjá þessari nýju ríkisstjórn var að taka ekki á þessu máli með sömu festu og fyrri ríkisstjórn gerði, á sínum fyrstu mánuðum við völd. Þáverandi ríkisstjórn var ekkert að tvínóna við hlutina, heldur var hart gengið í því á sumarþingi að loknum kosningum að knýja þingmenn til hlýðnu og samþykkja umsókn að ESB. Þetta var gert þrátt fyrir að formaður annars stjórnarflokksins hafi neitað í þrígang að til aðildarumsóknar kæmi, í sjónvarpi allra landsmanna og plataði þannig kjósendur.

Vandræðagangur núverandi ríkisstjórnar og verkleysi í þessu máli var hins vegar algjör. Betur hefði farið ef sömu festu hefði verið haldið í málinu á sumarþinginu 2013 eins og sumarþinginu 2009. Þó hafði sú ríkisstjórn sem tók við völdum vorið 2013 skýlausan stuðning í umsóknarmálinu, skýlausan stuðning fyrir afturköllun umsóknarinnar.

Loks nú tala báðir formenn stjórnarflokkanna um að málið verði klárað á yfirstandandi þingi. Það er gott en mesti óttinn virðist þó liggja hjá utanríkisráðherra, sem hefur málaflokkinn undir höndum. Þar virðist vera einhver efi um málið og einna líkast því að hann vilji sópa því undir teppið. Kannski er kominn tími fyrir stjórnarfeðurna að taka málið úr höndum utanríkisráðherra og láta Alþingi um afgreiðslu þess.

Menn þurfa ekki að óttast málþóf um málið, enda ekkert sem kemur í veg fyrir að halda Alþingi að störfum í allt sumar, ef þess þarf.


mbl.is Tillaga um slit innan fárra daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll! Ég hef lengi haft það á tilfinningunni sem þú,að eitthvð hefti utanríkisráðherra. Datt fyrst í hug einhverja taktík (líkt og í handbolta). Eitthvað hik er í yfirlýsing hans 

Helga Kristjánsdóttir, 23.1.2015 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband