Áróðursráðuneyti SA
30.11.2014 | 21:07
Áróðursráðuneyti SA hefur haft í miklu að snúast síðustu vikur og enn mun aukast álag á starfsmönnum þess. Það er jú að koma að því að sest verði að samningsborði, þar sem laun, eða öllu heldur launaleysi, þeirra sem minnst hafa verða ákveðin. Í þessu skyni nota atvinnurekendur tugi eða hundruði milljóna í auglýsingaherferð og kaupa bestu tíma fjölmiðla til að halda uppi látlausum áróðri gegn launahækkunum til þessa hóps. Oft hefur SA og forverar þeirra samtaka farið þessa leið og oft hefur áróðurinn verið strangur, en aldrei sem nú.
Svona áróður skilar vissulega árangri, sérstaklega þegar heildarsamtök launþega gera ekki svo mikið sem æmta, hvað þá að reyna að stand vörð umbjóðenda sinna með því að benda á staðreyndarvillur áróðursins. Það er huggulegt að búa við það hlutskipti að þeir aðilar sem eiga að standa vörð um kjör manns á vinnumarkaði, skuli sjá sitt hellsta verk að vinna með þeim sem þeir eiga að verja launþega fyrir!
Eitt hellsta markmið áróðursráðuneytisins er að koma inn í haus landsmanna að laun megi ekki hækka, þá æði verðbólgan af stað. Í þessum tilgangi er langt gengið á sannleikann, enda á áróður lítt skilt við staðreyndir.
Því er haldið fram að hvert prósent sem laun hækka, þá aukist verðbólga um sömu prósentutölu. Til að svo megi verða, verður launakostnaður fyrirtækis að vera 100% af gjöldum, að allir tilkostnaður sé vegna launa. Svo er auðvitað ekki, alls ekki. Talið er að meðaltalslaunakostnaður sé um eða innanvið 25% hjá fyrirtækjum landsins. Innan stóriðjunnar er þessi kostnaður mun minni, eða á bilinu 5 - 8%. Ef miðað er við að meðaltalslaunakostnaður sé 25% af gjaldalið fyrirtækja ætti hvert prósent sem laun hækka að kalla á hækkun á vöru eða þjónustu um 0,25%. Að verðbólguhvati 1% launahækkunnar sé um 0,25%. Að til að verðbólguhvati launahækkanna fari ekki yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans megi hækka laun í landinu um allt að 10%.
En dæmið er þó ekki svona einfallt. Það miðast við að öll fyrirtæki landsins séu rekin á núllpunkti. Sem betur fer er það þó alls ekki, mörg fyrirtæki eru vel rekin og þarf ekki annað en benda á reiknisuppgjör fyrirtækja, sem koma nú fyrir augu landsmanna, hvert af öðru. Þá benda arðgreiðslur sumra fyrirtækja, sérstaklega í sjávarútvegi, til þess að þau séu einstaklega vel rekin um þessar mundir. Þessi fyrirtæki hafa vel efni á að taka á sig launahækkanir, án þess að skila afleiðingum þeirra inn í hagkerfið og því ætti verðbólgumarkmiðum Seðlabanka ekki að stafa ógn af þó launhækkanir yrðu enn meiri.
Þessu til staðfestingar þarf ekki annað en að skoða þær hagtölur sem liggja á borðinu. Meðaltalslaun í landinu hafa hækkað um 6% síðasta ár, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Reyndar fengu félagar ASÍ ekki nema 2,8% launahækkun á sama tíma og þar sem þeir telja um 100.000 manns, eða um 60% alls launafólks í landinu, er ljóst að til að ná meðaltalslaunahækkun upp í 6% hafa hinir fengið mun meira. Á sama tíma og meðaltalslaunahækkanir í landinu hafa verið um 6%, mælist verðbólgan einungis um 1%, eða langt undir markmiðum Seðlabankans. Hvar er þá tengingin? Ætti ekki að mælast hér í það minnsta 6% verðbólga, ef áróðursráðuneyti SA hefur eitthvað til síns máls? Eða er að þeirra mati 15% launahækkun á laun sem eru yfir milljón, minna verðbólguhvetjandi en 2,8% launahækkun á laun sem einungis ná 214.000 á mánuði, að 150.000 kr launahækkun sé minna verðbólguhvetjandi en tæpar 6.000 kr !!
Auðvitað vilja allir landsmenn stöðugleika. Því er ekki undarlegt þó í skoðanakönnun komi sú staðreynd fram. Það kemur þó ekkert launahækkunum við, svo fremi að rekstur fyrirtækja ráði för. Og hann er bara með ágætum hjá flestum fyrirtækjum landsins og mjög góður hjá öðrum.
Það liggur fyrir að eigendur fiskvinnslufyrirtækja eru að greiða sér ágætis arð, svo ekki ætti að vera vandamál að hækka laun fiskverkakonunnar. Verslunin er í blóma. Arður hennar, samkvæmt ársreikningum, er ævintýralegur og svo virðist sem verslunin í landinu hafi næga peninga til auglýsinga. Því ætti ekki að vefjast fyrir versluninni að greiða kassafólkinu hærri laun, án þess að hækka vöruverð. Svona má lengi telja, ferðaþjónustan byggir hótel við hótel og svo að sjá að þar sé nægt fé, enda skyldi maður ætla að eitthvað skili sér af hinni stórauknu komu erlendra ferðamanna. Stóriðjan, sem hefur búið við frekar lág verð á sínum afurðum, er að rétta úr kútnum. Merki um hækkun afurðaverðs þeirra eru sterk og að sumu leiti komin á skrið. Það eru því öll teikn þess að hér sé hægt að rétta örlítið af þann skaða sem launafólk varð fyrir við bankahrunið, þó ekki sé farið fram á að allur sá skaði verði bættur.
Verðbólgudraugurinn liggur ekki í vasa launafólks, allra síst þeirra sem minnst hafa. Það eru allt aðrar ástæður sem fóðra þann illvíga draug. Vandinn liggur því ekki í veski launamannsins.
Það virðist orðið eðlislægt hér á landi að þeir sem minnstu launin hafa fái minnst og síðan fari launahækkanir hækkandi eftir því sem laun hækka, ekki bara í krónum talið, heldur einnig í prósentum. Þennan vanda skapa launþegar ekki, heldur atvinnurekendur. Það gengur ekki að atvinnurekendur semji um lág laun til almennra launþega, en hækki síðan laun annara starfsmanna miklu meira. Það leiðir einungis til átaka, átaka sem auðveldlega er hægt að komast hjá. Til þess þurfa atvinnurekendur einungis að standa í lappirnar. Hvernig væri umræðan í dag ef enginn hefði fengið meiri launahækkun þetta ár, en sem nemur kjarasamning ASÍ og SA? Þá væri sennilega núna verið að skrifa undir endurnýjun kjarasamninga og jafnvel upp á ágæta launahækkun. En þessu tækifæri fórnuðu atvinnurekendur og brutu sáttina með því að semja um betri kjör við aðra. Og ekki má gleyma þætti ríkis og sveitarfélaga í þeirri tusku sem í andlit launþega var kastað, með aukahækkunum til flestra launþega þeirra.
Ekki að þetta komi á óvart. Til síðustu samninga var gengið eins og menn væru fæðingarhálfvitar. Markmiðið var gott, en framkvæmdin einstaklega hálfvitalega. Þar var kannski forseti ASÍ háfvitalegastur í háttum. Hann hélt að hann væri að gera einhverja tímamótasamninga, en gleymdi þeirri staðreynd að enginn var bundinn af þeim samning nema launþegar ASÍ. Annar eins hálfvitaskapur er óþekktur meðal hugsandi manna!
Og nú vill forseti ASÍ kenna stjórnvöldum um hanns eiginn hálfvitaskap. Stjórnvöldum sem hefur tekist að koma verðbólgu niður í sögulegt lágmark á sama tíma og atvinna eykst. Sökin á klúðrinu sem fram fór á vetrarsólstöðum árið 2013 er alfarið á ábyrgð forseta ASÍ og með ólíkindum að hann skyldi ekki vera látinn taka poka sinn fyrir þennan skaða sem hann þá olli launþegum þessa lands!
Kannski er kominn sá tímapunktur að leysa þurfi upp heildarsamtök launþega, eða í það minnsta að þeim verði haldið frá gerð kjarasamninga. Að kominn sé sá tími að launþegar ASÍ, 60% launþega, taki upp samningsaðferð hinna 40% launþega landsins. Að hver starfshópur semji fyrir sig. Hvort þetta muni leiða til frekari sáttar á vinnumarkaði efast ég um, en kannski myndu launþegar þá fá eitthvað meira í sinn hlut.
Auðvitað vilja allir stöðugleika. Það þarf ekki skoðanakönnun til að vita það. Hitt er aftur spurning, hvort launþegar séu svo skini skroppnir og ósjálfstæðir í hugsun að þeir láti plata sig með villandi spurningu, í skoðanakönnun áróðursráðuneytis SA. Að tengja saman launahækkanir og verðbólgu er fráleitt, enda lítil tengsl þar á milli.
Nær hefði verið að spyrja landsmenn hvort þeir vildu frekar launahækkanir eða hvort fyrirtæki greiddu eigendum meiri arð. Þar eru vissulega tengsl á milli.
Velja stöðugleika fram yfir launahækkanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.