Vefrit Framsóknarflokks ?
9.11.2014 | 16:38
Vefmiðillinn eyjan.is, sem sumir vilja tengja við Framsónarflokkinn, telur helst að fréttir sé að finna á fésbókarfærslum landsþekktra manna. Tvo daga í röð hefur þessi miðill sótt á fésbókina það sem forsvarsmenn miðilsins telja fréttir, en er í raun einungis sorgleg skrif manna sem telja sig öðrum fremri.
Þessir menn ráðast með offorsi á landsyggðarfólk og flokka það sem heimskt hyski sem að auki er frekt. Og þessi skrif telja forsvarsmenn eyjunnar vera fréttir.
Það er lítil famsóknarmennska falin í árásum á landsbyggðina, eða hampa þeim sem slíkar árásir stunda. Kannski er mesta fréttin í þessu öllu að eyjan.is er alls ekki vefmiðill Framsóknarflokksins, mun heldur Samfylkingar, eins og flestir aðrir fréttamiðlar þessa lands.
En látum vera þó eyjan.is sé komin með kratapestina, þessi vefmiðill er í einkaeigu og frjálst að taka afstöðu með hvaða stjórnmálaflokk sem er. Heiðarlegast væri auðvitað fyrir miðilinn að viðurkenna sína afstöðu, svo fólk þurfi ekki að velkjast í vafa um fyrir hvað hann stendur.
Hitt er verra þegar veffréttamiðill stundar þann leik að hampa þeim sem ljótasta orðfærið stunda. Það er ekki til þess fallið að laga orðræðuna í landinu. Auðvitað eru svartir sauðir víða og margir þeirra sem grípa hvert tækifæri til að koma sínum ljótu orðum á framfæri. Þarna fengu sumir þeirra gullið tækifæri til þess, enda athugasemdadálkar við þessar svokölluðu fréttir eyjunnar frekar ömurleg lesning á köflum. Betra hefði verið ef eyjan hefði látið skrif þessara tveggja manna kjurt liggja, að þeim hefði ekki verið útvarpað á veffréttamiðli. Þá hefðu einungis þeir sem er tengdir þessum tveim mönnum í gegnum fésbókina þurft að berja ósómann augum.
Óháð skoðun á því hvort flugvöllurinn skuli víkja eða vera, eða hvaða skoðun menn hafa á því máli, þá var þessi svokallaður fréttaflutningur eyjunnar með öllu óþarfur. Hann eykur einungis enn frekar á ósómann, sem allt of mikið er af á vefmiðlum landsins!
Hafi eyjan.is stóra skömm fyrir!!
Athugasemdir
Þetta er vefrit fjórflokksins. Rithöfundurinn gerði tilraun til að etja fólki saman. Það mistókst og nú keppast málpípurnar við að tilkynna að um stílæfingu rithöfundarins hafi verið að ræða.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.11.2014 kl. 17:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.