Samstaða þjóðar

Ég er algjörlega sammála Þóru Elísabetu, um að það eru dagvinnulaun sem á að ræða í kjarasamningum. Yfirvinna og vaktaálag er greitt fyrir aukna vinnu og vinnu á þeim tímum sólahrings sem allir aðrir eru í fríum, að ógleymdri vinnuskyldu á öllum stórhátíðardögum ársins.

En ég á erfitt með að skilja hvers vegna læknar þurfi að fá allt að 150 þúsund króna hækkun á sín grunnlaun, meðan verkamaðurinn fékk skitinn fimmþúsund kall.

Vissulega eru störf lækna þýðingarmikil, en það eru einnig störf þeirra sem vinna fiskinn, taka á móti erlendu feðafólki og vinna í stóriðjunni, auk annarra starfa. Væri ekki fyrir þessa vinnu, hefðum við lítil efni á að reka sjúkrahús eða heilsugæslu landsins.

Ef það er talið duga þeim sem lægstu launin hafa og vinna að verðmætasköpuninni, að fá 2,8% launahækkun, ættu allir sem síðan vinna við þau störf sem verðmætasköpun landsins heldur uppi að láta sér duga sömu hækkun.

Þau rök sem læknar og aðrir þeir sem meira hafa fengið, nota fyrir sínu máli, eiga ekki síður við um þá sem skapa verðmæti þessa lands. Samanburður launa við löndin næst okkur er verkamanninum jafn óhagstæður og lækninum.

Munurinn liggur kannski fyrst og fremst í því að læknirinn hefur efni á að flakka á milli landa og sækja sér betur launuð störf erlendis, sem erfiðara er fyrir verkamanninn að gera.

Ef við ætlum að byggja upp þetta land aftur verður að myndast samstaða meðal þjóðarinnar, ekki samstaða um að einhverjir hópar fái meiri launahækkanir en aðrir, heldur samstaða um að allir fá jafnt. Samstaða um að einhverjir hópar fái meira hefur aldrei haldið, heldur koma alltaf aðrir á eftir og benda á hvað hinir fengu og heimta það sama, eða örlítið meira.

Sjálfur gæti ég vel sæst á að læknar fái 35% launahækkun, ef sú hækkun gengur jafn yfir alla hópa þjóðfélagsins.

 


mbl.is Upplýsir ekki um heildarlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það hlýtur nú samt sem áður að hafa vægi eðli þeirrar vinnu sem fólk innir af hendi. Það vita allir sem fara í læknanám og gerast læknar að vinnan felur í sér vaktavinnu og óreglulega vinnu í útköllum og sílku.

Þ.a.l. er vinnan ekki í formi dagvinnu og verður það aldrei. Ef þú hækkar dagvinnutaxtann eru þá einhverjar líkur á því að vinna viðkomandi breytist?

Ég segi nei, hún breytist ekkert og þ.a.l. þá skiptir frasinn... "að fá mannsæmandi dagvinnulaun" engu máli í þessu tilviki.

Sindri Karl Sigurðsson, 6.11.2014 kl. 13:46

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sindri, vaktaálag og yfirvinna leggst á grunnlaun viðkomandi sem ákveðið hlutfall og fá því sömu prósetuhækkun.

Vaktaálag er fyrir vinnu á mismundi tímum sólahrings og vinnuskyldu óháð því hvort um venjulegann mánudag er að ræða eða jafnvel sjálft aðfangadagskvöld.

Að tala um heildarlaun við gerð kjarasamninga er hættulegt. Það er ljóst að sá sem vinnur vaktavinnu, eða mikla yfirvinnu, hefur hærri heildarlaun en sá sem einungis stundar dagvinnu. Því getur svo farið og hægt að nefna dæmi þess, að sambærilegir hópar, annar á dagvinnu en hinn vaktavinnu, fá mis há grunnlaun.

Þetta skeði á vinnustað sem ég vann á til langs tíma. Alltaf var talað um grunnlaun í kjarasamningum, enda vaktaálagið fyrir að vinna vaktavinnu. Síðan var skipt um eigendur og nýr forstjóri kom inn. Þá var farið að tala um heildarlaun.

Eins og oft vill verða, var horft á laun þeirra lægstu og þeir hópar fengu hærri launahækkun en aðrir. Þetta leiddi til þess að grunnlaun tveggja hópa innan fyrirtækisins, hópa sem unnu sambærileg störf, skekktust verulega. Þeir sem unnu einungis dagvinnu fengu hærri grunnkaupshækkun en sá hópur sem vann í vaktavinnu. Svo sambærileg voru störf þessara hópa að stundum voru dagvinnumenn kallaðir á aukavakt á vaktir. Þá kom í ljós að þeir fengu meira greitt fyrir aukavaktina en sá sem tók aukavakt við hlið hans, en kom af annari vakt. Þetta skapaiðist af því að yfirvinna er greidd sem hlutfall af grunnkaupi og þar sem það var hærra hjá dagvinnumanninum en vaktamanninum, fékk hann meira greitt fyrir aukavaktina.

Því á alltaf að ræða grunnlaun við gerð kjarasamninga. Álögur eiga að greiðast vegna aukins álags. Hitt er rétt að víða tíðkast að greidd sé fyrir óunna yfirvinnu, en tæplega kemur slíkt fram í kjarasamningum. Það ætti því ekki að vera erfitt að útrýma slíkri spillingu, ef viji er til þess.

Þegar aftur er verið að reikna hvort og hversu mikið fyrirtæki geta hækkað laun sinna starfsmann, á að sjálfsögðu að tala um heildar launakostnað fyrirtækisins. En þegar til skiptanna kemur á að skipta eftir grunnlaunum.

Rendar kemur aldrei til að reikna getu ríkissjóðs til launahækkanna, hún hefur aldrei verið til staðar.

Gunnar Heiðarsson, 6.11.2014 kl. 14:43

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hitt er rétt hjá þér að eðli vinunnar breytist ekkert við þetta. Læknirinn mun fá sömu prósentutölu á heildarlaunin og hann fær á grunnlaunin. Krónunum fjölgar vissulega og mun 35% launahækkun, sem hækkar grunnlaunin hjá honum um ca. 150 þúsund á mánuði, hækka heildarlaunin um 450 þúsund, samkvæmt þeim tölum sem fram koma í fréttinni, eða nærri því sem nemur grunnlaunum.

Lágmarks grunnlaun verkamanns eru 220 þúsund á mánuði og þarf hann að vinna samtals 150 tíma í yfirvinnu á mánuði, til þess eins að koma heildarlaunum sínum í sömu upphæð og læknirinn sækist eftir sem mánaðarlegri launahækkun.

Ekki ætla ég að gerast dómari yfir því hvernig meta skuli menntun til launa, en einhvernveginn þykir mér nokkuð vel í lagt hvernig læknar sjálfir vilja meta hana.

Fái læknar sömu launahækkun og verkafólk, mun grunnlaun þeirra hækka um rúmar 13 þúsund krónur á mánuði, samanborið við um 5 þúsund króna hækkun sem verkamaðurinn fékk. Það er svo undir lækninum komið og dugnaði hans hversu mikla lokahækkun hann getur fengið.

Gunnar Heiðarsson, 6.11.2014 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband