Hver er vandi lífeyrissjóðanna ?

Það er mikið rætt um vanda lífeyrissjóða og nú skal lífeyrisaldur hækkaður vegna þessa vanda. En hver er þessi vandi?

Tvær lykiltölur hvers lífeyrissjóðs skipta mestu máli; innkoma iðgjalda og útgreiðsla lífeyris. Þegar skoðaðir eru ársreikningar tveggja stæðstu lífeyrissjóða landsins, fyrir árið 2013, á almennum markaði, þ.e. Lífeyrissjóður verslunnarmanna og Gildi, kemur nokkuð óvænt í ljós.

Hjá Lífeyrissjóð verslunnarmanna er innkoma iðgjalda á árinu 2013, 18,3 milljarðar en útgreiddur lífeyrir alls 8,6 milljarðar. Þarna er munurinn rétt tæpir 10 milljarðar í plús. Eign þessa sjóðs er 741 milljarðar, eða sem svarar lífeyrisgreiðslum í  86 ár samfellt, komi engin iðgjöld inn.

Hjá Gildi er innkoma iðgjalda 13,6 milljarðar á árinu 2013 en útgriddur lífeyrir alls 10,2 milljarðar. Munurinn 4,4 milljarðar í plús. Eign Gildis er 334,3 milljarðar, eða sem svara lífeyrisgreiðslum í 39 ár, miðað við enga innkomu iðgjalda.

En auðvitað munu atvinna verða áfram í landinu, vonandi sem mest. því munu iðgjöld halda áfram að skila sér til sjóðanna. Verslunarfólk þarf því ekki að örvænta eftir 86 ár, eða verkafólk eftir tæp 40. 

Þegar annar sjóðurinn hefur getu til að greiða lífeyri í 86 ár án innkomu iðgjalda og hinn í tæp 40 ár, er erfitt að sjá þann vanda sem menn tala um. Erfitt að sjá rökin fyrir hækkun lífeyrisaldurs. Þessir tveir sjóðir ná yfir um 30% alls launafólks í landinu, að ríkisstarfsfólki meðtöldu.

Að vísu er ársreikningur Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna ekki eins fallegur. Þar er útgreiðsla lífeyris nokkuð hærri en innkomin iðgjöld. En það er sér vandi, vandi sem skapast einfaldlega af því að þegar samið hefur verið um aukinn lífeyri, hefur gleymst að hækka iðgjöldin. Það er útilokað að auka útgjöld án aukinnar innkomu. Þessi sjóður, sem 18% launafólks í landinu greiðir til, er sérstakt vandamál. En félagsmenn þessa sjóðs þurfa þó ekki að örvænta, þar sem ríkisábyrð er á lífeyrisgreiðslur úr honum. Því gerði í sjálfu sér ekkert til þó engin iðgjöld skiluðu sér til sjóðsins. Formlega þyrfti þá bara að hafa smá nafnabreytingu á eðli hanns og kalla hann gegnumstreymissjóð.

Ég hef aldrei skilið þá áráttu að vilja lengja starfsævi fólks. Tel að flestir sem ná að skila vinnuframlagi til 67 ára aldurs hafi skilað samfélaginu meir en nógu. Miklu fremur hefði maður haldið að aukin velmegun ætti að geta skilað styttri starfsaldri, að fólk gæti sest í helgann stein fyrr og notið elliáranna. Í tengslum við það má vel hugsa sér breytileg starfsaldurslok, t.d. að fólk gæti valið um að hætta störfum frá, segjum sextíu ára til sjötugs. Sumir sjá ekkert líf efir að starfsaldri lýkur og þeir gætu því haldið vinnu lengur, meðan aðrir sjá nýja, betri og rólegri tíma, tíma sem þeir geta stundað sitt tómstundagaman, eða eytt með börnum sínum og barnabörnum. Tíma þar sem tómstundagaman eða rækt við fjölskylduna er ekki lengur tímaþjófur frá vinnu. 

Það væri gaman að fá haldbær rök fyrir því að nauðsynlegt sé að lengja starfsaldur fólk, önnur rök en þau sem lífeyrissjóðir koma fram með og kalla "tryggingafræðlega stöðu", útreikning sem ekki er hægt að finna neinar staðreyndir að baki.  

Innkoma iðgjalda og útgreiðsla lífeyris eru einu tölur lífeyrissjóðanna sem máli skipta. Ef sjóðirnir eru svo illa settir sem forsvarsmenn þeirra segja, má alveg hugsa sér nýjann vettvang þar sem þessi skipti á iðgjöldum og lífeyrisgreiðslum færu fram. Víst er að margur væri tilbúinn að taka að sér þau skipti, þó einungis hluti mismunarins væri í boði.

 

 


mbl.is Lífeyrisaldur hækki í skrefum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nauðsynlegt að tekjur lífeyrissjóðanna séu miklu hærri en gjöldin vegna þess að tekjurnar eiga að fjármagna lífeyrisgreiðslur í framtíðinni sem verða samtals miklu hærri en lífeyrisgreiðslur í dag. 

Ástæðurnar fyrir því að þær verða mun hærri eru að fólki fer fjölgandi, mjög margir njóta í dag ekki fullra lífeyrisréttinda, raunlaun hafa hækkað frá því sem þau voru að jafnaði þegar þeir sem nú fá lífeyri greiddu í lífeyrissjóð auk þess sem greiðslur í lífeyrissjóði hafa hækkað sem hlutfall af launum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.11.2014 kl. 09:50

2 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Nú vil ég ráðleggja þér eitt Gunnar. Kynntu þér þessi mál aðeins betur, áður en þú opinberar enn meiri vanþekkingu þína!

Þú segir:  "Hjá Lífeyrissjóð verslunnarmanna er innkoma iðgjalda á árinu 2013, 18,3 milljarðar en útgreiddur lífeyrir alls 8,6 milljarðar. Þarna er munurinn rétt tæpir 10 milljarðar í plús. Eign þessa sjóðs er 741 milljarðar, eða sem svarar lífeyrisgreiðslum í  86 ár samfellt, komi engin iðgjöld inn."

Hvað í ósköpunum ertu að fara þarna? Hvað ertu að reyna að segja okkur? Hvaðan í ósköpunum færðu þessa tölu 741? Ekki getur það verið úr reikningum sjóðsins því samkvæmt þeim er hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2013 454 milljarðar króna, sem hafði aukist í 471 milljarð á miðju þessu ári.

Ég get ímyndað mér að þú hafir gripið töluna upp úr töflu á bls. 8 í ársskýrslu sjóðsins, þar sem á einum stað er talan 740.987 yfir samanlagðar innkomnar og framtíðar eignir. Þessi tala er notuð í mati á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Þú ert sannarlega á villigötum ef þú heldur að þetta samsvari eign til greiðslu lífeyris.

Svo held ég þú þurfir að átta þig betur á eðli lífeyrissjóðanna. Þú ruglar saman iðgjöldum og lífeyrisgreiðslum, gefur í skyn að innkomin iðgjöld á árinu eigi að samsvara greiddum lífeyri á sama ári.

Þeir sem greiða iðgjöld nú eru að safna fyrir eigin lífeyri síðar, ekki að fjármagna þann lífeyri sem greiddur er út núna. Hann var fjármagnaður áður með iðgjöldum lífeyrisþeganna sjálfra, á meðan þeir voru enn á vinnumarkaði sjálfir. Að sjálfsögðu eru iðgjöldin hærri en lífeyririnn, enda greiðendur fleiri en lífeyrisþegarnir.

Læt þetta nægja í bili af einstökum ábendingum - ítreka aðeins ábendinguna um að þú kynnir þér þessi mál betur. Ítarlegar upplýsingar og aðgengilegar er aðfinna á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, slóðin er líka einföld: www.live.is

Þórhallur Birgir Jósepsson, 4.11.2014 kl. 10:10

3 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Pétur Blöndal, formaður nefndarinnar, segir að hækka þurfi lífeyrisaldur um 3 ár. Á nokkrum árum. Þetta byggist á meðaltali. Sjóðirnir eru misjafnir. Það er lykilatriði.

Þú nefnir, Gunnar, að erfitt sé að sjá þann vanda sem um sé að ræða, en þú gefur þér rangar forsendur fyrir því að erfitt sé að sjá vandann, eins og ég benti á hér að ofan. Til þess að átta sig á hvort sjóðirnir muni þurfa þessar ráðstafanir, þ.e. hækkun lífeyrisaldurs, þarf að skoða eina lykiltölu í uppgjörum þeirra, þ.e. tryggingafræðilega stöðu sem % af skuldbindingum. Ef sú tala er jákvæð er vandinn ekki til staðar, ef hún er neikvæð er vandi, svo málið sé ofureinfaldað. Í lögunum um lífeyrissjóði er nánar sagt til um þetta.

Annað lykilatriði, sem nefnd Péturs leggur til grundvallar, er lýðfræðilegt og er hækkandi meðalaldur þjóðarinnar. Lífeyriskerfið í dag er miðað við meðalaldurinn eins og hann var 1969 og lífeyrisaldur var miðaður við 67 ára, þegar kerfinu var komið á. Nú hefur meðalaldurinn (ævilíkurnar) hækkað umtalsvert, sem þýðir að hver og einn er að meðaltali lengur á lífeyri heldur en miðað var við þegar kerfið var búið til. Þetta þarf að leiðrétta til þess að tryggja að iðgjöldin sem við greiðum á starfsævinni dugi fyrir framfærslu þegar við förum á lífeyri.

Ég bendi á að þegar Pétursnefndin hefur skilað sínum endanlegu niðurstöðum á eftir að fara fram mjög ítarleg umræða um þær. Fjallað verður um niðurstöðurnar á vettvangi launþegahreyfingarinnar (allra stéttarfélaganna býst ég við og samtaka þeirra), atvinnurekenda, stjórnmála (Alþingi og sveitastjórna) og Landssamtaka lífeyrissjóða. Trúlega víðar (Seðlabanka, Fjármálaeftirlit).

Markmiðið með þessu er að reyna að tryggja sem best að kerfið standist þannig að hver og ein kynslóð fái lífeyri í samræmi við sín iðgjöld og ein kynslóð sé ekki að fjármagna lífeyri annarrar kynslóðar. Náist það markmið er til einhvers unnið.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 4.11.2014 kl. 10:29

4 Smámynd: Óskar Guðmundsson

"Pétursnefndin" svokallaða er ekki að leggja þetta fram í fyrsta sinn.

Þess þá heldur að "lausnin" kemur aðallega fram í því að hækka á framlög til sjóðanna gríðarlega eða úr 12% í amk 15,5%.

Vandinn er aðallega hjá LSR og hinum baktryggðu sjóðunum og kemur fram í 37. tölublaði Vísbendingar (dagsettu 29.09.2014) að vandi baktryggðu sjóðanna sé ekki minni en 664 milljarðar.

Hann er í raun svo stór að LSR er orðinn að gegnumstreymissjóði sem fer að óbreyttu í greiðsluþrot innan áratugar og er þá áætlað að sjóðurinn og aðrir baktryggðir sjóðir þurfi ekki minna en 30 milljarða á ári næstu 25-30 ár.

Hækkun lífeyrisaldursins í 70 ár leysir því fátt.

Það sem til þarf eru mun, MUN drastískari aðgerðir.

Óskar Guðmundsson, 4.11.2014 kl. 11:30

5 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Hafi ég skilið rétt talar Pétursnefndin um hækkun lífeyrisaldurs um þrjú ár EÐA hækkun iðgjalda í 15,5% (ef sú tala er rétt). Ekki hvort tveggja. Svo er hægt að skoða sambland af hvoru tveggja, þá minni hækkun lífeyrisaldurs plús minni hækkun iðgjalda.

LSR er sér dæmi, en ekki vandamál að mínu mati. Þetta eru jú útgjöld í framtíðinni sem alla tíð hefur verið vitað af, stærð þeirra er þekkt. Ábyrgð launagreiðanda, þ.e. ríkisins, þýðir að ríkið greiðir sinn hluta iðgjaldanna sem lífeyri þegar kemur að útgreiðslu hans í stað þess að greiða iðgjöldin strax. Svo má ekki gleyma að draga frá þessari tölu skattana (staðgreiðsluna) sem ríkið fær til baka af hinum greidda lífeyri, þannig að upphæðin sem almennt er talað um sem halla á LSR er í rauninni talsvert lægri.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 4.11.2014 kl. 13:04

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þórhallur, allar upplýsingar sem ég nefni eru sóttar í ársskýrslur sjóðanna. Hvort ég hafi farið töfluvillt um eignir skal ég ekki sverja af mér, enda þær tölur til gaman settar fram. Jafnvel þó eign LSR sé "einungis" 471 milljarður, dugir það til lífeyris í um 40 ár, komi enginn iðgjöld. En auðvitað er allt tal um að engin iðgjöld komi til fjarstæða, einungis til gamans sett að nefna slík dæmi, kannski fyrst og fremst til að sýna fram á þá miklu auðsöfnun sem verður innan sjóðanna. Við skulum vona að atvinna haldist í landinu.

Varðandi það að iðgjöld nú séu fyrir framtíðina og því ekki rétt að bera það saman, þá bendi ég þér á að samkvæmt lögum um lífeyrissjóðina ber þeim að ávaxta sitt fé að lágmarki 3%. Verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2,5%, svo þarna verður ekkert tap. Það litla fé sem sjóðirnir lána sjóðsfélögum er síðan verðtryggt. Það tap sem sjóðirnir verða fyrir hefur allt komið til vegna rangrar fjárfestingar, en þeir sem muna aftur til ársins 2009, vita að sjóðirnir töpuðu 500 milljörðum vegna þessa, þegar bakahrunið skall á.

Þeim peningum hafa þeir náð að mestu aftur, ekki frá þeim sem sóuðu þeim, heldur gegnum iðgjaldsgreiðslur launþega! 

Hins vegar væri engin þörf á lögum um lágmarksávöxtun sjóðanna ef um gegnumstreymissjóði væri að ræða, þá færu þau iðgjöld sem innheimt eru einfaldlega til greiðslu lífeyris og kostnaðar við umsýsluna.

Varðandi LSR þá er það vissulega sér mál, eins og ég nefni í mínum pistli. Það sem kannski er mesta óréttlætið í samanburði þess sjóðs við hina frjálsu, er að aldrei þurfa sjóðsfélagar LSR að óttast skerðingu lífeyrisgreiðslna, meðan fámennur hópur, settur saman af samtökum launþega og samtökum atvinnurekenda getur einhliða og að því virðist, rakalaust skert lífeyri sinna umbjóðenda, eins og dæmin sanna. 

Það er auðvelt að vísa í vanþekkingu manna, en sá sem slíkt gerir verður þá að standa undir slíkri yfirlýsingu!! 

Gunnar Heiðarsson, 4.11.2014 kl. 13:30

7 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Þórhallur.

LSR er greiðsluþrota 2025-26 m.v. stöðuna í dag.

Gunnar. Við erum EINMITT að tala um engar inngreiðslur.

Það hafa litlar sem engar inngreiðslur átt sér stað árum saman (voru "sparaðar" eftir "hrun") að öðru leiti en hækkanir samninga (2015 alls 3 ma).

15,5% kemur síðan ofaní og er gert ráð fyrir að það hækki í 16-18% til að fylla í gatið.

Gegnumstreymissjóði er einvörðungu hægt að hafa í stórum löndum með litlum breytingum á mannfjölda enda allar sveiflur til mikils óhagræðis ef t.d. dregur skyndilega úr fólksfjölun fjölgar munnum að metta fyrir hvern inngreiðanda.

Reyndar verður LSR orðinn gegnum streymissjóður að fullu (er í raun aðeins útstreymi nú) fyrir 2018 ef fram heldur sem horfir.

Óskar Guðmundsson, 4.11.2014 kl. 14:08

8 Smámynd: Landfari

Þú virðst misskilja almenna lífeyrissjóðakerfið eiginlega frá A til Ö.

Ef um væri að ræða gegnusstreymiskerfi væru þessar tvær lykiltölur sem þú nefnir réttar. En almenna kerfið er bara ekki gegnustreymiskerfi heldur söfnunar kerfi þar sem hver og einn er að greiða á starfsævinni það sem hann fær síðan í lífeyrissjóðsgreiðslur síðar á ævinni.

Þess vegna hafa innkoman núna, eða tekjur sjóðanna í dag engin áhrif á greiðslugetu til þeirra sjóðsfélaga sem þegar eru farnir að þiggja lífeyri. Greiðslugeta (mánaðarleg greiðsla til sjóðfélaga) núna ræðst af innkomuni þegar þessir sömu aðilar greiddu í sjóðinn, ávöxtuninn og því hve lengi þarf að greiða.

Ekki því sem verið er að greiða í sjóðinn núna.

Það eru engin lög í landinu að raunávöxtun lífeyrissjóðanna skuli vera 3%. Það er bara viðmiðunartala til að geta fundið út hvað þarf að greiða mikið í sjóðinn meðan menn eru við störf til að í honum verði svo og svo mikið við starfslok að  hægt sé að greiða ákveðna upphæð í þau ár sem meðaljóninn á ólifuð eftir starfslok.

Ef viðmiðunarávöxtunin væri 0% hefðu greiðslurnar (iðgjöldin) þurft að vera hærri, greiðslutíminn styttri (lífeyrisaldur hærri) eða lífeyrisgreiðslurnar lægri á mánuði. á tímabili fyrir hrun var ávöxtun lífeyrissjóðanna það góð (meiri en 3%) að lífeyrisgreiðslur í LV var hækkuð.

Gallinn við gegnumstreymiskerfið er að þeim sem þiggja lífeyri er alltaf að fjölga og þeim sem greiða í sjóðina alltaf að fækka. Hér á landi eru enn sem komið er fleiri að greiða í sjóðina en fá úr þeim og því allt í góðu en þróunin er sú sama í allri Evrópu þó hér séum við enn með hagstæð hlutföll.

Nákominn ættingi minn flutti til Svíþjóðar fyrir mörgum árum. Þar er gegnustreymiskerfi og þar átti hann að fá 80% launanna sinna í eftirlaun við starfslok. Nú stefnir í að þetta hlutfall verði komið niður í 40% þegar að þessum tímapunkti kemur.

Landfari, 4.11.2014 kl. 22:29

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Landfari, þú færð sjálfsagt útprentun frá þínum lífeyrissjóð reglulega. Hvað mun réttur þinn verða, sem hlutfall af núverandi launum, þegar þú ferð á lífeyri? Samanburðurinn við Svíþjóð er kannski ekki svo góður?

Um hvort lög séu í landinu um lágmarksávöxtun, þá viðurkenni ég að hafa ekki leitað þau uppi. Þar hef ég eingöngu fyrir mér orð formanns samtakra lífeyrissjóða og orð margra þeirra sem starfa í stjórnun sjóðann, en þeir voru duglegir að halda því fram að útilokað væri fyrir sjóðina að koma að lánaleiðréttingu heimila landsins, vegna þess að sjóðirnir væru bundnir slíku lagaákvæði. Það væri því gleðilegt ef þetta er rétt hjá þér, þá geta sjóðirnir lagt sitt af mörkum til uppbyggingar landsins. Þeir hafa jú hagnast um nærri 500 milljarða frá hruni, gegnum iðgjaldsgreiðslur. Eru nánast búnir að ná til baka því tapi sem þeir urðu fyrir í bankahruninu, vegna rangra fjárfestinga.

Ég er ekkert að miskilja almenna lífeyriskerfið, þeir sem það misskilja eru varðmenn þess og sá miskilningur er af ráðnum hug.

Þetta kerfi er gengið sér til húðar, er orðið að ófreskju í okkar hagkerfi. Verst er þó að því stjórna örfáir menn sem enginn hefur kosið, menn sem ekki þurfa að standa skil gerða sinna fyrir nokkrum. Þetta sást bersýnilega eftir bankahrunið. Rannsóknin á tapi sjóðanna fór fram af sjóðunum sjálfum og enginn þurfti að svara til saka um þær hundruðir milljarða sem töpuðust.

Ekki legg ég til gegnumstremiskerfi frekar en nokkurt annað kerfi. Ég legg hins vegar til að ALLT verði skoðað, að allir möguleikar verði opnaðir, svo finna megi betri lausn en nú er.

Fyrst og fremst þarf að auka aðkomu launþega að stjórnun þess hluta launa þeirra sem fer til lífeyriskerfisins. Þar eru öll 12% skilgreind sem eign launþegans.

Svo má auðvitað hugsa sér að leggja þetta kerfi bara niður og fela hverjum fyrir sig að sjá um að tryggja sig og safna til elliáranna. Þeir sem ekki eru forsjálir munu þá þurfa að láta sér duga þá aura sem stjórnvöld skammta hverju sinni til þessara hluta.

Sumir halda því fram að við það muni atvinnurekendur ekki þurfa að skila þeim 8% sem sagður er þeirra hlutur til sjóðana, en þeir sem slíku halda fram þekkja ekki söguna vel. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að muna síðustu hækkun á hlut atvinnurekenda og hvernig sú hækkun kom til. Það var gegnum kjarasamninga. Því eru þessi 8%, alveg eins og hin 4%, hluti af kjörum launþega og verðue ekki þaðan tekinn nema jafnvirði þess komi í staðinn. Hvernig með þennan hlut launa er farið á ekki að koma atvinnurekendum nokkurn skapaðann hlut við.

Núverandi lífeyriskerfi ógnar hagkerfi landsins, ógnar stjórnun landsins. Þangað hefur safnast slíkur auður að hvergi nokkurstaðar í veröldinni þekkist annað eins. Auður sem örfáir ókjörnir aðilar fara með stjórn á.

Gunnar Heiðarsson, 5.11.2014 kl. 08:37

10 Smámynd: Landfari

Þú fert alltaf að tala um núverandi innkomu á móti núverandi útgjöldum eins og um gegnumstreymissjóð væri að ræða.

Tekjur sjóðanna núna eru til að mæta útgjöldum á komandi árum þegar þeir sem eru að greiða núna fara á lífeyri, ekki til að greiða þeim sem nú þegar eru á lífeyri.

Þeir sem nú eru að þiggja lífeyri frá sjóðunum eru margir í þeirri stö-u að hafa greitt í sjóðina stórar uphæðir sem ekki voru verðtryggðar og eru því að litlu sem engu orðnar. Útborgun þeirra er því eftir því.

Þeir sem nú eru að greiða eiga von á mun hærri greiðslum því inneign þeirra hjá lífeyrissjóðunum hefur ekki brunnið upp á verðbólgubáli  þó vissulega hafi hrunið sett strik í reikninginn.

Það má hinsvegar deila um hversu mikið af tapinu var bólugróði árin á undan. Engu að síður var það verulegt áfall og því eru lífeyrissjóirnir enn verr í stakk búnir til afskrifa lán en ella hefði verið.

En stjórnir lífeyrissjóða hafa enga heimild til að mismuna sjóðsfélögum og rástafa eignum sjóðanna í að afskrifa skuldir þeirra sjóðsfélaga sem eru með lán hjá þeim og láta alla félaga borga niðurskuldir sumra.

Allt sem afskrifað er kemur niður sem lækkun lírfeyrisgreiðslna hjá almennum sjóðsfélögum síðar. Þess vegna var það hámark tilætlunaresminnar og hrokans hjá Jóhönnu að skammast út í Gylfa fyrir að vilja ekki að sjóðirnir afskrifuðu hluta af verðbótunum með tilheyrandi lækkun eftirlauna félagsmanna meðan hún ætlaði ekki að gefa krónu eftir af sínum lífeyrisgreiðslum sem þó eru örugglega hátt í tífaldar miðað vð það sem fólk í almennu sjóðunum er að fá.

En ég get verið þér alveg sammála um að það þarf að endurskoða hvernig valið er í stjórnir sjóðanna, sérstaklega með tilliti til þess hvernig þeir haga sér í stjórnum þeirra fyrirtækja sem sjóirnir eiga stóra hluti í og skammta forstjórum þeirra ofurlaun.

Laun fyrir stjórnarsetu í þessum fyrirtækjum draga oft dám af launum florstjóra og þau laun þyggja þeir persónulega, jafnvel þó fundarseta og undirbúningur fari fram í annari launaðri vinnu, jafnvel hjá sjóðunum sjálfum.

Landfari, 5.11.2014 kl. 20:11

11 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Landfari, þú taar alltaf eins og það fé sem sjóðirnir geima sé án ávöxtunnar. Ég er búinn að nefna hér fyrir ofan að ávöxtun sjóðanna er í flestum tilfellum yfir verðbólgu og alltaf yfirr henni meðan verðbólgumarkmiðum Seðlabankans er náð.

Því hljóta innkoma og útgreiðslur sjóðanna að vera lykiltölur, alveg eins og á hverju heimili. Enda sýna bækur lífeyrissjóðanna að þeir bólgna jafnt og þétt, í réttu hlutfalli við þessar tvær lykiltölur.

Ég væri vissulega sáttur ef bókhaldið á mínu heimili bólgnaði jafn hratt, ef um 40% af mínum tekjum væru alltaf í afgang eftir að gjöld væru greidd, í hverjum mánuði.

Sjóðirnir hafa tryggar tekjur, á hverju sem gengur. Þeir hafa trygga ávöxtun, á hverju sem gengur. Það sýnir sig líka að þegar þeim tekst, með óstjórn, að tapa 500 milljörðum, ná þeir að byggja það upp aftur á 6 - 7 árum, með því að gera akkúrat ekki neitt! Einungis að innheimta iðgjöldin.

Það þarf verulega blindu til að sjá ekki hverskonar ófreskja þessir sjóðir eru í þjóðfélaginu.

Gunnar Heiðarsson, 6.11.2014 kl. 08:03

12 Smámynd: Landfari

Það ert þú sem talar um tekjur sjóðsins sem innkomu iðgjalda en minnsit hvergi á ávöxtunina í sambandi við tekjur í upphafsinnlegginu.

Það var ég sem benti þér á að ávöxtunin er tekjuliður sem hefur áhrif á hvað þarf að greiða hátt hlutfall af launum til að greiða út lífeyrir til meðalæviloka.

Eins og staðan er í dag er alls ekki 40% afgangur í rekstri sjóðanna heldur er raunafkoman neikvæð því skuldbindingarnar sem fylgja öllum iðgjöldum greiddum í dag eru hærri en sem nemur inngreiddum iðgjöldum að viðbættri áætlaðri ávöxtun til útborgunardags.

Það stafar af því að á þeim tíma sem liðinn er frá því að iðgjöldin voru ákvörðuð hefur almennur lífaldur lengst án þess að starfsaldur lengist líka og því fleiri ár sem þarf að greiða út lífeyri.

Það fylgja gríðarlegar skuldbindingar öllum greiðslum í sjóðinn, skuldbinding um að greiða það út aftur síðar.

Ef þú tekur lán eitt árið þá eru það ekki tekjur þó það komi debet megin á bankareikningin þinn. Þú þarft að greiða það aftur til baka og þess vegna getur þú ekki talað um það sem tekjufgang þó notir það ekki allt á árinu og enn standi eitthvað eftir um áramót á bankareikningum  ef lánið stendur enn ógreitt.

Ef ég legg hundraðkall inn á bankareiknin þá eru það ekki tekjur hjá bankanum því hann skuldar mér á móti 100 kall.

Ef ég greiði 100 kall í lífeyrissjóðinn minn þá aukast skuldbindingar sjóðsins á móti. Hundraðkallinn verður ekki tekjuafgangur hjá sjóðnum þótt hann liggi þar því skuldbindingin stendur á móti. En hinsvegar stækkar sjóðurinn um þennan hundraðkall en verður aldrei tekjuafgangur. Ekki einu sinni þó ég lifi það ekki að fá hann greiddann því þá þarf enihver annar auli endilega að lifa lengur en gert var ráð fyrir og hundraðkallinn minn fer í að greiða honum.

Hitt er svo annað að meðan sjóðirnir komast ekki út með sínar fjárfestingar getur stærð þeirra og þörf fyrir að fjárfesta haft verulega skekkjandi áhrif á verðmyndun þess sem þeir fjárfesta í.

Ég man ekki hvað gert er ráð fyrir, samkvæmt mannfjöldaspám að þetta ástand vari lengi enn að iðgjöld sú þetta mikið meiri en útgreiðslur. Kannski 20 til 50ár en þá verður þetta ekki vandamál. Þegar hlutföllin snúast svo við fara sjóðirnir að selja sínar fjárfestingar og þá er eins gott að einhverjir séu til til að kaupa svo gott verð fáist fyrir eignirnar svo ekki þurfi að skera niður lífeyrisgreiðslur þeirra sem nú eru að greiða.

Landfari, 7.11.2014 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband