Illa skrifuð frétt
1.9.2014 | 23:03
"Hver hefði átt von á því fyrir þrjátíu árum eða svo að Lada Sport yrði einn góðan veðurdag framleidd undir merkjum Chevrolet? " spyr fréttamaður mbl.is.
Þetta er vissulega frekar stór spurning, sérstaklega þegar samstarf Chevrolet og VAZ hefur staðið yfir í einn og hálfann áratug. Árið 1998 kom fyrsti Chevrolet Niva á markað. Var þetta liður í markaðsátaki VAZ verksmiðjanna á erlendri grund. Var t.d. þessi bíll settur á markað í Bretlandi, þá undir merki Opel.
En erlendi markaðurinn var ekki móttækilegur fyrir þessum bílum og vildi áfram sinn gamla og góða Sport (Niva). Því var framleiðslu hans haldið áfram, samhliða eftirlíkingunni, en hún seldist ágætlega í Rússlandi og Austur Evrópu.
Þessi nýi bíll er því engin stórfrétt, einungis uppfærsla á gamla Chevinum þeirra þar eystra, enda ætlaður til sölu innan Rússlands. Frekar er ótrúlegt að hætt verði framleiðslu Lada Niva, enda sá bíll nokkuð vinsæll víða um heim og gengur undir hinum ýmsu nöfnum, s.s. Sport á Íslandi, Taiga í mið Evrópu, Bushman í Ástralíu, Job á Ítalíu og svona má lengi telja. Því má telja víst að VAZ haldi áfram að framleiða gamla góða Sportinn og því ekki um að ræða að hann verði leystur af hólmi. Hins vegar mun þessi nýji Chevrolet sennilega leysa gamla Rússneska Chevrolettinn af hólmi.
Fréttamaður fer svo örlítið yfir strikið þegar hann óbeint ber saman Chevrolet Niva við Chevrolet Trax. Þarna er um tvo gjörólíka bíla að ræða, annar byggður á gamla Rússneska Sportinum en hinn er byggður á Chevrolet Aveo og framleiddur í Suður Kóreu og Mexikó. Þó sú tilviljun að vélarstærðin sé nokkuð svipuð í þessum bílum, bæði hvað varðar rúmtak og afl, þá gerir það þessa bíla ekkert skylda. Vélin í Rússanum er Frönsk, en vélarnar í þeim Suður Kóreska var fyrst framleidd af GM í Ameríku og nú hjá verksmiðjum þeirra í Suður Kóreu. Þá er hægt að velja um nokkrar vélastærðir í Traxinum, meðan Rússinn býðst bara með einum Frakka.
Það er hins vegar rétt hjá fréttamanni að litlar breytingar hafa orðið á Lada Niva bílunum, frá því þeir fyrst komu á markað, enda lítil ástæða til að breyta því sem gott er. Þó hafa vélarnar verið uppfærðar og um nokkurt skeið hefur verið hægt að fá þessa bíla með Frönskum mótor, sumstaðar í heiminum.
Það er alltaf sorglegt þegar fréttamenn nenna ekki að setja sig örlítið inn í þau mál sem þeir fjalla um.
Chevrolet framleiðir Lödu Sport | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála. Það er oft sem maður rekur sig á óvandaða umfjöllun um menn og málefni Kv. Silla.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 2.9.2014 kl. 08:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.