Brotaþoli greiðir sektina. "Tær snilld"
12.7.2014 | 20:45
Samkeppnidseftirlitið hefur gert fjársektarsátt við einn af þrem aðilum umfangsmikils verðsamráðs í sölu byggingavara. Verðsamráðs sem sannað er að hefur haldið uppi verði þessara vara, með öllum göllum þess. Byggingakostnaður hefur hækkað verulega vegna þessa sem hefur haldið uppi vístölu þeirri sem mælir lánbyrgði verðtryggðra lána.
Með sektarsáttinni viðurkennir einn aðili þessa samráðs, Húsasmiðjan, þetta verðsamráð og því brot sannað. Sektin, 325 milljónir króna, greiðist af fyrri eigendum Húsamiðjunnar.
En hverjir voru fyrri eigendur Húsasmiðjunnar? Jú, lífeyrissjóðir landsmanna og eini ríkisbankinn, Landsbankinn. Sektin fellur því á landsmenn sjálfa, þá sömu og urðu fyrir barðinu á þessu verðsamráði. "Tær snilld" heyrðist eitt sinn frá munni eins þeirra manna sem stóðu í framlínu þeirra er settu landið okkar á hausinn. Sömu orð má með sanni hafa um þessa gjörð! Að takast að svindla á kúnnunum og láta þá síðan borga sektina vegna þess svindls, hlýtur að teljast "tær snilld".
Ákvörðun um verðsamráð fæðist ekki af sjálfu sér, bara rétt sí svona. Það er ekkert fyrirtæki sem tekur slíkar ákvarðanir. Hvers vegna var ekki leitað þeirra sem gáfu fyrirskipun um verðsamráðið? Halda menn virkilega að stjórn Landsbankans eða stjórnir lífeyrissjóðanna hafi gefið þá fyrirskipun? Nei, það voru einhverjar persónur sem þessa ákvörðun tóku, persónur innan Húsamiðjunnar og ef þær ekki finnast hlýtur forstjóri fyrirtækisins að bera þessa ábyrgð. Eru ekki laun forstjóra nokkrum sinnum hærri en laun hins almwenna starfsmanns, einmitt vegna mikillar ábyrgðar?!
Fjársekt á fyrirtæki virka sjaldnast gegn brotum, sérstaklega þegar sömu aðilar eru eigendur þess og þeir sem við það versla. Þá fellur fjársektin beint á þann sem brot var framið á, í öðrum tilfellum fellur fjársektin óbeint á brotaþola. Fyrir nokkru síðan voru olíufélög landsins fundin sek um verðsamráð. Þá, eins og nú, voru það fyrirtækin sem þurftu að blæða og auðvitað var sá reikningur færður yfir á þá sem verða að versla við þessi fyrirtæki. Verðsamráð þeirra var þó ekkert stoppað og hefur það aldrei verið meira en eftir þennan dóm, enda vita stjórnendur þessara fyrirtækja að þeir sjálfir þurfa aldrei að svara fyrir sínar gerðir.
Nú er það svo að þessi þrjú fyrirtæki í byggingavöruverslun eru til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara, vegna verðsamráðs. Hans verkefni er að sanna sök, finna þá seku í málinu og koma þeim fyrir dóm. Þegar ljóst var að eitt þessara fyrirtækja var tilbúið að samþykkja fjársekt og með því viðurkenna sök, átti samkeppniseftirlitið að fara með þá vitneskju til Sérstaks og létta honum það verka að sanna afbrotið. Þá hefði hann getað einhennt sér að því að finna hverjir hinu seku voru, hverjir það voru sem gáfu fyrirskipun um verðsamráðið og dregið þá fyrir dómstóla.
Hvernig þessi upphæð, 325 milljónir, sem er hlutir eins þessara þriggja aðila, er fundinn skal ósagt látið. Sennilega hefur einhver bleytt á sér puttann og stungið honum upp í loftið og komist að því að þetta væri hin rétta upphæð sektarinnar. Ok, látum vera hvernig þessi upphæð er fundin út, pælum kannski frekar í því hver eigi að greiða hana og hverjir að njóta.
Það er gjörsamlega galið að ætlast til þess að þeir sem voru fórnarlamb verðsamráðsins skuli einnig þurfa að greiða sektina. Þessi upphæð hlýtur að eiga að falla á þá sem verknaðinn frömdu. Annað er fjarstæða og vart til að auka trúverðugleik á íslensku viðskiptasiðferði eða þeim eftirlitsstofnunum sem halda eiga aðhaldi að því.
"Snillingar" útrásarinnar, þessir sem settu hér allt á hausinn, virðast hafa grafið um sig innan eftirlitsstofnana landsins. Kannski við eigum eftir að heyra orðin "tær snilld" oftar á næstu dögum, í sömu merkingu og notuð var þegar icesave reikningarnir voru kynntir á sínum tíma!
Viðurkenna alvarleg brot með sátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.