Hin íslenska bjartsýni
7.7.2014 | 21:01
Við hraðlestur á skýrslu um hraðlest vakna ýmsar spurningar. Svo er að sjá að skýrsluhöfundar hafi látið bjartsýnina nokkuð ráða för og kannski gengið full langt með nokkrar staðreyndir. Það sem hellst sker augu er áætlanir um farþegafjölda og stofn og rekstrarkostnað, en þetta eru jú lykilforsendur. Minna máli skiptir hvort lestin aki á 180 km meðalhraða milli Keflavíkur og Reykjavíkur eða hvort munur á hæðsta miðaverði og því lægsta nemi einhverjum hundruðum prósenta.
Farþegafjöldi er áætlaður 4 milljónir á ári, þar af 2,3 milljónir ferðamanna og 1,7 milljón íslendinga sem ýmist búa í Reykjavík og vinna í Keflavík eða öfugt. Skýrsluhöfundar telja þennan fjölda vera um helming þeirra sem ferðast muni milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Að farþegar á þessari leið verði um 8 milljónir á ári. Reyndar stemma ekki saman þær yfirlitstölur um farþegafjölda sem minnst er á í upphafi skýrslunnar og hér eru nefndar, við suma kafla hennar. En látum það liggja milli hluta.
Stofnkostnaður er áætlaður 102 milljarðar króna. Tekjur eru áætlaðar 10,5 milljarður og rekstrarkostnaður 5,8 milljarðar. Eftir standa 4,7 milljarðar til að greiða niður lán. Mikið vildi ég geta fjármagnað mína íbúð með þessum hætti, að ég þyrfti ekki að greiða nema 4,5% af láninu á ári og gæti samt greitt það niður á tíu árum.
En exelstöflurnar eru fallegar í skýrslunni. Þar má m.a. finna töflu um stofnkostnað og innri vexti eiginfjár, í raun töflu um hvort framkvæmdin sé möguleg eða ekki. Í þessari töflu kemur fram að ef farþegar verði um 20% færri en áætlað er og ef stofnkostnaður verður 17% hærri en áætlun, mun verkefnið ekki ganga upp. Stærri frávik frá áætlunum hafa sést hér á landi og má reyndar segja að þau séu frekar regla en undantekning.
Ráðherra er ánægð og telur verkefnið ekki kosta ríki né sveitarfélög krónu. Þar fer hún ekki rétt með, þar sem áætlanir gera ráð fyrir að verkefnið verði undanskilið öllum gjöldum og sköttum. Það yrði því framlag ríkis og sveitarfélaga til þess, en það er auðvitað pólitísk ákvörðun sem viðkomandi sveitarfélög og Alþingi þurfa að taka. Þá er eftir að sjá hvort nokkur fjárfestir vilji taka þetta verkefni að sér nema lán verði með ríkisábyrgð. Fordæmin eru til staðar.
Sjálfur er ég ekki á móti lest milli Keflavíkur og Reykjavíkur, eða bara hvaða staða sem er á landinu. En forsenda slíkrar framkvæmdar er að hún beri sig sjálf. Vel þarf því að fara ofaní allar stðreyndir sem fram koma í þessari skýrslu og margtékka að þær standist. Þegar svo lítið frávik þarf til að verkefnið sé ekki arðbært og sumar staðreyndir virðast byggðar á nokkurri bjartsýni, verður að vera á tæru að allt standist. Vel getur verið að skýrslan standist skoðun og vel getur verið að áætlanir standist, þó það yrði þá sennilega í fyrsta skipti í svona stórframkvæmd hér á landi.
Á þetta reynir þegar fjárfestum verður kynnt verkefnið. Fari þeir fram á ríkisábyrgð lána vegna framkvæmdarinnar er ljóst að þeir treysta ekki þeim staðreyndum sem fram koma í skýrslunni. Ef, hins vegar, fjárfestar eru tilbúnir til að leggja sitt fé í framkvæmdina og standa sjálfir að baki þeirra lána sem þarf að taka, má gera ráð fyrir að það sem ég tel bjartsýni, sé kannski staðreynd. Engir eru betri til að meta svona en þeir sem tefla fram eigin fé og æru til verkefnisins, án aðkomu ríkissjóðs.
Kom stjórnvöldum á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er frumskilyrði ef af þessu verkefni verður að fjárfestar séu að minnsta kosti að 50% hluta erlendir, og komi með erlent fjármagn í framkvæmdina, því við höfum ekki efni á því að taka 40 milljarða af gjaldeyrisforða Seðlabankans í þetta verkefni.
Og þeir sem kæmu með svona mikið fjármagn inn í landið myndu eðlilega heimta gengi sbr. fjárfestingarleið Seðlabankans, sem er jú töluvert lægra en opinbert gengi og þar með hækkar kostnaður verkefnisins í íslenskum krónum sem því nemur. Nýverið lauk Seðlabankinn útboði þar sem keyptar voru Evrur á 186 kr. á móti opinbera genginu 154 kr.
Þessi skýrsla er ekki mjög trúverðug að mínu mati og gefur sér vafasamar forsendur.
Erlingur Alfreð Jónsson, 8.7.2014 kl. 00:30
Svo má ekki gleyma því að fólk þarf að koma sér til og frá BSÍ í miðbæ Reykjavíkur, annað hvort með einkabíl (þörf á stórum bílastæðum ) eða með leiguíl (dýrt). Fyrir flesta væri lang einfaldast og fljótlegast að aka til Keflavíkurlugvallar og geyma bílinn þar (eða taka rútuna sem tekur farþega á nokkrum stöðum), og sleppa þannig við umerðaröngþveitið sem myndi óneitanlega verða af þessum sökum í miðbæ Reykjavíkur.
Verður ekki auk þess búið að teppa alla umferð nærri BSÍ með risa sjúkrahúsi?
Ágúst H Bjarnason, 8.7.2014 kl. 06:31
Nákvæmlega málið Ágúst. Fyrir 4 manna fjölskyldu/hóp sem þyrfti að kaupa 2x4 stakar ferðir fram og tilbaka mundi fargjald í lestina kosta 30.000 kr., og þá á eftir að greiða fyrir leigubíl að lestarstöð, líklega um 6-10.000 kr. eftir því í hvaða hverfi er búið. Akstur til Keflavíkurflugvallar má skjóta á að kosti frá ca. 2.500-5.000 kr. fram og til baka miðað við 10 ltr eða 20 ltr á hundraðið, og bílastæðagjald í 14 daga er 9.800 kr; í 21 dag 12.600kr. Alls gæti þetta orðið 17-18 þús. kr. ef keyrt væri á mjög eyðslufrekum bíl fyrir 3 vikna reisu, í stað 40-50 þús. með lest. Og þó svo farið yrði með strætó á lestarstöð væri samt ódýrara að aka beint á völlinn. Þetta er algjörlega galin framkvæmd!
Erlingur Alfreð Jónsson, 8.7.2014 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.