Fyrrverandi
15.6.2014 | 05:09
Þegar fólk kemur til ára sinna fær það gjarnan starfsheitið "fyrrverandi" og síðan aftanvið það því starfsheiti sem talin er mesta upphefð af. Stundum stýra menn þessu sjálfir, en stundum sjá fjölmiðlar um þá stjórn.
Einn þessara fyrrverandi manna notar gjarnan titilinn fyrrverandi formaður Framsóknarflokks og hengir gjarnan við þann titil fyrrverandi ráðherra, ritar þessi starfsheiti gjarnan undir sín skrif í prentmiðla og á veraldarvefinn. Þessi maður var þó aldrei kosinn á Alþingi og formannstöðunni gengdi hann einungis í 9 mánuði. Í ljósi þess að þá var Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn tók hann sér ráðherrastól utanþings. Sneypuför þessa manns í þessum tveim embættum er flestum kunn, en henni lauk eftir að hann hafði leitt flokk sinn gegnum niðurlægingu í kosningum til Alþingis, þar sem honum sjálfum var hafnað með öllu. Annan fyrrverandi titil ber þessi maður, titli sem hann getur verið stoltur af. En hann gengdi stöðu rektors á Bifröst í heilann áratug og var farsæll í því starfi. Einnig var hann bankastjóri Seðlabankans í 3 ár, en þar fór minna fyrir honum og margur sem man lítt eftir því.
Annar maður er einnig gjarnan titlaður fyrrverandi formaður Framsóknarflokks. Hann gengdi því starfi í 14 mánuði, eða tæplega helmingi lengri tíma en hinn fyrrnefndi. Sennilega er þó sá titill sem hann sjálfur er stoltastur af, fyrrverandi mjólkureftirlitsmaður. Lengst af sinni starfsævi starfaði hann þó sem þingmaður, en hann sat á Alþingi í 16 ár og af þeim sem ráðherra helming þann tíma. Því lægi kannski næst að titila hann sem fyrrverandi alþingismann.
Fréttamiðlar leita gjarnan til "fyrrverandi" manna þegar þeir telja sig þurfa að leggja áherslu á sitt mál. Þegar málefni Framsóknarflokks eru í fréttum er gjarnan leitað álits fyrrverandi formanns, ekki þess sem sat á þingi í 18 ár, heldur hins sem aldrei var kosinn á þing. Merkilegt!
Kannski sá sem aldrei var kosinn á þing sé talinn hennta betur málflutningi fjölmiðlanna. Það leynir sér ekki sú andúð sem hann virðist vera kominn með á flokknum sem hann kennir sig við. Hann hefur opinberlega andmælt þeirri stefnu sem flokkurinn hefur valið í aðildarmálinu, hann hefur opinberlega mótmælt þeirri stefnu flokksins að huga að leiðréttingu lána heimila landsins og hefur hann ekki slegið af í að gagnrýni sinni á flokkinn í þessum málum. Þó var einhugur innan landsþings flokksins um bæði þessi mál og samþykktir um þau samþykktar með miklum meirihluta. Þegar andstæðingar flokksins láta sem mest í sínum árásum á hann, með fulltingi flestra stæðstu fjölmiðlanna, hefur ekki staðið á þessum manni að taka undir. Það er kannski þess vegna sem þessir sömu fjölmiðlar leita til hans um álit, vitandi að það álit mun vera þeim hliðhollt. Þessir fjölmiðlar vita sem er að þessi fyrrverandi formaður Framsóknar tekur ekki upp hanskann fyrir flokks sinn.
Það er undarlegt að leita álits um pólitísk málefni ákveðins stjórnmálaflokks hjá manni sem aldrei var kosinn á þing fyrir flokkinn og hefur þau einu opinberu afskipti af flokknum að hafa verið formaður í 9 mánuði og skilaði því með skömm. Væri ekki nær að leita til hins fyrrverandi formannsins, sem sat á þingi fyrir flokkinn í 16 ár og var ráðherra í 8 ár. Ef fjölmiðlarnir væru að leita tengsla Framsóknar við gamla Samvinnuskólann á Bifröst, mætti sjálfsagt leita til þess fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins sem í áratug var rektor á Bifröst, en þegar um pólitísk málefni hans eru ræða væri nær að leita til þess sem hefur þekkingu á því sviði!
Svo má alltaf losa sig við þetta viðhengi "fyrrverandi" með því að taka upp starfsheiti sem aldrei verður úrelt. Þó ég sé enn á vinnumarkaði hef ég séð fyrir þessu og setti starfsheitið "afi" í símaskránna. Af því starfi er ég stoltastur og ég get verið viss um að ég verð aldrei fyrrverandi afi!
Athugasemdir
Góður sem fyrr.
Helga Kristjánsdóttir, 15.6.2014 kl. 15:31
Titlatog er gott sem það nær. Mér finnst sjálfsagt að hver og einn fái að halda sínu. Þeir sem vinna í stjórnmálum eða opinberum störfum fá oft mikið vanþakklæti í sinn hlut. Eru oft í skotlínu almennings og geta ekki alltaf varið sig. Fyrrverandi er heldur vandræðalegt orð. Sumir eru ekki en aðrir halda sínu. Ekki er t.d. algengt að segja fyrrverandi skipstjóri eða bóndi. Enginn er ég veit titlar sig fyrrverandi fanga. Heldur ekki John McCain stríðsfangi.
Orðuveitingar eru oft afhentar að beiðni viðkomandi eða annarra aðstandenda. Það er og í lagi. Flestir vita að svo kann að vera. Við þurfum ekki að vera jafnari en aðrir.
Sigurður Antonsson, 15.6.2014 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.