Mótmæli í Brussel og á Austurvelli
6.4.2014 | 07:59
Undanfarna daga hafa verið mikil mótmæli í borgum ESB, einna mest í Madrid og Brussel. Mótmælin í Brussel náðu hámarki í gær, fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna. Þar var mótmælt fríverslunarsamningum milli ESB og Bandaríkjanna. Íbúar ESB landa óttast slíkann samning, þar sem ýmis verndartollar munu falla niður. Þeir óttast um sinn hag, óttast að vinna muni fara úr landi og óttast að kjör þeirra munu skerðast enn frekar. Inn í þessi mótmæli fléttast síðan óánægja fólks um þann niðurskurð sem framkvæmdastjórn ESB hefur fyrirskipað löndum ESB og auðvitað einnig óánægja með það mikla atvinnuleysi sem hrjáir flest lönd sambandsins.
Hér á Íslandi hefur nokkur hópur manns mætt á Austurvöll undanfarnar helgar, til að mótmæla. Þau mótmæli eru þó á nokkuð annan veg en mótmælin ytra. Hér er mótmælt að ekki skuli vera haldið áfram með aðildarviðræður að ESB og gjarnan notuð þau rök verndartollar hér á landi séu of miklir. Enginn fer í pontu í þessum mótmælum og talar um atvinnuleysið innan ESB, enginn talar um þann niðurskurð sem framkvæmdastjórn skipar illa settum ríkjum að viðhafa. Og auðvitað áttar enginn, sem á Austurvöll mætir, sig á því að verndartollar hafa tilgang og með afnámi þeirra muni kjör versna og vinna flytjast úr landi.
Innan ríkja ESB fara verkalýðsforkólfar fyrir því fólki sem mótmælir, enda sjá þeir kannski best hver áhrif niðurskurðar og atvinnuleysis hefur á almenning. Þessir menn átta sig á að verndartollar eru nauðsynlegir til að halda uppi atvinnu, jafnvel þó vöruverð sé eitthvað hærra. Þeir átta sig á að ESB er fyrst og fremst samband stórfyrirtækja og að öll lög og allar reglugerðir miða að þeirra þörf, ekki þörf þeirra sem minna mega sín.
Hér á landi hafa nokkrir forkólfar atvinnulífsins tekið sér stöðu gegn almenning. Þeir verja sínar gerðir með því að vöruverð muni lækka, enda engir verndatollar milli ESB og Íslands, verði að aðild. Þeir eru þó svo skyni skroppnir að þeir átta sig ekki á að með því muni atvinna minnka hér á landi og jafnvel heilu starfstéttirnar leggjast niður. Þeir átta sig ekki á að stórfellt atvinnuleysi mun fylgja aðild að ESB. Það er mikill munur á skilningi forkólfa launafólks innan ríkja ESB og kollega þeirra hér heima.
Það þarf svo sem ekki að rökstyðja þá fullyrðingu að aðild að ESB muni leiða til aukins atvinnuleysis. Það nægir að nefna að strax mun verða hoggið skarð í íslenskann landbúnað, jafnvel svo að honum verði vart líft lengur. Fljótlega mun síðan útgerðin færast á hendur erlendra aðila og í framhaldi þess mun landhelgin okkar, sem barist var fyrir, opnast fyrir öðrum þjóðum ESB. Hvort einhverntímann muni verða til tækni til að leggja rafstreng til meginlandsins er erfitt að segja til um, en ljóst er að ef slík tækni verður einhverntímann til, munum við standa verulega höllum fæti í samningum um slíkann streng, verði að aðild. Þá er víst að flest stærri fyrirtæki munu flýja land, ekki til Evrópu, heldur vestur um haf, þar sem orkuverð er enn lægra en hér á landi. Þá er einnig víst að þeir sem kenna sig við náttúruvernerd munu verða máttlausir í sinni baráttu, enda dýrt að fljúga til Brussel um hverja helgi til að mótmæla. Þá mun hver lækjarspræna verða virkjuð hér á landi, svo hægt sé að metta endalaust hungur meginlandsins eftir orku.
En kjúklingar munu lækka í verði. Sú lækkun mun þó ekki standa lengi, því um leið og slík framleiðsla hefur lagst af hér á landi, mun verð hækka verulega, jafnvel enn hærra en það er í dag. Og verslunin, sem einna harðast berst fyrir aðild, mun mata krókinn!!
Athugasemdir
Mótmæli í borgum ESB geta ekki hafa farið fram hjá þeim sem mæta á Austurvöll. Einmitt þess vegna er þessi samkoma þeirra svo ógeðfelld.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 6.4.2014 kl. 09:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.