Styrmir Gunnarsson og grundvallarspurningin varðandi verðtryggingu
24.1.2014 | 12:00
Stymir Gunnarsson ritar pistil á evropuvaktin.is undir fyrirsögninni "Grundvallarspurningin varðandi verðtryggingu".
Þessa grundvallarspurningu telur Styrmir vera um hvort fólk eigi ekki að hafa frjálst val í ávöxtun og lántökum, frjálst val um verðtryggða leið eða óverðtryggða.
Nú er það svo að alla tíð hefur samkvæmt lögum verið frjálst val um þetta, ekkert sem hefur bannað fólki að taka óverðtrygð lán. Hins vegar eru viðskipti bankanna við sína viðskiptavini ekki heilbrigð. Þau eru alfarið einhliða, bankinn ákveður. Og að sjálfsögðu leggur bankinn þau lán fyrir sína viðskiptavini sem hann sjálfur hagnast betur á. Nú síðustu misseri hafa bankar þó farið að gefa fólki smá svigrúm og gert því kleyft að velja um lánsformið, en það er einungis vegna hræðslu við að verðtrygging verði bönnuð.
Því er hugmynd Styrmis ekki nein hugmynd, hún er einungis hugmynd um óbreytt ástand.
Það er ljóst að Styrmir telur verðtrygginguna vera vopn gegn verðbólgu. Það má lesa úr orðum hanns í þessari grein. Hann segir, sem rétt er, að ástæða sé fyrir því að verðtrygging var tekin upp. Og hann vill meina að ástæða þess að ekki fór sem skyldi, við þá upptöku, sé ekki verðtryggingunni sjálfri að kenna heldur hafi framkvæmd og frekari útfærsla farið úr böndum. Við erum búin að lifa við verðtryggingu í nærri 35 ár og hafi verið vankanntar á útfærslu eða framkvæmd þessara laga, hvers vegna hefur ekki tekist á öllum þeim tíma að laga það sem Styrmir telur hafa farið aflaga? Er ekki nær að telja að verðtrygging sé með öllu gagnslaus í baráttu við verðbólgu?
Styrmir ætti að gefa sér örlítinn tíma til að skoða söguna, hugsa aðeins aftur til þess tíma er verðtrygging var sett á með lögum. Hann ætti að muna að á fyrstu þrem árum verðtryggingar fór verðbólgan úr rumum 20% upp yfir 100% og stefndi þráðbeint uppávið. Þetta eru staðreyndir sem skráðar eru í hagsögu okkar þjóðar!!
Það má taka undr með Styrmi, þegar hann veltir fyrir sér hvort grundvallarspurningin varðandi verðtrygginguna sé hvort fólk eigi að hafa val. Þetta er í raun spurningin um hvort við viljum hafa óbreytt ástand. Sjálfur svara ég þessari spurningu neitandi. Ástæðan er einföld, ég treysti ekki bönkum landsins til að gefa mér slíkt sjálfræði, ekki frekar en síðustu 35 ár.
Því á að afnema verðtryggingu af neytendalánum, sérstaklega lánum til húsnæðiskaupa. Ef það er rétt sem formaður nefndarinnar sagði, að það gæti leitt til þess að húsnæðisverð falli um 25%, á kannski frekar að spyrja þeirrar spurningar hvort húsnæðisverð hér á landi sé ekki einfaldlega ofmetið um þessi 25%, hvort ekki getir verið að verðtrygging lána haldi verði húsnæðis hærra en það þyrfti i raun að vera.
Það eru margar spurningar sem koma upp í huga manns eftir kynningu nefndarinnar. Sú stæðsta í mínum huga er hvernig ríkisstjórnin ætlar að fara með þessar niðurstöður. Ætlar hún að fara eftir þeim og svíkja þannig sína kjósendur, eða ætlar ríkisstjórnin að sýna að hún hafi hreðjar til að standa við gefin loforð?
Það er klárt mál að líf þessarar ríkisstjórnar veltur ekki á stjórnarndstöðuflokkunum, sem höfðu fjögur ár til að framkvæma það sem þeir krefjsat að gert verði nú. Líf ríkissjórnarinnar veltur heldur ekki á góðvid fjármagnsaflanna. Líf ríksstjórnarinnar er að öllu leyti í höndum þeirra kjósenda sem gáfu sitt atkvæði til stjórnarflokkanna og það atkvæði var gefið vegna loforða. Verði þau loforð svikin hefur þessi ríkisstjórn sett sig á sama bekk og sú sem síðast sat, bekk þeirra sem ekki hafa kjark til athafna!!
Hún mun þá hljóta sömu örlög í næstu kosningum og sú síðasta fékk í kosningunum vorið 2013, algera háðung!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.