Skilaboðin skýr öllum nema Gylfa og Þorsteini !!

Þeir félagar Gylfi Arnbjörnsson og Þorsteinn Víglundsson sjá ekki skýr merki í atkvæðagreiðslunni um nýgerðan kjarasamning. Það er auðvitað þeirra vandamál, en kannski skýrasta dæmið um getuleysi þeirra til þess verks að koma saman kjarasamningi.

Skilaboðin eru skýr hverjum þeim sem hefur smá vott af skynsemi. Samningarnir voru felldir af þeim félugum sem hafa lægst launaða fólkið innan sinna banda. Það er skýrt merki þess að það fólk hvorki sættir sig við svo litla kauphækkun, né treystir því að sá "stöðugleiki" sem samningurinn átti að gefa, muni halda.

Sú skýring sem félagarnir Gylfi og Þorsteinn gefa að þarna sé hellst að kenna stjórnvöldum er þeim báðum til smækkunnar. Stjórnvöld áttu ekki aðild að þessum samning og smánarlegt af atvinnurekendum að sækja sífellt í tómann ríkissjóð til niðurgreiðslu launakostnaðar. Menn betla ekki fé af betlara!

Vissulega hefði verið betra fyrir lægst launaða fólkið ef stjórnvöld hefðu valið að nýta þann slaka sem þau töldu vera mögulegann í skattheimtu, til leiðréttingar á persónuafslætti. Það var ekki gert, því miður. Það kemur gubba upp í háls manni þegar svo núverandi stjórnarandstæðingar koma í ræðustól Alþingis og býsnast yfir þessu máli. Það var jú síðasta ríkisstjórn sem ákvað einhliða að taka persónuafsláttinn úr sambandi og skerða þannig kjör hinna lægst launuðu. Nú skammast þetta fólk út í núverandi stjórnvöld, fyrir að moka ekki út skítnum eftir fyrrverandi ríkisstjórn. Lágt getur fólk lagst!!

Því miður virðist umræðan vera að þróast út í hverjum það er að kenna að samningar voru felldir, í stað þess að skoða ástæðu þess. Það er ljóst að þeir sem sátu við samningsborðið fyrir hönd launþega voru langt frá því að vita hvað þeir gerðu, eða hvað launþegar vildu. En það skiptir ekki máli lengur, launþegar hafa komið sinni skoðun að og ef þau skilaboð eru eitthvað óskýr þeim sem þar sátu, eiga þeir einfaldlega að segja sig frá því starfi.

Þó sumir óttist það versta, eftir þessa niðurstöðu og sjá ekki hvernig úr henni verði leist, eins og skilja má af orðum Gylfa, er engin ástæða til ótta. Þvert á móti má líta þetta sem tækifæri.

Launþegar óttast ekki samning sem felur í sér stöðugleika, þeir óttast að verða einir um framlag til þess stöðugleika. Því er nú lag að smala saman öllum þeim sem eiga eftir að semja, þeim sem stjórna verðlagningu í verslunum, stjórnvöldum og hverjum þeim sem áhrif hefur á verðlag og verðbólgu. Að gerður verði sameiginlegur samningur allra þessara aðila, þar sem hver og einn skuldbindur sig til að taka þátt í þessu verkefni. Samhliða þessu þarf auðvitað að leiðrétta hjá þeim kjör sem hafa orðið fyrir skekkju hin síðustu ár og lyfta kjörum lægstlaunuðu stéttanna til þess að þær geti lifað af sínum launum. Þetta gæti auðvitað þítt að þeir sem mest hafa fengju kannski litla sem enga kauphækkun, en það verður þá bara að vera svo. Stjórnvöld þurfa samhliða þessu að breyta lögum og leggja niður kjararáð og þeir sem fá launahækkanir samkvæmt úrskurði þess verði settir undir sama hatt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Banna þarf kaupaukagreiðslur og koma böndum á sjálftökufólkið. Hugsanlega þarf lög til þess.

Þá þarf að endurskoða peningastefnu Seðlabankans, þannig að honum verði gert útilokað að hafa stýrirvexti langt fyrir ofan verðbólgu. Vaxtastefnu bankanna verður að setja takmörk og afnema verðtryggingu á neyslulán.

Það er hægt að ná samkomulagi, það er hægt að gera kjarasamninga sem stuðla að stöðugleika. Til þess þarf einfaldlega samstillt átak allra í þjóðfélaginu. Stöðugleiki verður ekki byggður upp af einum hóp þess, sérstaklega þegar það er sá hópur sem minnst hefur milli handanna og minnst áhrif á verðlagsþróun.

Ef Gylfi sér ekki hver skilaboð launþega voru, á hann strax að stíga til hliðar. Það verkefni sem framundan er, er stærra en svo að maður sem ekki sér skýr skilaboð geti leyst það af hendi!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Góður pistill Gunnar.  Sammála öllu sem þú segir en því miður þá fer ekki saman vit og vald hjá ráðandi öflum og því engar líkur á að eftir þínum tillögum verði farið.  Sérhagsmunirnir ráða nú sem aldrei fyrr. Skítt með smælingjana

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.1.2014 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband