Frekar rýr eftirtekja
11.1.2014 | 09:30
Á árunum fyrir hrun var stundum talað um menn á ofurlaunum og þótti sitt hverjum um það orðalag. Það sem sumum þótti ofurlaun þótti öðrum að um eðlilegar laungreiðslur væri að ræða. Þessi hópur manna var áberandi og gengu gjarnan undir samnefninu "útrásarvíkingar". Það sem sameinaði þessa menn var að þeir voru allir í efstu stöðum í bankakerfinu og stæðstu fyrirtækjum landsins, stundum bæði.
Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðun á því hvort um ofurlaunamenn hafi verið að ræða, en mánaðarlaun þessara manna náði oft 60 milljónum, eða hátt í milljarð í árslaun. Ofaná þessi laun komu síðan ýmsir bónusar og kaupréttarákvæði í hlutabréfum viðkomandi fyrirtækis.
Bónusar voru m.a. fundnir út eftir svokölluðu ad-hoc kerfi, en það er kerfi sem byggir fyrst og fremst á huglægu mati á því hversu háir þeir bónusar skuli vera. Árangur í starfi eða rekstur fyrirtækisins kemur ekkert inn í þann útreikning.
Kaupréttarákvæðin nýttu þessir menn að sjálfsögðu og sumir, eins og Hreiðar Már, stofnuðu sérstakt ehf utanum þann þátt sinna launa. Við hrun töpuðust þær eignir auðvitað en áður hafði flestum þessara manna tekist að ná vænum "arðgreiðslum" út úr fyrirtækinu, sem hluthafar.
Stundum var langt seilst til að fá "rétta" mannin í djobbið. Einn bankinn taldi svo mikilvægt að fá einn einstakling sem stjórnanda hjá sér að honum voru greiddar 300 milljónir til þess eins að setjast í stólinn og tæpu ári síðar fékk hann aðrar 300 milljónir. Það tók þann snilling ekki nema eitt og hálft ár að keyra þann banka í kaf og spurning fyrir hvað eigendur bankans voru að borga, þegar hann var ráðinn. Varla var það yfirburða hæfni.
Þegar gagnrýni kom fram á þessi ofurlaun fárra einstaklinga, var gjarnan talað um einstaka hæfni við stjórnun og mikla ábyrgð. Hæfnin sannaði sig haustið 2008, þegar spilaborgin hrundi og erfitt reynist að fá þessa menn til að bera ábyrgð. Fjárhagslegri ábyrgð var að fullu skellt á almenning. Lögfræðilegri ábyrgð gangur illa að koma á þessa menn og í þau sklipti sem einhver hefur fengið á sig dóm, mætti halda að þar færu einhverjir búðahnuplarar, en ekki höfundar þess að setja hagkerfi heillar þjóðar á hliðina.
Hreiðar Már var vissulega einn þessara manna, þá með mánaðalaun upp á yfir 60 milljónir, eða sem svarar 320 föld laun verkamanns í dag. Til viðbótar fékk hann væna bónusa. Honum hafi tekist að nurla til sín eign í bankanum, með hlutabréfakaupum og stóð sú eign í tæpum átta milljörðum við hrun. Hversu há hún var áður skal ósagt látið, en ekki er ósennilegt að honum hafi tekist að losa sig við stórann hluta sinnar eignar í bankanum, þegar hann sá hvert stefndi.
Þennan eignarhlut sinn geymdi Hreiðar Már í Hreiðar Már ehf., sem hann stofnaði í þeim tilgangi. Einhverra hluta vegna var þetta ehf. hans mjög skuldugt, þó ekki verði séð að það hafi verið í neinum rekstri. Sá einungis um geymslu þeirra hlutabréfa í bankanum sem Hreiðar Már nurlaði að sér. Hver það var sem var skuldunautur ehf. Hreiðars Más mætti gjarnan koma fram. Gæti verið að aðalskuldari Hreiðar Már ehf. hafi verið persónan Hreiðar Már?
Í ljósi þess hver laun Hreiðar Már hafði og í ljósi þess að Hreiðar Már ehf. var ekki í neinum rekstri, verður ekki annað séð en að eftirtekja hans sé frekar rýr. Er hugsanlegt að Kaupþingbanki hafi þarna verið að kaupa köttinn í sekknum? Að bankinn hafi verið að greiða manni sem ekki hefur hundsvit á peningum ofurlaun, bónusa og kaupréttarákvæði. Í það minnsta tókst honum nokkuð vel upp við að koma bankanum í þrot og ekki er að sjá að betur hafi gengið hjá honum að halda í eigið fé.
![]() |
Risagjaldþrot félags Hreiðars Más |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þakka ágæta skýrslu og umfjöllunn. Það er nauðsynlegt að einhver standi vaktina og fjalli um þessi mál frá sjónarhóli almennings. Við bloggarar erum mis duglegir og upplagðir en það alger nauðsyn að málin falli ekki á tómlæti almennings.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 11.1.2014 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.