Kjaraskerðing

Í síðustu tveim færslum mínum nefni ég að hækkun persónuafsláttar væri besta kjarabótin. Því miður var ríkisstjórnin ekki tilbúin að leiðrétta þá misgjörð síðustu ríkisstjórnar, kannski vegna þess að krafa ASÍ var ekki að nýta þann slaka sem lækkun skattprósentu á millitekjuhópinn myndaði, í því sambandi, heldur var krafan að hækkun persónuafsláttar ætti að bætast við.

Sá viðsnúningur hjá Gylfa á lokametrunum að fylgja loks þessu baráttumáli verkalýshreyfingarinnar eftir var því unnin með hangandi hendi. Það er svo undarlegt að sjá Gylfa koma fram fyrir alþjóð og kenna ríkisstjórninni um sinn eigin aumingjaskap.

Enn undarlegra er var þó að fylgjast með Steingrími J og Árna Pál á Alþingi. Þar létu þessir menn mikinn og töldu ríkisstjórnina svíkja þá sem minnstu launin hafa. Þar áttu þeir auðvitað við að ekki skyldi vera hækkaður persónuafslátturinn. En svikin standa þeim nær!

Eins og allir ættu að muna þá var það sú ríkisstjórn sem þessir tveir menn sátu í sem afnam tengingu persónuafsláttar við launavísitölun, sumarið 2009. Það gerðu þeir með velvild Gylfa Arnbjörnssonar. Hefðu þau svik ekki komið til þyrfti verkalýðshreyfingin ekki að berjast enn og aftur fyrir hækkun þessa afsláttar. Þá væru kjör þeirra sem minnst mega sín betri.

Það er því tómt mál fyrir þessa menn að tala um svik núverandi ríkisstjórnar. Þann heiður eiga þessir menn sjálfir!!

Aftur að kjarasamningnum. Þarna er verið að semja um kjaraskerðingu. Síðast þegar slíkt var gert meðvitað, var það í tengslum við þjóðarsáttina 1990, en henni fylgdi meira en bara kjararýrnun. Henni fylgdi samkomulag allra aðila í hagkerfinu um að halda aftur af hækkunum eins og mest mátti og að allir aðilar tækju á sig skerðingu. Þá var tekin meðvituð ákvörðun um að allir tækju á sig einhverja skerðingu fyrsta árið, á þriðja ári þess samnings átti svo sú skerðing að skila sér. Það tókst. Ekkert slíkt er upp á teningnum núna, einungis kjaraskerðing launþega!

Þegar menn semja um kjaraskerðingu er það gert meðvitað eða af heimsku. Meðvitað gera menn slíkt ef eitthvað fleira hangir á spítunni. Því er ekki annað hægt að sjá en að núverandi kjarasamningur hafi verið gerður af tærri heimsku. Þegar launabætur eru lægri en undanfarandi verðbólga og lægri en verðbólguspár gera ráð fyrir, er ekki hægt að skýra það á annan veg en að þarna skorti verulega á vit manna!! 

Því hefur verið haldið mjög á lofti að launhækkanir leiði til verðbólgu og muna menn sjálfsagt eftir miður skynsamlegri auglýsingu SA þar að lútandi. Sem betur fer sáu þó SA menn að sér og endurbættu þá auglýsingu verulega og vísuðu henni að þeim sem skyldi.

Það er einföldun á sannleikanum að setja samasem merki milli launahækkanna og verðbólgu. Vissulega er til fyrirtæki sem ekki geta annað en sett launahækkanir út í verðlagið. Hvort það er vegna lélegrar stjórnuinar þeirra fyrirtækja geta menn svo vellt fyrir sér.

En það eru líka fjöldi fyrirtækja sem auðveldlega geta hækkað laun án þess að verða þess vör. Þar má t.d. telja þau fyrirtæki sem að jafnaði greiða lægstu launin, fiskvinnslufyrirtækin. Þar er gott borð fyrir báru, eins og ársreikningar og arðgreiðslur þessara fyrirtækja sanna. Hækkun launa fisvinnslufólks myndi því ekki hafa nein áhrif á verðbólguna. Hins vegar gætu hún aukið neysluna og stuðlað að því að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Þá myndi hækkun launa í fiskvinnslu skila ríkissjóð auknum tekjum, bæði í gegnum tekjuskatt sem og aðra skatta og tollaliði ríkisbókhaldsins.

Öll fyritæki í útflutningi geta hækkað laun án þess að það komi verðbólgu við. Það mun svo aftur auka eftirspurn fyrir vörum og þjónustu þeirra fyrirtækja sem eru á innlendum markað og þau í kjölfarið hækkað laun sinna starfsmanna. Reyndar er fjöldi fyrirtækja, sem eru á innlendum markaði, vel rekin og hafa getu til að greiða mannsæmandi laun. En þau njóta þess í kjarasamningum að vera í skjóli skussanna, sem ekki kunna að reka fyrirtæki.

Það er búið að innprennta í forustu ASÍ og reyndar fjölda formanna stéttarfélaga að það skuli miðað við getu skussafyrirtækjanna þegar sest er að samningsborðinu. Þeirra geta er metin og ef ekki nást kjarasamningar á þeim grunni er kallað eftir aðstoð frá stjórnvöldum, svo skussarnir geti haldið sínum fyrirtækjum gangandi. Þessi niðurstaða er svo látin ganga yfir alla línuna og stórútgerðamennirnir sem greiða sér vænan arð og sýna tugi milljarða í rekstrarafgang fá líka niðurgreiðslur úr ríkissjóð til launagreiðslna!! Sorglegra er varla hægt að komast!

En súpan er ekki sopin þó í ausuna sé komin. Þó Gylfi krafsi sitt nafn á eitthvað plagg sem samið er af vinum hans í SA, er ekki þar með sagt að samningur sé í höfn. Launþegar sjálfir eiga þar síðasta orðið. Þeir þurfa að leggja sína blessun yfir þennan ógjörning.

Síst af öllu vil ég að hér logi allt í verkföllum á nýju ári, það væri einungis til að auka enn vanda launþega og þjóðarbúsins. En verkfall er eina vopn launþegans. Hann hefur ekki neinn annan möguleika til að berjast fyrir sínu lífi. Og þetta vopn fær hann í hendur einungis þegar samningar eu lausir. Þess á milli er launþeginn vopnlaus og verður að sætta sig við sitt hlutskipti.

Þegar svona samningur er gerður, eins og nú er að fæðast, eru miklar líkur á verkföllum. Þessi kjarasamningur er sem blaut tuska í andlit launþega.

Hér þarf að verða alger uppstokkun í forystu launþega og alger uppstokkun við gerð kjarasamninga. Það þarf kjarkmikið fólk að borðinu af hálfu launþega, fólk sem sér í gegnum lygavef talsmanna SA og getur staðið þeim á sporði í orðræðu. Tími getulausra og kjarklasra manna í forystu fyrir launafólk er liðinn.

Þá þarf að hætta að setja öll fyrirtæki landsins undir sama hatt, hatt skussafyrirtækjanna. Það verður að krefjast launahækkanna eftir getu hvers fyrirtækis og hverrar greinar. Skussafyrirtækin munu þá einfaldlega verða eftir með laun sem enginn vill vinna á og að lokum leggja upp laupanna. Verkefnin sem þau fyrirtæki eru að sinna fara ekkert. Annað hvort kæmu aðrir menn sem eru hæfari til fyrirtækjareksturs og stofnuðu ný fyrirtæki til að sinna þeirri vinnu, eða að þessi verkefni færðust til þeirra sem þegar sýna góðann rekstur. Vinnan yrði áfram til staðar.

Þá þarf að stöðva afskipti stjórnvalda af kjarasamningum, á hvern veg sem þau eru. Það sýndi sig vel í tíð síðustu ríkisstjórnar hversu föst í hendi slík loforð eru. Ekki einungis sviku þau gefin loforð þeirra sem á undan þeim voru og gefin voru við gerð kjarasamninga, heldur sviku þau einnig eigin loforð.

Öll afskipti stjórnvalda af kjarasamningum eru af hinu slæma. Dæmin sanna að loforð sem stjórnvöld gefa til að liðka fyrir kjarasamningum eru lítils virði og oftar en ekki sem þau eru svikin. Í þeirri iðju á þó síðasta ríkisstjórn Íslandsmet.

Þá eru afskipti stjórnvalda af kjarasamnigum í eðli sínu niðurgreiðslur til fyrirtækja, til að þau geti haldið niðri launakostnaði.

 

"Fyrirtæki er fyrst og fremst það starfsfólk sem þar vinnur. Húsnæði, tæki og búnaður er sem hvert annað járnarusl, ef engir starfsmenn eru."   Þessi sannindi sagði maður sem var stjórnandi eins af stæðstu fyrirtækjum þessa lands, á sínum tíma. Þau eru tímalaus.

 

 


mbl.is Stefnt að undirritun í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband