Halldór Halldórsson, tilvonandi borgarstjóri
8.12.2013 | 08:06
Halldór Halldórsson, tilvonandi borgarstjóri, fór nokkuð framúr sér í gær. Þar mætti hann í viðtal hjá fréttastofu 365 miðla, sem formaður Sambands sveitarfélaga og hélt því fram að "tap" sveitarfélaga vegna leiðréttingar lána heimila væri svo mikið og mátti jafnvel skilja á honum að þetta myndi ríða þeim að fullu. Talaði hann um að sveitarfélögin myndu tapa 24 milljörðum króna vegna þessa.
En skoðum málið aðeins. Í dag eru þeir sem þennan sparnað nota að greiða sjálfir 2% og atvinnurekandinn 2%, samtals 4%. Gert er ráð fyrir að launþeginn geti bætt við öðrum 2% og því samtals lagt um 6% af launum til lækkunnar höfuðstóls og fengið skattlausn af þeirri upphæð. Þannig mun séreignasparnaður aukast um einn þriðja frá því sem annars yrði. Því má strax taka einn þriðja af þeirri upphæð sem Halldór nefnir sem tap og hún þá komin niður í 16 milljarða.
Til viðbótar þessu eru ekki allir sem nýta þennan séreignasparnað í dag, en ljóst að þeim mun fjölga mjög við þessar aðgerðir stjórnvalda. Þar eru sveitarfélög ekki að fá neinar tekjur nú og því ekkert tap hjá þeim við breytinguna. Hversu stór upphæð þarna er um að ræða er ekki hægt að segja til um fyrr en á reynir, en sú upphæð mun einnig dragast frá ímynduðu tapi Halldórs. Því er ekki ólíklegt að það tap sem sveitarfélög gætu orðið fyrir vegna þessa yrði kannski kringum 12 milljarðar, eða minna.
Tap fyrir sveitarfélögin upp á 12 milljarða er auðvitað stór biti, ef ekkert kæmi í staðinn. En ef Halldór skoðaði aðeins betur tillögur að leiðréttingu húsnæðislána og hver áhrif talið er að þær muni hafa, ætti hann að geta verið rólegur. En hann verður auðvitað að lesa sig til um tillögurnar til að sjá það.
Auðvitað mun einhver hluti þessara aðgerða lenda á sveitarfélögum, en þau munu fá það tillag til baka á nokkrum árum. Og með því að dreyfa þessum aðgerðum yfir þrjú ár verða áhrifin enn minni.
Þá má ekki gleyma því að þarna er Halldór að tala um framtíðartekjur sveitarfélaga, tekjur sem verða til í fyrsta lagi að einhverju marki eftir 10 ár og í allt að 40 ár, eða þann tíma sem þessi séreignasparnaður yrði tekinn út, að óbreyttu og því ekki um neitt beint tap að ræða strax. Hvað framtíðin ber í skauti sér er erfitt að spá um en þó má með nokkri vissu fullyrða að Halldór þarf ekki að spá í þessar tekjur ef ekkert verður gert til hjálpar heimilum landsins núna. Þá munu þessar tekjur verða orðnar eign erlendra banka og sveitarfélögin orðin sem hver önnur deild þeirra banka. Ísland, í þeirri mynd sem nú er og sem sjálfstætt ríki verður þá ekki til!
Neikvæðni er einhver versti óvinur stjórnmálamanns. Sá sem einungis sér vandann í hveju verki verður lítt ágengt. Að geta séð kostina og nýtt sér þá, er bein leið til að sigrast á vandanum. Stjórnmálamenn sem tileinka sér þannig vinnubrögð ná eyrum kjósenda og atkvæðum.
Það er því spurning hvort fyrisögn þessa pistils sé röng hjá mér?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.