"Áminning um óréttlæti"

Fyrirsögn þessa pistils fæ ég að láni hjá Vilhjálmi Birgissyni, verkalýðsforingja, enda tilefni mitt að benda á þessi nýjustu skrif hans.

Þarna ritar Villi um fund sem hann ásamt fleirum áttu með innanríkisráðherra í gær, um þá kröfu að stöðva beri öll nauðungaruppboð heimila fólks, tímabundið. Rökin eru af tvennum toga, annars vegar vegna loforða ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu lána og hins vegar vegna þeirrar réttaróvissu sem ríkir um lögmæti verðtryggingar, en það mál er nú til umfjöllunar hjá EFTA dómstólnum.

Viðbrögð ráðherra voru vægast sagt vonbrigði. Hún sagði að ekki væri hægt að setja slíkt bann vegna eignarréttarákvæða. Þetta eru kannski fyrstu merki þess að fjármagnsöflin hafi náð tökum á ríkisstjórninni og að við munum áfram fljóta að feigðarósi. Ef fjölskyldur landsins falla, fellur landið.

En að eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Svo virðist sem sá réttur aukist í hlutfalli við aukna eign, að sá sem á mikið hafi meiri rétt en sá sem minna á. Það er alveg á hreinu að hugsunin baki þessa ákvæðis var ekki svo, heldur átti hún að tryggja rétt allra.

Það skýtur því skökku fyrir ef bankar og lánastofnanir hafi meiri rétt í þessu tilviki, sérstaklega vegna þeirrar einföldu staðreyndar að nauðungaruppboð eru ekki afturkræf. Sá sem tapar sinni eign á slíku uppboði hefur tapað henni fyrir fullt og allt, jafnvel þó domstólar dæmi síðar að maðurinn átti meira í fasteigninni en bankinn taldi, átti nægann hluta til að geta haldið henni, er hún honum glötuð.

Í þessu máli ætti auðvitað eignarréttur lántaka að vega þyngra. Þar til stjórnvöld hafa staðið við loforð um leiðréttingu lána er útilokað að segja til um hversu margir geti haldið sinni íbúð og meðan dómstólar hafa ekki skorið úr um lögmæti verðtryggingar, er þessi óvissa enn meiri. Því er ljóst að ef annað eða bæði þessi atriði falla lánþegum í hag, hef'u fjölmargir þeir sem nú eru að missa sínar fasteignir, getað haldið þeim.

Með því að stöðva nauðungaruppboð á húseignum fólks, þar til séð verður hvernig mál þróast er ekki verið að skerða eign bankanna, einungis verið að fresta aðgerðum þar til ljóst er hver sú raunverulega eign er. Þegar það liggur fyrir geta bankar og lánastofnanir fengið sínar eignir.

Með því að heimila áframhald nauðungaruppboða, meðan þessi óvissa ríkir, er verið að framkvæma hluti sem ekki verða teknir aftur. Verknaðurinn er endanlegur. Sá sem missir sitt hús mun ekki fá það til baka, sama hver dómur verður eða aðgerðir stjórnvalda!

Ég hvet alla til að lesa þennan pistil Villa. Hann lýsir fullkominni vanþekkingu ráðherra á vandanum og það sem meira er að innanríkisráðherra er þarna að kasta stríðshanska í andlit þess eina verkalýðsleiðtoga landsins sem hefur sýnt ríkisstjórninni skilning og biðlund.

Er ekki nóg fyrir ríkisstjórnina að hafa Gylfa gaggandi gegn sér? Er einhver sérstök þörf fyrir hana að fá einnig þann verkalýðsleiðtoga sem fjöldi launþega horfir upp til og er virkur, gegn sér einnig?

Áminning um réttlæti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband