Höft Rafinaðarsambandsins

Rafiðnaðarsamband Íslands er enn í höftum ESB aðdáunnar. Jafnvel þó skipt hafi verið um skipstjóra í brúnni, heldur hann sama kúrs, í brimróti ESB og evrunnar.

Kristján Þórður Snæbjarnason heldur uppi málstað fyrirrennara síns, að ESB og evra sé lausn alls vanda, einkum launþega. Þetta hljómar undarlega í ljósi þess að evrulöndin flest glíma við mikinn vanda og sameiginlegt með þeim öllum er að samtök launafólks í þeim hafa gagnrýnt harkalega stefnu sambandsins, einkum það er snýr að kjörum og réttindum launþega.

Kristján, eins og trúfélagar hans á ESB, heldur því fram að ríkisstjórnin hafi ekki mótað stefnu í gjaldeyrismálum. Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr, þó trúfélag ESB á Íslandi skilji hana ekki, enda í þeirra augum aðeins til ein stefna á því sviði, upptaka evru. Samkvæmt trúboði ESB trúfélagsins eru allir aðrir gjaldmiðlar eða aðrar stefnur útilokaða með öllu!

Stefna ríkisstjórnarinnar er sú að nota krónuna áfram um hríð, meðan náð er tökum á efnahgskerfinu. Eftir það má skoða hvort okkur væri hagstæðara að taka einhvern annan gjaldmiðil. Þessi stefna er í raun eina stefnan sem hægt er að hafa, þar sem tómt mál er að taka upp annan gjaldmiðil meðan ástandið er með þeim hætti sem hér er og evruna er alls ekki hægt að taka upp fyrr en tök hafa náðst á hagkerfinu okkar. Það er einfaldlega ekki í boði af hálfu ESB.

Það er sárt þegar forsvarsmenn launfólks taka afgerandi stefnu á sviði stjórnmála. Sárast er þetta vegna þeirrar einföldu ástæðu að launafólkið sjálft getur ekkert gert til að koma í veg fyrir þetta eða andmæla því. Stjórnkerfi stéttarfélaga og samtaka þeirra er með þeim hætti að nánast útilokað er að velta mönnum úr stóli, jafnvel þó mikill vilji sé til þess.

En þegar þessir menn síðan taka afstöðu með ESB og þess starfsháttum, algerlega í andstöðu við afstöðu stéttarfélaga og sambanda þeirra innan ESB, er eitthvað stórt að. Hvers vegna hafa þessir menn ekki samband við kollega sína innan ESB og fræðast um hvernig sambandið hefur haft áhrif á kjör og réttindi launafólks?

Baráttan gegn krónunni, af hálfu ESB trúfélagsins, hefur verið sterk og áberandi síðustu daga. Hvort það er vegna þess að þetta trúfélag horfir til þess að ef ekki verður sótt um aðild að henni fljótt, þá tapist kannski sá möguleiki að fullu, að evran verði ekki lengur við lýði þegar loks kæmi að því að meirihluti Íslendinga vilja fara þá leið, skal ósagt látið.

Mörg rök er reynt að draga upp úr rykugum poka ESB trúboðsins. Nú er talað um aldarhrun íslensku krónunnar. Vissulega hefur krónan veikst mikið frá þeim tíma sem hún var tekin upp, í samanburði við flesta aðra gjaldmiðla. En þá ber að skoða hvers vegna. Þegar við tókum upp eiginn gjaldmiðil bjó þjóðin að mestu í torfkofum, atvinnuvegir voru þá kotbú sem sáu um kjöt og mjólkurframleiðsluna, það var róið á opnum árabátum til að sækja fiskinn og tækni eitthvað sem var óþekkt með öllu. Þá stóðu yfir miklir fólksflutningar úr landi á fyrstu árum krónunnar, svo miklir að fjórðungur þjóðarinnar flutti burtu. Ekki þó vegna upptöku eigin gjaldmiðils, heldur vegna atvinnuástands, tíðafars og eldgosa.

Þegar skoðuð er staða landsins við upphaf krónunnar, sem þá taldi einungis 70.000 manns á þeim tíma, við stöðu annara þjóða er ljóst að aðstöðumunurinn var hróplegur. Sú uppbygging sem fram hefur farið frá upptöku krónunnar er gífurleg, reyndar meiri en nokkurstaðar annarstað í heiminum. Að krónan skuli hafa lifað þær hræringar af er í raun magnað. Hvernig staðan væri hér á landi nú, ef við hefðum haldið okkur við dönsku krónuna, er útilokað að segja til um. Þó er víst að uppbyggingin hefði verið mun hægari og ljóst að við værum mun verr sett en við erum núna, jafnvel eftir hrun bankakerfisins.

Hvort krónan okkar verður okkar gjaldmiðill og mælikvarði um alla framtíð veit enginn. En meðan við komum okkur út úr þeirri kreppu sem nokkrir siðleysingjar komu þjóðinni í, verður þetta okkar gjaldmiðill. Þar breytir engu þó öll þjóðin myndi sameinast sem einn maður gegn henni. Það er einfaldlega ekkert annað í boði næstu árin. Framtíðana skulum við svo ræða þegar betur árar.

Nú þegar líður að gerð kjarasamninga virðist forusta launafólks vera upptekið af máli sem mun eingu skipta í komandi samningum. Þar eru þeir samsætis forustu atvinnurekenda.

Það er einlæg von mín að þessi samstaða fulltrúa atvinnulífsins verði jafn góð í næstu kjarasamningum og að þeim takist að gera góða samninga sem hljóta náð launafólks. Það er jú launþegar sem mun hafa síðasta orðið. Komi þessir aðilar fram með samning sem launafólkið er ekki sátt við, hefur það einungis eitt vopn og ef það vopn verður dregið fram, er sökin ekki launafólksins, heldur hinna sem eiga að semja fyrir þess hönd og gagnaðilans.

Það er engin krafa svo stór að hún sé ósanngjörn, enda hefur launafólk þessa lands aldrei sýnt óbilgyrni í sínum kröfum. Því skulum við vera með það algerlega á hreinu hvar sökin liggur, komi til verkfalla.

Kristján Þórður segir ríkisstjórnina ekki vilja ræða nein mál sem henni er ekki þóknanlegt. Nú er það svo að þjóðin gekk til kosninga síðasta vor. Sá eini flokkur sem var með afgerandi afstöðu með aðild að ESB hlaut tap sem líkt var við hamfarir, meðan sá flokkur sem eindregna afstöðu hafði á móti aðild hlaut meiri kosningasigur en áður hefur þekkst. Þjóðin kaus og hví ætti sú ríkisstjórn sem mynduð var samkvæmt atkvæðafjölda kjósenda, að ræða þau mál sem þjóðin hafnaði?

Að ESB sé meiriháttar mál launþega er skoðun ESB trúfélaga. Meirihluti þjóðarinnar og launþegar allra landa evrunnar eru á öðru máli!!

 


mbl.is Engin framtíðarsýn í verðlags- né gengismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er fyrst og fremst baráttumál eins stjórnmálaflokks og kannski annars sem var barinn til samstöðu í þessu máli. Hins vegar ef þú spyrð þetta ágæta fólk hvað það hefur í boði í innanlandsmálum og hvort það hafi einhverja atvinnustefnu óháð ESB málinu, þá færðu líklega ekki mikið til baka ...

jón (IP-tala skráð) 29.9.2013 kl. 10:29

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég held að þetta sé rétt hjá Kristjáni Þ. varðandi það að þjóðin hafi hafnað esb þá er það ekki rétt hjá þér. þessi 2 flokkar sem stýra núna LOFUÐU að spurja okkur um áframhaldið á þessum málaflokk. má sennilega segja að það hafi verið svikið.

Rafn Guðmundsson, 29.9.2013 kl. 11:50

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Loforð beggja stjórnarflokkanna var í kosningabaráttunni í fullu samræmi við samþykktir þessara flokka og í stjórnarsáttmálanum kemur það loforð skýrt fram. Því var lofað að stöðva aðildarviðræður og að ekki yrði haldið áfram nema fullur vilji þjóðarinnar væri til þess, sem kannað yrði þá með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við þetta hefur ríkisstjórnin staðið. Þó einstaka frambjóðandi annars stjórnarflokksins hafi eitthvað mistúlkað þeta í kosningabaráttuni, lá vilji beggja flokka skýr fyrir. Það má kannski segja að einmitt þessi misskilningur sumra frambjóðenda annars stjórnarflokksins, í kosningabaráttunni, hafi orðið til þess að sá flokkur átti erfiðara með að ná til kjósenda í kosningunum.

Loforð um að kosið yrði um framhald viðræðna var aldrei gefið, einungis að þeim yrði ekki haldið áfram án þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er erfitt að átta sig á til skuli vera fólk sem ekki skilur þetta, eða vill ekki skilja það.

En vilji þjóðarinnar er skýr. Niðurstaða kosninganna hefur sjaldan eða aldrei verið jafn afgerandi og nú.

Gunnar Heiðarsson, 29.9.2013 kl. 12:07

4 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ekki er/var ég að sjá þetta svona Gunnar H. og það eru fleiri. eru helst esb andstæðingar sem sjá síðustu kostningar í þessu ljósi

Rafn Guðmundsson, 29.9.2013 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband