Rammskakkur fasteignamarkaður
14.9.2013 | 09:29
Sú staðreynd að Íbúðalánasjóður skuli halda 4/5 af þeim fasteignum sem þeir hafa tekið af fólki, frá markaði, skekkir augljóslega fasteignamarkaðinn. Þessi aðferð er vægast sagt siðlaus og aðrar lánastofnanir taka heilshugar þátt í þessu svindli.
Það er ljóst að skortur af íbúðum á markaði er mikill, bæði til kaups og leigu. Það hefur valdið því að fasteignaverð er mun hærra en eðlilegt getur talist og leiguverð er með þeim ósköpum að fólk þarf að hafa a.m.k. ráðherralaun eða vera bankastarfsmaður til að geta leigt sér íbúð. Allt skapast þetta af þeirri ástæðu að lánastofnanir velja að halda stæðstum hluta þeirra eigna sem þær taka af fólki, frá markaði.
Nú ræða ráðherrar um einhverskonar sátt við stéttarfélögin um uppbyggingu íbúðahúsnæðis og vilja tengja það komandi kjarasamningum. Þessi leið hefur verið farin áður og gafst þá vel, en þá var skortur á íbúðahúsnæði. Nú er til mikið magn af slíkum eignum, magn sem haldið er utan markaðar.
Kannski ráðherrar ættu frekar að skoða einfalda löggjöf sem skikkar lánastofnanir til að setja þær fasteignir sem þær taka af fólki á markað innan ákveðins tíma frá upptöku, t.d. innan þriggja mánaða. Þannig má tryggja að allt íbúðahúsnæði sem til er, er á markaði og verðmyndun þess samkvæmt því.
Þannig væri hægt að leysa stórann hluta þess vanda sem við er að etja og leiguverð ætti að lækka. Það myndi einnig verða hvati til lánastofnanna um að semja við sína lántakendur, þegar ljóst er að tapið af upptöku er orðið mun meira en tap af endurskoðun lána. Þá gæti margur íbúðaeigandinn, sem nú er við það að missa sitt húsnæði, haldið því og greitt af lánum.
Lánastofnanir þessa lands hafa getað hagað sér sem þeim sýnist, fram til þessa og tími til komin að stjórnvöld sýni þeim hverjir ráða þessu landi. Að í lýðræðislegu þjóðfélagi séu það kjörnir fulltrúar kjósenda sem ráða, en ekki eigendur og stjórnendur lánastofnanna.
Þessi aðferð, að halda stæðstum hluta upptökueigna frá markaði er einungis eitt dæmi um siðleysi lánastofnanna. Hvernig þær hundsa dóma Hæstaréttar er annað dæmi.
Þriðja dæmið kom skýrt fram í ágætum þætti RUV í gærkvöldi, frá Borgarfirði eystra. Þar var viðtal við konu sem hugðist kaupa sér íbúðarhús á staðnum. Bankarnir gerðu henni grein fyrir að þeir lánuðu einfaldlega ekki til slíkra kaupa, út á landi. Því varð hún að snúa sér til íbúðalánasjóðs og fékk þar fyrirgreiðslu. Sú fyrirgreiðsla var þó ekki þrautalaus, þar sem sjóðurinn tók ekki gilt verð sem ákveðið var á húsið, vildi lækka það um 15% og síðan lána 80% af þeirri upphæð. Þarna tók íbúðalánasjóður sér það bessaleyfi að ákveða verðmæti íbúðahússins og hafa að engu þá sátt sem seljandi og kaupandi höfðu gert, sátt sem báðir málsaðilar gert sín í milli.
Á sama tíma og sjóðurinn heldur uppi fasteignaverði á markaði, vill hann hafa vald til að lækka verð fasteigna þegar kemur að því að lána út á þær. Þegar fólk sem huggðist nýta sé svokallaða 110% leið leitaði ásjár hjá sjóðnum, voru ákveðnir fasteignasalar fengnir til að verðmeta eignina. Undantekningalaust var það verðmat mun hærra en raunverulegt söluverð og gat þar skakkað allt að 20%. Hvers konar siðferði er þetta eiginlega?!
Það mætti lengi skrifa um siðleysi og yfirgang lánastofnanna þessa lands og með ólíkindum hvað þeim hefur tekist að koma sinni ár vel fyrir borð. Hefði einhver sagt manni haustið 2008, eftir að bankakerfi landsins hrundi, að einungis fimm árum síðar yrðu það einmitt þær sömu stofnanir sem mestann hagnað sýndu hér á landi og að þessar sömu stofnanir yrðu raunverulegir stjórnendur þessa lands, hefði maður talið slíkt tal fásinnu. En lengi má víst böl auka!
![]() |
Sala eigna taki nokkur ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Algerlega sammála þessum pistli. Það er meir enn tími til kominn að tekið verði á siðleysi fjármálastofnanna, ríkisvæddra sem og annarra t.d. lífeyrissjóða.
Það er hörmung að horfa upp á hvernig farið er með margt fólk í þessu landi í gegnum þetta kerfi.
Jafnvel einföld atriði eins og lyklafrumvarp þ.e. að leyfa fólki að skila bara lyklinum og ganga skuldlaust frá borði, slík "líknarfrumvörp" stóðu algerlega þversum í fyrstu vinstristjórn landsins og munu standa áfram þversum á meðan tekið er á fjármálakerfinu með silkihönskum.
Enn og aftur vil ég svo benda á það glapræði sem er í gangi hjá seðlabankanum að ausa krónum inn í hagkerfið til að krýja út gjaldeyri. Bæði felst í því misrétti vegan þess að sumir fá meira fyrir gjaldeyrinn en aðrir en svo er hit að við þetta rírna þær krónur sem fyrir eru og verðbólgan eykst.
Þegar vextir eru svo hækkaðir eða hafðir háir m.a til að slá á þessa verðbólgu (eins rökrétt og það nú er) þá endar Svarti-Pétur þessarar hringavitleysu vaxta og verðhækkanna helst hjá þeim sem síst geta varist.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.9.2013 kl. 11:09
Mér finnst að ÍLS verði skikkaður til að leigja út allar íbúðir sem hann hefur hirt af fólki, gegnum leigufélag á almennum leigumarkaði sem er undir eftirliti og þar sem leigjendur hafa réttindi eins og á hinum Norðurlöndunum ólíkt því sem gerist í dag þar sem samvizkulausir leigusalar féflétta leigjendurna og síðan sparka þeim út á götu eftir hentugleika með velþóknun yfirvalda.
Það eru á fasteignamarkaðnum tugir þúsunda fasteigna sem ekki seljast og ekki á það bætandi. Hins vegar vantar þúsunda leiguíbúða með viðráðanlegri leigu. En þess er ekki að vaænta að íslenzk stjórnvöld geri neitt í þágu almenningshagsmuna. Þau hafa aldrei gert það áður og fara varla að byrja núna.
Austmann,félagasamtök, 14.9.2013 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.