Er nema von ?
29.5.2013 | 07:41
Er nema von að lífeyrissjóðir landsins séu komnir af fótum fram þegar stjórnun þeirra er í höndum fólks sem ekki er betur að sér en þetta.
Framkvæmdastjóri Stapa lifeyrissjóðs, heldur því fyrst fram að laun stjórnarmanna sjóðsins hafi haldist óbreytt frá hruni, en segir síðar í fréttinni að ákveðið hafi verið að hækka þau úr 42.750 kr. í 80.000 kr.. Þetta hafi verið gert til að miða laun stjórnarmanna sjóðsins við laun stjórnarmanna annara sjóða. Þó kemur fram að aðrir sjóðir hefi einnig verið að hækka laun sinna stjórnarmanna í svipaða upphæð. Það er alltaf spurning hvort kom á undan, eggið eða hænan.
En hvað er rangt í máli Villa Bigg. ? Þessi frétt afsannar ekki hans málflutning.
Í sinni grein er Villi að gagnrýna þá ákvörðun stjórna lífeyrissjóðanna að hækka sín laun verulega umfram þær launahækkanir sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Hann gagnrýnir hækkanir á samningstíma þess samnings, upp á allt að 87%, þegar samningurinn gefur því fólki sem eftir honum vinnur launahækkun upp á 11,4%. Hvað á undan fór ræðir Villi ekki í sinni grein, enda málinu óviðkomandi. Það eru sjálfsagt margir sem gætu vísað til fortíðar og talið sig eiga rétt á frekari launahækkunum vegna þess.
Þá bendir Villi á þá staðreynd að stjórnarmenn sjóðanna eru valdir að forystu launþegahreyfingar að hálfu og forystu atvinnurekenda að hálfu. Sömu manna og lögðu svo mikla áherslu á að hér mætti enginn fá meiri launahækkun en 11,4% á þriggja ára tímabili! Í einhverjum tilfellum eru sömu menn í stjórnum lífeyrissjóða og sátu við samningsborðið, veturinn 2011, þegar kjarasamningar voru gerðir.
Einnig vekur Villi athygli á því að lífeyrissjóðirnir hafi tapað um 500 milljörðum í bankahruninu og að lífeyrir til sjóðsfélaga hafi verið skertur um 150 milljarða. Hann veltir upp þeirri spurningu hvort stjórnir lífeyrissjóðanna, þar sem enn sitja að stórum hluta sömu menn og fyrir hrun, hafi unnið fyrir þessari launahækkun.
Engu af þessum atriðum sem Villi veltir upp í sinni grein er svarað í þessari frétt, enda útilokað fyrir sjóðina að hrekja þetta mál. Það liggur fyrir í bókum sjóðanna.
Hvort hækkun launa stjórnarmanna er upp á allt að 87%, eða hvort hægt er að reikna þá upphæð eitthvað niður, með brellum, þá er um hækkun að ræða. Það er óásættanlegt.
Lífeyrissjóðir eru eins og nafnið ber með sér sjóðir um lífeyri þeirra sem í þá greiða. Verkefni stjórna þessara sjóða er fyrst og fremst að tryggja að þessi lífeyrir haldi verðgildi sínu. Í tilefni lífeyrissjóða launafólks á almennum markaði er lagaumhverfið nokkuð gott og í raun ætti ekki að vera hægt að klúðra því máli. Samt tókst stjórnum þessara sjóða að glata nærri fjórðungi þess fjár sem sjóðirnir áttu og afleiðing þess er að lífeyrir skerðist verulega.
Mælikvarði launa stjórnarmanna lífeyrissjóða á að vera hversu vel þær sinna þessu grunnhlutverki sínu, lífeyrisgreiðslum til sjóðsfélaga. Þegar skerða þarf lífeyrisgreiðslu á að lækka laun stjórnar um sama hlutfall og ekki hækka þau aftur fyrr en hægt er að hækka lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum.
Hvaða réttlæti er í því að aldraðir þurfi að taka á sig skerðingu lífeyrisgreiðslna, meðan þeir sem áttu að verja sjóðinina en mistókst, hækka sín laun um fleiri tugi prósenta?
Grein Villa Bigg.:
Stjórnarlaun í lífeyrissjóði hækkuð um 87%
Stjórnarlaun hækka um tugi prósenta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Kári segir að mjög auknar kröfur hafi verið gerðar til stjórnarmanna í lífeyrissjóðum undanfarin ár og skerpt á ábyrgð þeirra". Skerpt á ábyrgð stjórnarmanna! Djöfuls bull! Þetta lið ber enga ábyrgð þegar á reynir þannig að þetta er hrein blekking hjá mannaumingjanum.
Einnig segir bullarinn: "Sjóðsfélagar hafi ákveðið að hækka laun stjórnarmanna á síðasta ári." Voru allir sjóðsfélagar spurðir? Það er eitthvað meira en lítið bogið við þessa fullyrðingu, eða öllu heldur bullyrðingu.
corvus corax, 29.5.2013 kl. 07:53
Bullyrðing er ágætis nýyrði!
Gunnar Heiðarsson, 29.5.2013 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.