Þjóðarsátt verður ekki þjóðarsátt nema þjóðin sé sátt

Þó ég hafi verið launamaður nánast alla mína starfsævi, hefur 1. maí aldrei virkað á mig sem einhver sérstakur hátíðisdagur. Kannski má þar kenna um því að ég hef lengst af unnið vaktavinnu og því fara flestir helgidagar forgörðum. Líklegra er þó það sjónarspil sem sett er í gang á þessum degi, ár hvert, þar sem svokallaðir forkólfar verkalýðsins láta ljós sitt skýna. Margir þeirra fara á kostum og lofa og prísa verkalýðinn en flestir gleyma þeir þó ræðum sínum jafn skjótt og þær hafa verið fluttar. Nú síðari ár hefur ánægjuleg undartekning verið á þessu, þar sem einn verkalýðsforkólfur hefur verið ötull að flytja mál launafólks, alla daga ársins. Þetta er formaður Vlfa. Akraness. Mjór sé mikils vísir og þessi formaður sýnir dugnað í starfi og vonandi að fleiri fari að taka hann sér til fyrirmyndar. En þetta dugir mér þó ekki til að líta 1. maí sem einhvern sérstakann hátíðisdag.  

Gylfi Arnbjörnsson talar um þjóðarsátt, þrátt fyrir að ekkert hafi verið kannað meðal launþega hvort þeirra vilji sé til þess. Þá er rétt að benda á að Gylfi eða ASÍ fer ekki með samningsrétt launafólks, sá réttur liggur hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig og þeirra að ákveða hvort ASÍ er virkjað til kjarasamninga.

Þessi ummæli Gylfa eru því ótímabær, bæði vegna þess að hann fer ekki með samningsréttinn og ekki síður vegna þess að enn hefur ekki verið mynduð ný ríkisstjórn. Það liggur fyrir að Gylfi hefur ritað undir tvær þjóðarsáttir við fráfarandi stjórnvöld og þau svikið sinn þátt í þeim báðum. Verði þeir flokkar í nýrri ríkisstjórn er út í hött að skrifa undir þriðju þjóðarsáttina.

Launafólk þráir það heitast að friður ríki á vinnumarkaði. Því getur þjóðarsátt verið góður grunnur að slíkum frið, þó vissulega megi hugsa sér frið á vinnumarkaði án hennar. En þá verður líka að vera tryggt að allir aðilar standi við sinn þátt og að þeir sem lægstu launin hafa fái veglegar launahækkanir, þannig að þeir nái a.m.k. þeim launaviðmiðum sem talin eru nauðsynleg til framfærslu. Þarna vantar enn mikið uppá. Þjóðarsátt verður nefnilega ekki þjóðarsátt nema þjóðin sé sátt og til að svo megi verða verður að gera þeim sem lægstu launin hafa mögulegt að sjá fyrir sér.

Þó launafólk þrái heitast að friður ríki á vinnumarkaði, er þeirra eina vopn í kjarabaráttu, verkfallsvopnið. Önnur vopn eru ekki til í búri launþega. Því hefur stundum reynst nauðsynlegt að grípa til þessa vopns, þegar allt um þrýtur. Það er staða sem enginn launþegi óskar sér en eðli málsins samkvæmt reynist stundum nauðsynleg.

Nú eru hinir ýmsu "fræðingar" farnir að vara við of háum launahækkunum í komandi kosningum. Þetta er þekkt stef, enda heyrst allt frá því launþegar fengu samningsrétt. Alltaf þegar nálgast lausn kjarasamninga hefur verið uppblásið þeirri mýtu að launahæækanir þeirra lægstlaunuðu muni setja allt á hausinn og því verði að gæta hófs. Jafnvel voru greiningadeildir bankanna virkjaðar í þessum tilgangi veturinn 2008, þegar verið var að semja um kjör launafólks. Þá töldu þessar greiningadeildir að þjóðin gæti jafnvel farið á hausinn ef laun þeirra lægstlaunuðu yrði hækkuð. Þetta var nokkuð merkilegt, í ljósi sögunnar. Fyrir það fyrsta hefðu þær hækkanir sem þá var verið að fara framá á lægstu töxtum einungis leiðrétting til þeirra launa sem raunverulega voru greidd á þeim tíma. Þetta hefði ekki leitt til neinna útgjalda nema fyrir örfá fyrirtæki. Í öðru lagi var staða bankanna á þessum tíma með þeim hætti að greiningardeildir þeirra hefðu kannski átt að hafa meiri áhyggjur af henni. Þetta minnir á söguna um flísina og bjálkann. Greiningardeildirnar höfðu áhyggjur að þeirri flís sem launafólk fór framá, en sá ekki bjálkann í eigin auga, vanda bankanna og framferði þeirra sem þar réðu ríkjum. Við skulum ekki heldur gleyma þeirri staðreynd að sumir þeirra sem þá stjórnuðu bönkunum þáðu laun fyrir hvern mánuð sem verkamaðurinn hefði þurft 500 til 1000 ár að vinna sér fyrir!

En aftur til nútímans. Kjarasamningar eru lausir í haust og samningsumboðið er í höndum hvers stéttarfélags. Ekki hefur enn verið sest niður til að semja kröfur fyrir þá samninga, en ljóst að rétta verður verulega kjör þeirra sem lægstu launin hafa. Þetta er nauðsynlegt til að sátt náist. Síðustu kjarasamningar sitja enn í þessu fólki, þar sem það var svikið illilega. Auðvitað er mesta kjarabótin í auknum kaupmætti, um það deilir enginn, en það er útilokað að bæta kaupmátt lægstlaunaða hópsins án þess að veruleg launahækkun fylgi.

Því er haldið fram að of miklar launahækkanir leiði til aukinnar verðbólgu og vísað til þess að sum fyrirtæki hafi ekki efni á að hækka laun án þess að færa þær hækkanir út í verðlagið. Það má allt eins spyrja hvort þau fyrirtæki sem ekki geta borgað mannsæmandi laun eigi yfirleitt tilverurétt! Kannski þurfa þessi fyrirtæki að skoða hjá sér reksturinn og taka til. Það er a.m.k. undarlegt að sum fyrirtæki í sama rekstri geti greitt mannsæmandi laun en önnur ekki.

Þarna er oft talað um verslunina. Þar eru laun gjarnan lág, þó ánæjulegar undantekningar séu þar á. Kannski verslunin gæti greitt hærri laun ef gregið yrði saman í rekstri húsnæðis. Hvergi í hinum vestræna heimi er eins mikið verslunarhúsnæðui til eins og hér á landi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Er þörf fyrir allt þetta húsnæði? Þá má endurskoða opnunartíma verslana. Eitt sinn þótti ekki tiltökumál að stýra innkaupum eftir opnunartíma verslana. Nú er hægt að versla allan sólahringinn. Ekki man ég til að krafa um það hafi komið frá neytendum, þetta var sjálfvalin aðgerð þeirra sem eiga verslanirnar. Með því að fara til baka og hafa opnunartíma verslana styttri, má hækka laun þeirra sem þar vinna. Þannig má endurskoða rekstur á fjölmörgum sviðum, en megin málið er þó það að þau fyrirtæki sem ekki geta borgað mannsæmandi laun, eiga einfaldlega ekki tilverurétt. Það eru nægir til að yfirtaka þá framleiðslu, sölu eða þjónustu sem þau fyrirtæki veita.

Því á að vera hægt að leiðrétta laun þeirra sem minnst bera úr býtum, án þess að hleypa þeirri launahækkun út í verðlagið. Þannig mun hugsanlega verða hægt að ná þjóðarsátt og auka kaupmátt allra, ef sú staða kemur upp á borðið og þannig skipast í ríkisstjórn að henni sé hægt að treysta.

Þjóðarsáttin verður að byggja á verulegri hækkun lægstu launa og hóflegri hækkun annarra, aðgerða til að þær hækkanir fari ekki út í verðlagið og aðgerðum stjórnvalda til að auka kaupmátt í með lækkun skatta. Þá verður þjóðarsáttin að tryggja að hinir ýmsu hópar sem kallast sjálftökuhópur, þ.e. það fólk sem er í aðstöðu til óhóflegra launahækkana, láti af þeirri gerð, a.m.k. meðan við komumst út úr kreppunni. Auk þess þarf að laga starfsumhverfi fyrirtækja svo þau geti rekið sig á skynsaman hátt. Þetta verkefni er því ekki auðvelt og vandséð að sátt allra náist, en án hennar er til lítils að fara í slíka aðgerð.

Eins og áður segir er samningsrétturinn hjá hverju séttarfélagi fyrir sig. Það er í þeirra valdi hvernig að samningsgerð verður staðið, hvort hvert félag fyrir sig semji, hvort hópamyndun nokkurra félaga verði raunin, eins og stundum hefur orðið, eða hvort ASÍ verði virkjað til samningsgerðar. Miðað við framgang forystu ASÍ í síðustu kjarasamningum er ekki beinlínis útlit fyrir að félagsmenn stéttarfélaganna séu tilbúnir að færa samningsrétt sinn til ASÍ. Ef svo fer verður erfiðara eða nánast útilokað að fara í einhverja þjóðarsátt. Því virðist vera fyrsta skref til þjóðarsáttar að skipta út forystu ASÍ.

Þá hefur framgangur ASÍ á pólitíska sviðinu verið mörgum þyrnir í augum. Þar má sérstaklega nefna neikvæða umræðu um krónuna, sem aftur hefur grafið undan kjörum launþega. Dufl við aðild að ESB hefur einnig verið fyrirferðamikið hjá forystu ASÍ, án alls umboðs launþega. Því er trúverðugleiki núverandu forystu ASÍ enginn og kannski stæðsti þröskuldur þess að hægt verði að mynda þjóðarsátt.

A.m.k. verður sú sátt ekki gerð með Gylfa Arnbjörnsson við stýrið, til þess hefur hann ekki traust launþega.

 


mbl.is Gylfi: Tilbúin í nýja þjóðarsátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Það besta sem launamenn gætu fengið í haust er afnám verðtryggingar,lækkun skatta og hækkun persónuafsláttar.Skattalækkunin sem sjálfstæðisflokkurinn boðar og á nú sennilega að koma til atvinnulífsins gæti öll komið til launamanna.Kosnaðarminnkunin sem atvinnulífið fengi við þetta (enginn auka launakostnaður)gæti þá komið í stað skattalækkunar til þeirra.Ef ég mætti ráða myndi ég nú bara framkvæma þetta án þess að spyrja kóng eða prest(Gylfa)og sleppa öllum kjaraviðræðum.

Jósef Smári Ásmundsson, 2.5.2013 kl. 15:01

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt hjá þér Jósef, hækkun persónuafsláttar, afnám verðtryggingar og lækkun skatta er vissulega stæðsta kjarabótin, ásamt aukinni atvinnu.

En fyrir það fólk sem er á lægstu laununum þarf meira. Kjör þessa hóps verður ekki réttlættur nema með launahækkun. Það er útilokað að trúa því að aukalaunahækkun til þessa hóps geti haft afgerandi áhrif á þjóðfélagið.

Það á ekki að líðast að fyrirtæki geti átt sína tilveru undir því að greiða fólki laun sem útilokað er að lifa mannsæmandi lífi af. Það er næst því að kallast þrælahald og fyrirtæki sem byggja sína tilveru á lágmarkslaunum, sem eru langt undir framfærslumarki, eru svatrur blettur á þjóðfélaginu.

Gunnar Heiðarsson, 3.5.2013 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband