Þjóðin hefur forgangsraðað

Það er sjaldan sem vilji þjóðarinnar hefur verið jafn skýr og eftir þessar kosningar. Fráfarandi valdhöfum og þeirra forgangsröðun hefur verið hafnað.

Þegar kosningabaráttan er skoðuð kemur í ljós að sú mýta sem margir halda fram, að einungis eitt málefni hafi komist að, er ekki rétt. Þetta sést þegar skoðaðir eru allir þeir þættir sem báðar sjánvarpstöðvarnar sýndu, þar sem fulltrúar flokkanna voru spurðir, þetta sést þegar allar þær fjölmörgu greinar sem ritaðar voru í dagblöðin eru skoðaðar og þetta sést þegar málflutningur framboðanna er skoðaður.

Vissulega var vandi heimilanna fyrirferðarmikill í þessari baráttu, en fráleitt að segja að það hafi verið eina mál kosningabaráttunnar. Þáttastjórnendum sjónvarpsstöðvanna var ESB aðildarmálið einkar hugleikið, ásamt stjórnarskrármálinu og eyddu oft á tíðum löngum tíma í þessi tvö málefni. Kratar allra flokka voru einnig duglegir að skrifa greinar um ágæti ESB aðildar í dagblöðin og stundum fátt annað efni sem þar komst að.  Þá voru fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, hvort heldur voru frambjóðendur eða stuðningsmenn, duglegir að benda á það afturhald sem valdhafar viðhéldu hér síðustu fjögur árin og að eina raunhæfa leiðin til uppbyggingar væri frekari uppbyggingu. Að þáttur stjórnvalda í þeim aðgerðum væri fyrst og fremst minni ríkisstjórnarafskipti.

Fráfarandi valdhafar hafa verið vændir um ranga forgangsröðun, að ýmis mál sem þjóðinni er ekki hugleikið hafi verið tekin fram yfir önnur sem meira skipta, að mati þjóðarinnar. Þetta sannaðist rækilega í kosningunum og má með sanni segja að þjóðin hafi forgangsraðað fyrir komandi stjórnvöld.

Þegar niðurstöður kosninganna er skoðuð kemur þessi forgangsröðun mjög skýrt fram. Þjóðin horfir fyrst og fremst til vanda heimila, telur það mál eiga forgang fyrir öllum öðrum. Frelsi til athafna og að flækjustig skattkerfisins verði einfaldað og þungi þess léttur, kemur þar næst á eftir.

Þegar kemur að þeim tveim málum sem fráfarndi stjórnvöld hafa lagt megin áherslu á, ESB umsóknin og ný stjórnarskrá, kemur í ljós að þessi tvö mál eru vægast sagt neðarlega á lista þjóðarinnar. Þeir tveir flokkar sem mest og harðast hafa talað fyrir þessu máli og telja þjóðinni best borgið innan ESB, ná samanlagt rétt um 20% fylgi þjóðarinnar. Enn verra gekk hjá þeim flokki sem stofnaður var gagngert til að vinna stjórnarskránni fylgi. Það framboð, undir stjórn Þorvaldar Gylfasonar, fékk einungis 2,5% fylgi þjóðarinnar.

Þorvaldur, sem hefur talið sig tala vilja þjóðarinnar og hefur viðhaft mörg og ljót orð um þá sem hann segir vera að svíkja þann vilja, hlýtur að taka alvarlega þessa niðurstöðu. Þegar kosið var til stjórnlagaþings fékk sá sem flest atkvæði féllu til einungis umboð 3% kosningabærra Íslendinga. Nú fær framboð þess sama manns 2,5% fylgi þjóðarinnar í kosningum. Því er spurning hvort sá háværi hópur sem þessu máli fylgja svo stíft eftir, ná einungis rétt um eða undir 3% þjóðarinnar?

Það liggur fyrir hvaða málefni næsta ríkisstjórn eigi að leggja höfuðáherslu á og hvaða mál hún getur lagt til hliðar. Það er vonandi að þeir sem ná að koma sér saman um að mynda nýja ríkisstjórn auðnist að fara að þessum vilja þjóðarinnar. Það ætti ekki að verða svo erfitt, þetta er einungis spurning um rétta forgangsröðun, rétt eins og hjá öllum öðrum, hvort heldur er fyrirtækja- eða heimilisrekstri 

 


mbl.is Ekkert umboð til að breyta þjóðfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband