Ágætt framlag RUV

Sjónvarpið startaði formlega kosningabaráttunni í gær með ágætum þætti þar sem formenn stjórnmálaflokkanna fengu að láta sitt ljós skína. Sitt sýnist hverjum hvernig til tókst, en ljóst er að margur kjósandinn er margs vísari á eftir. Þessi þáttur var haldinn í kjölfar frétta um enn frekara fylgi Framsóknar og enn minna fylgi Sjálfstæðisflokks, í skoðanakönnunum.

Ekki ætla ég að fara ýtarlega í gegnum málflutning hvers og eins, enda yrði þá þessi pistill nokkuð langur. Þó er kannski hægt að nefna örfá dæmi. Sá sem kom mest á óvart fyrir skýrleik og góðann flutning var Guðmundur Franklín. Hann var laus við allt málskrúð, flutti mál sitt í stuttu og auðskiljanlegu máli. Sá sem var kannski á hinum endanum var Þorvaldur Gylfason, en hann gekk í raun frá sínum pólitíska ferli strax í fyrstu setningu, þegar hann sagðist vel geta stutt málflutning Sigmundar Davíðs, ef hann kæmi ekki frá Framsóknarflokki. Nokkuð merkilegt að maður sem stofnar stjórnmálaflokk í nafni þess að hér þurfi að taka upp ný og betri vinnubrögð, skuli síðan nota pólitískann umræðugrundvöll sem var aflagður fyrir áratugum síðan og þekkist vart nema hellst hjá fyrrverandi formanni VG, enda hann orðinn nokkuð forn á íslensku stjórnmálasviði.

Þetta eru þeir sem komu mest á óvart, annar fyrir skörungleik og auðskilni, hinn fyrir að taka pólitískt harakiri í sínum fyrsta þætti á því sviði.

Aðrir viðmælendur voru nokkuð nærri því sem búast mátti við. Margrét og Birgitta voru auðvitað nokkuð fastar í stjórnarskrármálinu, enda þeirra hugðarefni. Heiða Kristín svaraði engri spurningu beint, í anda hennar flokks. Hún kom samt vel fyrir og lét heldur ekki hanka sig á neinu. Um málflutning Katrínar er lítið að segja. Hún reynir auðvitað að klóra í bakkann eftir hryðjuverk fyrrum formanns VG á eigin flokk. Ekki kom hún þó fram með neitt sem gefur tilefni til að halda að henni takist að ná flokknum á skrið aftur, þvert á móti boðar hún áfram óbreytta stefnu. 

Það sem kannski má telja sem einskonar straumhvörf var hversu samstíga Árni Páll og Bjarni voru. Það er greinilegt að milli þeirra eru neistar ástar. Hvort þessi ást Bjarna á Árna stafar af hégóma hans, að hann geti ekki með nokkru móti hugsað sér að hallast að flokki sem hugsanlega gæti orðið stærri en Sjálfstæðisflokkur, eða hvort honum hafi þótt svo gott að starfa með Samfylkingu síðustu misserin fyrir hrun, skal ósagtt látið. Hitt er ljóst að þeir tveir munu vart geta myndað meirihlutastjórn að loknum kosningum og því þarf þriðja hjólið undir vagninn. Líklegast að systurflokkur Samfylkingar verði fengið það hlutverk. En til að ríkisstjórn þessara þriggja floka geti orðið að staðreynd, verður einhverjum þeirra að takast að snúa við þeirri þróun sem skoðanakannanir sýna. Eins og er hafa þeir rétt um 50% fylgi samanlagt og með sömu þróun og síðustu vikur, mun það verða enn minna í kosningum.

Málflutningu þessara tveggja manna var annars frekar máttlaus. Árni Páll gat haldið af sér að nefna ESB og evru, þó hann vísaði óbeint til þeirra við hvert tækifæri. Þetta olli því að hann varð eiginlega mállaus, enda ekki tamt að tala um annað en ESB og evru. Ágæt athugasemd Margrétar þegar henni þótti greinilega nóg um þetta málleysi Árna og bennti honum góðfúslega á að allir þekktu hans áherslur. Bjarni talaði um skattalækkanir. Auðvitað bráðnauðsynlegt málefni en fjarri því lausn þess vanda sem að þjóðinni stafar um þessar mundir. Sama hvert af þessum þrem málefnum sem þátturinn fjallaði um, stjórnarskrá, vanda heimila og vanda heilbrigðiskerfisins, allt ætlaði Bjarni að leysa með lækkun skatta. Frekar ótrúverðugur málflutningur. Fólk sem óskar þess heitt að skattaklafinn verði eitthvað léttur trúir ekki svona einhliða málflutningi.

Ekkert kom á óvart í málflutningi Sigmundar Davíðs, nema kannski að hann hefði haft efni á að vera örlítið grimmari. Hann hefði til dæmis getað spurt aðra frambjóðendur hvort einhver þeirra hefði reiknað út kostnaðinn við að gera ekki neitt í vanda heimila landsins, hvort einhver þeirra virkilega gerði sér grein fyrir þeim vanda sem þjóðin mun standa frammi fyrir eftir nokkrar vikur, ef ekkert verður gert að viti. Framsóknarflokkur er á flúgandi skriði samkvæmt skoðanakönnunum. Þetta eru auðvitað einungis kannanir, en skammt er til kosninga og ljóst að jafnvel þó Framsókn nái ekki því fylgi sem hann hefur í dag, þegar fólk gengur í kjörklefann, mun sigur hans verða stór. En í dag er þessi flokkur stæðsti flokkur landsins og því hefur formaðurinn fullt efni á að vera nokkuð grimmur. Að hamra járnið.

Þessi þáttur var vissulega góður. Þó var kannski eytt full miklum tíma í stjórnarskrármálið, enda það málefni sem ekki brennur á fólki, utan fámennrar klíku sem sér allan vanda landsins leysast með nýrri stjórnarskrá.

Hins vegar má hrósa stjórnendum þáttarins fyrir að taka málefni heilbrigðiskerfisins inn í þessa umræðu. Þar með mörkuðu stjórnendur þáttarins farveg fyrir umræðu um þann vanda inn á pólitíska sviðið í undanfara kosninganna í vor.

 


mbl.is Kosningabaráttan framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: K.H.S.

Þar á undan fór Spegillinn yfir það hvað Mogginn væri hættulegur og að hann tengdist ekki bara#Sjöllunum# heldur einnig Framsókn.

Ekki á ég von á pistli frá Sigrúnu Davíðs um tengsl Samfylkingarinnar og allrar áróðursmaskínu Kæra Jóns eða DV , eða Palla RUV Óðins og VG.

K.H.S., 3.4.2013 kl. 11:39

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þægð RUV við núverandi ríkisstjórnarflokka er auðvitað hrópandi.

Eftir sem áður var þessi þáttur í gærkvöldi ágætur. Að vísu voru ekki öll framboð með fulltrúa sína í þessum þætti og var það vissulega ljóður, en að öðru leiti tókst bara nokkuð vel til. 

Það er ekki oft sem maður hefur haft tilefni til að hæla störfum RUV og vissulega rétt að nota þau einstöku skipti sem gefa tilefni til þess og rita örfá mærðarorð um þessa stofnun.  

Um pistla Sigrúnar Davíðs er fátt að segja. Þeir dæma sig sjálfir, sem og trúverðugleik þeirrar manneskju. Þá hefur ekki enn gefist tilefni til að rita lofsorð um störf Óðinns fyrir þessa stofnun. Fleira ljótt mætti telja til um RUV, en þegar loks gefst tækifæri fyrir hól á einhver hátt, er sjálfsagt að grípa það.

Gunnar Heiðarsson, 3.4.2013 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband