Gróði fyrirtækja og óraunhæfar tillögur Framsóknarflokks

Hvert fyrirtækið af öðru er nú að skila hagnaði upp á hundruði milljóna og sum tugi milljarða. Á meðan draga önnur fyrirtæki vart andann og berjast fyrir tilveru sinni. Hvað er það sem skilur þarna á milli?

Það sem einkennir þessi fyrirtæki sem nú eru að skila stærðfræðilegum hagnaði er að flestöll þeirra hafa notið gífurlegra afskrifta á lánum. Eru hluti þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér þá 550 milljarða sem bankar og fjármálastofnanir hafa afskrifað hjá þeim.

Fjármálafyrirtæki, sem einnig sýna gróða upp á tugi milljarða, fengu yfir 420 milljarða í startpakka sinn. Þar að auki fengu þau lánasöfn á hrakvirði og heimild til að innheimta þau að fullu. Hvað sá afsláttur gaf þessum fyrirtækjum er erfitt að segja til um, en örugglega má meta þann gróða til einhverra hundruði milljarða. Þrátt fyrir að þessi fyrirtæki hafi afskrifað 550 milljarða hjá vildarvinum sínum, eru þau að skila hagnaði upp á tugi milljarða, svo ljóst er að lánasöfnin gáfu vel af sér!

Flest þeirra fyrirtækja sem nú eru að sýna ofurgróða, eru í höndum sömu manna og þar voru fyrir hrun. Menn sem nutu hagnaðgreiðslna af froðuhagnaðnum fyrir hrun, sumir hverjir upphæðir sem eru venjulegu fólki alls óskyljanlegar.

Nú, þegar þessi fyrirtæki eru farin að skila hagnaði upp á milljarða, er auðvitað fyrsta verk þessara "snillinga" að greiða sér arð. Ekki hvarflar að þeim að nota þennan hagnað til að greiða eitthvað af afskriftunum til baka, að láta bankana njóta þess hagnaðar að einhverju marki, svo þeir geti aftur skilað einhverju af þeim 420 milljörðum sem þeir hafa fengið frá ríkinu.

Að vísu er ekki að sjá að vilji bankanna til að skila einhverjum þessara fjármuna til baka sé mikill. Tugir milljarða gróði þeirra ár eftir ár er frekar ætlaður erlendu vogunarsjóðunum. Þó er ljóst að þennan gróða má allan rekja til þeirrar staðreyndar að þeir fengu lánasöfnin á hrakvirði og eru að færa þau smátt og smátt inn í sínar bækur að fullu, sem eign. Engar forsendur eru fyrir þessum gróða í hagkerfinu eða daglegri starfsemi bankanna.

Sjóvá-Almennar er fyrirtæki sem er meðal nokkurra sem falla þarna á milli, eru ekki eiginleg fjármálafyrirtæki en þó fengið fjármuni frá ríkinu. Hvernig væri ef þetta fyrirtæki tæki nú, þó ekki væri nema helming síns gróða, einn milljarð króna, og létu til ríkissjóðs, sem fyrstu greiðslu í skilum á því fé sem ríkissjóður lagði fyrirtækinu til.

Það er ljóst að nærri 1.000 milljarðar króna hafa verið lagðir til endurreisnar fjármálafyrirtækjum og nokkurra stæðstu fyrirtækja landsins, frá hruni. Sumt af þessu fé kemur beint úr ríkissjóð en annað eftir krókaleiðum gegnum bankakerfið. Allt er þetta þó fé sem í raun kemur frá almenning, þegar upp er staðið.

 

Nú keppast flestir frambjóðendur við að gagnrýna tillögur Framsóknarflokks til aðstoðar heimilum landsins. Tillögum sem taldar eru kosta um 200 milljarða króna, eða um helming þeirrar fjárhæðar sem bankar hafa haft af almenning gegnum verðtrygginguna frá hruni. Menn segja þessar tillögur óraunhæfar og tala um lýðskrum. Ekki minntist nokkur maður á óraunhæfni eða lýðskrum, þegar verið var að dæla hundruðum milljarða í bankakerfi landsins, ekki nefndi nokkur maður óraunhæfni eða lýðskrum þegar þessir bankar tóku svo til við að afskrifa fyrir enn fleiri hundruði milljarða hjá sérvöldum vildarvinum!

Þeir sem nú tala um óraunhæfni og lýðskrum, um tillögur Framsóknarflokks til lausnar vanda heimilanna, töldu hið besta mál að taka á þjóðina ólögmætar skuldir við aðrar þjóðir, upp á upphæð sem enginn vissi hver væri. Þáverandi efnahagsráðherra taldi þjóðarbúið auðveldlega getað tekið á sig þessa skuld, jafnvel þó hann hafi ekki haft hugmynd um hver hún raunverulega var, sami maður predikar nú að lausn á vanda heimila landsins sé lýðskrum!

Það er ljóst hver verðmiðinn er á lausn vanda heimila landsins. Hins vegar veit enginn hver verðmiðinn er á því að gera ekki neitt. Þeir sem gagnrýna tillögur Framsóknarflokks á þessu sviði, hafa heigst á því að koma með raunhæfar tillögur í staðinn. Það er auðvelt að vera á móti, erfiðara að benda á hvaða lausn skuli koma í staðinn.

Það er deginum ljósara að ekki verður lengra haldið á sömu braut. Þær lausnir sem núverandi stjórnarflokkar buðu uppá hjálpuðu fyrst og fremst bankakerfinu. 110% leiðin leiddi til þess að bankarnir gátu fengið fólk sem hafði gefist upp til að greiða örlítið lengur. Það væri gaman að fá að vita hversu margir þeirra sem fengu "hjálp" eftir þeirri leið, eru enn að borga af sínum lánum. Það kemur sennilega á óvart hversu fáir það eru. Það þarf í raun ekki að ræða tillögur stjórnarflokkanna meira, þeir fengu sitt tækifæri og glutruðu því. Þeir eru einfaldlega úr leik og öll loforð sem þeir láta frá sér nú, er einungis hægt að líta sem kosningaveiðar.

Björt framtíð vill ganga í ESB og taka upp evru. Það er þeirra lausn á öllum heimsins vanda. Þessi flokkur ætti að lesa fréttir frá Kýpur, þá kannski átta þeir sig á staðreyndum evrunnar og ESB. Og jafnvel þó skjól væri innan ESB, sem greinilegt er að er ekki, þá tæki nokkur ár fyrir þjóðina að komast í það skjól. Þau ár eru einfaldlega ekki í boði.

Sjálfstæðisflokkur boðar lægri skatta, aukna atvinnu og að fólk nýti sinn séreignasparnað til að greiða niður sín lán. Samhliða þessu er talað um að hugsanlega megi skoða afnám verðtryggingar á húsnæðislánum, einhverntímann í framtíðinni. Með þessum aðgerðum ætla þeir að lækka höfuðstól lána heimila!

Þessar tillögur eru ekki einungis fátæklegar heldur beinlýnis heimskulegar og ekki að undra þó fylgi flokksins hrynji. Auðvitað munu skattalkækkanir og aukin atvinna hjálpa öllum og ekkert nema gott um það að segja. En hvernig það mun lækka höfuðstól lána er með öllu óskiljanlegt.

Séreignasparnaðinn hefur fólk í flestum tilfellum þegar notað til að standa í skilum með sín lán og þeir sjóðir uppurnir hjá flestum. Því hlýtur flokkurinn að vera að tala um þann séreignasparnað sem fólk fær í hverjum mánuði. Sá sparnaður er auðvitað misjafn eftir tekjum. Krónutala upp á innan við 10.000 er þó mörgum kunnugleg, þegar þessi sparnaður er skoðaður. Þessi tala segir lítið meðan verðtrygging bætir yfir 250.000 króna ofaná höfuðstól lána, við hver mánaðarmót! Það má greinilega efna til námskeiðs í grunnreikning meðal Sjálfstæðismanna, ef þeir telji að lækka megi höfuðstól lána með þessum hætti!

En hversu óraunhæfar eru tillögur Framsóknarflokks og hvað þíða þær í raun?

Afnám verðtryggingar er engin lausn fyrir þá sem nú eru komnir í vandræði. Þetta er lausn framtíðar, kemur í veg fyrir að annað áfall muni skella á heimilum landsins. Áfall sem næsta víst að muni koma, jafnvel þó vel takist að spila úr málum hér heima. Heimskreppan er fjarri því búin og líkur á að hún eigi eftir að versna aukast daglega. Því mun annað áfall lenda á okkur. Hjá því verður ekki komist, einungis hægt að búa svo um að við lifum gegnum það. Afnám verðtryggingar er forsenda þess!

Leiðrétting stökkbreyttra lána er annað mál. Það er lausn fortíðar, lausn sem verður að fara í hvað sem hver segir. Hjá því verður ekki komist, ef við viljum halda sjálfstæði þjóðarinnar. Verðmiði þessa er þekktur, einungis spurning hver eigi að borga. Þá ættu gagnrýnendur kannski að byrja á þessum pistli upp á nýtt og lesa fyrrihluta hans aftur. Það liggur fyrir að nægir peningar eru til í landinu.

Til allrar lukku fyrir þjóðina þá náðist samstaða allra flokka um ótímsett áframhaldandi gjaldeyrishöft. Hversu ógeðfeld sem gjaldeyrishöft eru, þá er þetta í raun eina verkfæri stjórnvalda, eftir að núverandi ríkisstjórn færði öll önnur vopn í hendur erlendu vogunnarsjóðanna. Með þessu vopni er hægt að ná til baka einhverju af því fé sem lagt var til banka og fjármálastofnanna, þó ekki væri nema svona helming þeirrar fjárhæðar. Ekki þurfa að fara neinar fjárhæðir milli manna vegna þessa, engir seðlar eða klink. Einungis örlítil leiðrétting í bókhaldi bankanna! Að bankarnir annaðhvort skili til baka hluta þess fjár sem þeir hafa innheimt af lánþegum gegnu verðtrygginguna frá hruni, eða þeir færi virði lánanna nær því sem þeir borguðu fyrir þau! Báðar þessar leiðir eru færar og hvorug þeirra kallar á einhverskonar fjárútlát, einungis endurskoðun bókhalds!!

Einföld mál eru gjarnan gerð flókin, sérstaklega þegar um fjármál er að ræða.

Heimili landsins eru ekki að fara fram á neinar ölmusur, í takt við það sem mörg stórfyrirtæki og vildarvinir bankanna hafa fengið, einungis leiðréttingu sinna mála. Þessi leiðrétting mun skila sér að fullu inní hagkefið hjá okkur í formi hærri skatta og aukinnar neyslu, ólíkt þeim hagnaði sem vildarvinir bankanna eru nú að greiða sér, sem fara í ferðatöskum til Tortóla eða annar skattapardísa!

Það er ljóst að ef ekkert verður gert, munu margir hætta að greiða af sínum lánum, þá er jafn ljóst að bankarnir munu hrynja, Þeirra gróði mun þá hverfa sem dögg fyrir sólu. Þjóðarskútan mun ekki þola slíkt áfall, þá mun hún endanlega sökkva.

Því er ekki til ofmikils mælst að þeir sem gera sér leik af því að fordæma tillögur Framsóknarflokks, sjái sér sóma í því að koma með aðrar raunghæfar tillögur í staðinn!!

 


mbl.is Hagnaður Sjóvá margfaldast milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Vel skrifað Gunnar eins og þér er vant um efnhagsvanda heimilana, verzt er að þú ert ekki á Alþingi og kæmir þessum hugmyndum inn í þverhausana þar.

Ég held að eini flokkurinn sem skilur hversu gífurlegur efnahagsvandi heimilana er orðinn er (F), í það minsta að þau boða róttækar aðgerðir til að bjarga því sem hægt er.

Svo er það mjög einfallt að eftir verðtrygging hefur verið bönnuð að þá komi lánveitundur húsnæðislána, Ríkisstjórn og lánþegi saman og semja um raunverulega lausn á vanda lánþega.

Það er að segja; lánveitendur gefa eitthvað eftir og Ríkið kemur til móts við lánveitendur til að lánþegi geti staðið undir afborgunum og séð fjölskyldu sinni fyrir lifibrauði annars gengur þetta ekkert upp.

Bezt væri að fast tengja krónuna við einhvern stöðugan gjaldmiðil svo sem Svineska frankan, þar væri kominn góð bremsa á óðaverðbólgu og gengisfellingar mundu heyra tímanum til.

Hef horft upp á land sem fór illa í fjárhagsvandræðum sem skullu á í Asíu og þeir festu gengið við US $ og komust upp úr vandanum rúmmlega 10 árum seinna.

Þetta er vel hægt ef menn hætta að hlusta á þessa vitringa sem halda því fram að allt fari til helvítis á Íslandi nema að verðtryggingin sé haldið á lífi. Það hefur tekið auðmanna elítu propaganda í tugi ára að koma landsmönnum í trú um þetta, þannig að það verður erfit að fá landsmenn til að sjá að auðmanna elítan var að ljúga.

Ég vona að (F) verði með flesta þingmenn kjörna eftir kosningarnar í vor og að þau standi við það sem þau eru að boða. Það er eina von heimilina því hinir flokkarnir sem koma til meða að vera með þingmenn kjörna boða enga úrlausn nema ESB og evru, nema þá kanski (S) með kanski stefnu í að bjarga heimilunum.

Kanski að (F) geti fengið (S), með sína kanski stefnu heimilana, til að ganga í liðið og ganga frá verðtrygginguni dauðri fyrir árslok 2013.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 22.3.2013 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband