Vextir og verðbólga

Þegar Ólafslög voru sett, 1979, var vandi þjóðarinnar mikill. Hér ríkti óðaverðbólga, samhliða gífurlegum hagsveiflum og varð með einhverjum ráðum að komast fyrir þennan vanda. Það var þó ekki fyrr en árið 1983 sem tókst að ná henni niður að marki og ekki fyrr en við gerð þjóðarsáttarsáttarinnar 1990 sem virkilegur árangur náðist. Eftir það má segja að stöðugleiki hafi ríkt allt fram að hruni bankanna.

Það er merkilegt að bera saman óverðtryggða vexti Landsbankans og verðbólgu í landinu, frá stríðslokum til þessa dags.

Á tímabilinu frá stríði og til loka sjöunda áratugarins er verðbólgan að hlaupa frá núlli og jafnvel neðar í einstaka tilfellum og uppundir 20%, þrisvar á þessu tímabili fór hún hærra. Á sama tímabili eru vextir Landsbankans í nokkru jafnvægi við þessar sveiflur, þó sveiflur vaxtanna séu mun minni. Að jafnaði eru vextir yfir þetta tímabil á pari við verðbólgu, þó örlítið hærri. Á þessu tímabili varð ekkert eignartap hjá fjármagnseigendum.

Það var svo í upphafi áttunda áratugar sem eitthvað skelfilegt gerist. Allan þann áratug og fram á níunda áratuginn æðir verðbólgan upp og endar yfir 100% árið 1982. Vextir Landsbankans náðu ekki að fylgja á eftir, komust hæst í tæp 40%. Þennan rúma áratug varð vissulega mikið tap hjá fjármagnseigendum.

Næsta tímabil, frá 1982 til 1990, í kjölfar Ólafslaga og verðtryggingar, myndaðist nokkurt jafnvægi. Þó ekki meir en svo að verðbólgan sveiflaðist hér á milli 20% og 40%. Óverðtryggðir vextir Landsbankans fylgdu nú sveiflunum að fullu.

Við þjóarsáttina, 1990, gerðist hins vegar merkilegur hlutur. Verðbólgan féll niður og hélst niðri, utan smá skot  um aldamótin, þegar hún fór uppundir 5%, en datt síðan aftur niður og lá þar allt fram undir hrun bankakerfisins. Allt þetta tímabil voru óverðtryggðir vextir Landsbankans vel yfir 5%, vel yfir verðbólgunni. Á þessu tímabili er ljóst að fjármagnseigendur voru að ávaxta sitt fé verulega, langt umfram verðbólgu og jafnvel þó innistæðan væri ekki verðtryggð.

Vandinn er bara sá að almenningur átti ekki aðgang að óverðtryggðum lánum fyrir sínum íbúðum, þau voru einfaldlega ekki í boði. Jafnvel þó nokkur gróði væri af því að lána slík lán, var gróðinn enn meiri af verðtryggðum lánum.

Ef hins vegar fjölskyldur landsins hefðu haft sín lán á slíkum kjörum við fall bankanna, hefði ekki orðið sá forsendubrestur sem varð. Vissulega má reikna með að vextir hefðu eitthvað verið hækkaðir, en ekkert í líkingu við það sem verðtryggingin tryggði. Þá hefði skellurinn skipst á milli lánþega og fjármagnseigenda, eins og í öllum siðuðum löndum.

Þessi saga hér fyrir ofan er saga óverðtryggðra vaxta á innlánum Landsbankans v/s verðbólgu í landinu. Vextir af útlánum er auðvitað alltaf hærri. Hún segir okkur að verðtryggingin sem slík hefur lítil áhrif á þá sögu, en aftur friður á vinnumarkaði mun meira. Hún segir okkur einnig að fjármagnseigendur tryggja sitt fé mest með stöðugleika og að óðaverðbólga er þeirra óvinur, ekki hvort verðtrygging er eða ekki. Auðvitað minnkar gróði þeirra ef verðtrygging er afnumin, en þeir geta þó vel við unað. Það sem kannski er mest um vert við þessa sögu er að hún segir okkur að jafnvel þó óverðtryggð lán séu óhagstæð, eins og öll lán, þá tryggja þau að ekki getur orðið stökkbreyting þó allt bankakerfið hrynji á einum degi. Þar liggur munur verðtryggðra og óverðtryggðra lána fyrst og fremst, auk auðvitað að sá aukagróði sem fjármagnseigendur fá gegnum verðtrygginguna kemur beint úr vasa lánþegans.

 

 

Hrafn Magnússon vill þakka Ólafslögunum og verðtryggingunni sem þau gáfu, um að hér hafi náðst árangur gegn verðbólgunni. Þetta er að nokkru rétt, en það var þó ekki fyrr en við gerð þjóðarsáttarinnar sem virkilegur árangur náðist, reyndar svo að fjármagnseigendur fóru að geta notað fé sitt til að búa til fé, fóru að græða verulega á sínum innistæðum. Það er því fyrst og fremst þjóðarsáttinni að þakka að hér náðist árangur gegn verðbólgudraugnum. 

Hrafn Magnússon er framkvæmdastjóri Landssamtaka Líeyrissjóða. Lífeyrissjóðir starfa eftir lögum og meðal þess sem kveðið er á um í þeim lögum er að raunávöxtun sjóðanna skuli ávallt vera yfir 3%, þ.e. ávöxtun skal ávallt vera meiri en 3% umfram verðbólgu. Þegar stjórnendum sjóðanna tekst að tapa nærri fjórðung þess fjár sem sjóðirnir geyma, starfandi undir slíkum lúxus lögum, er erfitt að taka mark á boðskap þeirra manna.

 


mbl.is Verjum sparnað landsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband