Fylgistap Sjálfstæðisflokks
10.3.2013 | 13:35
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokks hefur fylgi hans dalað mikið, þvert á það sem flokksmenn reiknuðu með.
Nokkrir einstaklingar innan flokksins, sem urðu undir í ákvörðun um hvernig skyldi afgreiða aðildarumsóknina, hafa tekið þessari fylgisminnkun fagnandi hendi og telja að þetta fylgistap stafi einmitt að þeirri ákvörðun. Hafa gripið fylgistapið sem vopn gegn eigin flokk og lýðræðislegum ákvörðunum landsfundar.
En er þetta ástæða fyrir fylgistapi Sjálfstæðisflokks í skoðanakönnunum? Hvers vegna hrynur þá ekki líka fylgið af Framsóknarflokk?
Er ekki líklegra að fylgistapið stafi af ákvörðun landsfundar um hvernig staðið skuli að lausn vanda heimila og hversu miklu skilningsleysi landsfundarfulltrúar opinberuðu með þeirri ákvörðun. Ekki hvarflar að mér að tala um að þar hafi minnihluti náð að knýja fram einhverja ákvörðun gegn vilja meirihluta landsfundargesta, eins og aðildarsinnar vilja meina að gerst hafi þegar fundurinn samþykkti að draga umsóknina til baka. Ákvörðun landsfundar Sjálfstæðisflokks um að hundsa vanda heimilanna var vissulega lýðræðisleg ákvörðun og sennilegt að fylgistap flokksins í skoðanakönnunum megi rekja til hennar.
Tillögur landsfundar til hjálpar skuldsettum heimilum landsins er hvorki fugl né fiskur, en verra er þó að sjá hversu langt landsfundarfulltrúar eru frá þeim raunveruleik sem í landinu er og hve vanþekking meirihluta þeirra á því málefni er mikil.
Það er erfitt að segja hvað flokkurinn og formaður hans geta gert til að ná til kjósenda. Ekki geta þeir breytt kúrsinum varðandi lausn vanda heimila, landsfundurinn hefur afgreitt það mál á skýrann hátt. Þó vissulega atvinnustefna þeirra hugnist betur en atvinnustefna vinstri flokkana og ljóst er að stefna flokksins í atvinnumálum mun hjálpa mörgum, er vandi heimila vegna stökkbreyttra lána og viðvarandi vandi vegna verðtryggingar, enn til staðar. Aukin atvinna og jafnvel lægri skattar leysa ekki þann vanda, hægja einungis á honum.
Það getur verið að eitthvað af fylgistapi flokksins, í skoðanakönnunum, megi rekja til ákvörðunar landsfundar um afturköllun aðildarumsóknar, en það er einungis brot af þeim fjölda. Þeir sem ekki sætta sig við þá ákvörðun landsfundar eru það sem kallast hákarlar innan eigendaklíku flokksins. Þeir yfirgefa ekki sinn flokk, þeir ætla sér að breyta samþykkt landsfundar, með góðu eða illu!
Þeir sem yfirgefið hafa Sjálfstæðisflokkinn eru þeir sem hafa fáa talsmenn innan eigendaklíkunnar, fjölskyldur landsins. Ástæða þess er augljós, þetta fólk viðurkennir meirihlutaákvörðun landsfundar og þar sem hún hugnast þeim ekki, yfirgefur það fólk einfaldlega þennan flokk.
Því er vandséð hvernig Bjarni Ben ætlar að snúa vörn í sókn. Eins og hann segir er landsfundurinn sterkasta vopnið og samþykktum hans ber að fylgja. Hann getur því þakkað landsfundinum fyrir þá ákvörðun að hrekja stórann hluta fjölskyldna frá þessum stæðsta flokk landsins og hugsanlega stefna þeim titli í hættu, í fyrsta sinn í sögu þessa flokks.
Landsfundurinn sterkasta vopnið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fylgistap Sjálfstæðisflokksins er vegna þess að Fólk treystir ekki Bjarna Ben..
Vilhjálmur Stefánsson, 10.3.2013 kl. 16:31
Það spilar sjálfsagt einnig eitthvað, Viljálmur. En stjórnmálaflokkur er ekki formaðurinn, heldur stefnan og landsfundur Sjálfstæðisflokks hefur markað ákveðna stefnu varðandi vanda heimila landsins.
Gunnar Heiðarsson, 10.3.2013 kl. 16:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.