Pólitískt skítkast

Það er ljóst að aukið fylgi Framsóknarflokks í skoðanakönnunum fer fyrir brjóstið á mörgum.

Vefheimar loga nú af allskonar áróðri gegn flokknum og dregnar eru upp myndir að fyrrum ráðamönnum þessa flokks og þeirra siðleysi úthrópað. Tillögur flokksins eru afgreiddar á einfaldann og fátæklegann hátt, með orðunum "þetta er ekki hægt", eða "draumórar". Enginn kemur fram á ritvöllinn með málefnalega gagnrýni.

Ef fólk vill endilega tala um siðleysi stjórnmálamanna, er það svo sem í lagi. Það á þá að halda sig við siðleysi þeirra sem eru í framboði til næstu kosninga, ekki þeirra sem fyrir löngu hafa yfirgefið pólitískann stríðsvöll. Hvers vegna dældi Steingrímur Jóhann tugum milljarða í sparisjóðakerfið, m.a. þann sparisjóð sem var í hans heimabyggð? Hverjir töpuðu þegar Össur Skarphéðinsson var svo "heppinn" að ná að selja hlutabréf skömmu fyrir hrun bankanna? Svona er hægt að tala um siðleysi þeirra sem keppast við að komast á þing næsta vor, þessara tveggja og fjölmargra fleiri. Það er ekki skortur á siðleysingum á þingi og sjálfsagt að minna kjósendur á þá. En í guðanna bænum leifið siðleysingjunum sem eru komnir út úr pólitíkinni að vera. Þeirra mál á að afgreiða fyrir dómstólum og þangað geta þeir farið sem eiga erindi við þá.

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem boðar ákveðnar lausnir fyrir heimili landsins. Aðrir flokkar boða ýmist engar aðgerðir eða einhverjar sem engu munu skipta. Þessar aðgerðir sem Framsóknarflokkur eru afnám verðtryggingar og leiðrétting stökkbreittra lána.

Afnám verðtryggingar er engin töfralausn og mun vissulega ekki laga stöðu þeirra sem nú eru komnir í vanda. Afnámið mun hins vegar gera kleift að byggja landið áfram, mun koma framtíðinni til góða. Afnám verðtryggingar mun einnig stoppa þá skelfingu sem fólk horfir upp á. Þessi aðgerð kostar í raun ekkert, en mun auðvitað minnka gróða bankanna til framtíðar. Inleggseigendur munu engu tapa, enda ljóst að það fé sem verður til vegna verðtryggingar skilar sér ákaflega lítið til þeirra. Þetta má sjá þegar þeir kostir sem bankarnir bjóða upp á eru skoðaðir og reiknivélar bankanna eru látnar reikna út þessa innlánskosti. Verðtryggingin virðist gufa upp í bankanum og ótrúlegt að innlánseigendur skuli láta það yfir sig ganga.

Verðtrygging tryggir ekki að sá sem fær að láni pening skili jafnvirði hans til baka. Lánþeginn skilar margfallt meiru til baka. Sá sem átti það fé sem bankinn lánaði, fær hins vegar ekki þá uppbót, heldur má hann þakka fyrir að eiga sömu verðmæti í sínum banka eftir nokkur ár.

Annað mál er með leiðréttingu stökkbreyttra lána. Það liggur fyrir að kostnaðurinn við þá aðgerð losar 200 milljarða, u.þ.b. helming þeirrar fjárhæðar sem landsmenn hafa tekið á sig til hjálpar fjármálafyrirtækjum landsins! Þetta er vissulega stór fjárhæð, en stór hluti hennar mun skila sér aftur í formi skatta. Það sem þó skiptir meira máli er að þessir 200 milljarðar eru í raun það verð sem kostar að koma okkur út úr þeirri kreppu sem þjóðin er í.

Enginn kemur með frambærilega gagnrýni á þessar hugmyndir Framsóknarflokks, heldur er einfaldlega sagt að þetta sé ekki hægt. Það verður að vera hægt, svo einfalt er það og ef fólk sér ekki hvernig á að gera þetta. á það að setjast niður og leita lausna svo það gangi. Að gera ekki neitt er ekki í boði, það mun kosta margfallt meira og í raun ekki með nokkru móti hægt að segja hversu mikið. Það er þó ljóst að ef ekkert verður gert má afskrifa þá rúmu 400 milljarða sem notaðir voru til endurreysnar bankanna. Þeir munu einfaldlega fara aftur á hausinn!

Þegar rök þrýtur hjá andstæðingum Framsóknarflokks, eru dregnar upp myndir af Halldóri og Finni og spurt hvort fólk ætli að kjósa þessa menn. Lægra verður varla komist í skítkastinu!!

Höldum okkur við málefnin og ef talin er nauðsyn að tala um siðleysið í pólitík, þá skulum við halda okkur við þá sem eru á þeim velli í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Þetta er enginn pólitískur haughúsamokstur, Gunnar, heldur orð í tíma töluð.

Kristinn Snævar Jónsson, 5.3.2013 kl. 11:16

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

(ég meina athugasemdir þínar)

Kristinn Snævar Jónsson, 5.3.2013 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband