Hvaða þjóðaratkvæðagreiðslu ?
9.2.2013 | 07:54
Ég gekk að kjörborði þann 20. október síðastliðinn. Þar voru lagðar fyrir mig 6 spurningar og engin þeirra var um hvort Alþingi bæri að samþykkja eða hafna einhverri "nýrri stjórnarskrá". Birgitta hlýtur því að vera að tala um einhverja aðra skoðanakönnun, sem hefur þá farið mjög leynt, svo leynt að enginn veit af henni.
Fyrsta spurningin í þeirri skoðanakönnun sem mér var boðið til var svohljóðandi: "Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá?" Þessi spurning ætti að vera auðskilin, spurt er hvort tillögurnar skuli vera grundvöllur fyrir Alþingi til að byggja á, í frekari vinnu.
Hinar fimm spurningarnar voru í raun óþarfar, enda sérvaldar í þeim tilgangi að slá ryki í augu fólks. Þar eru valin dægurefni sem í raun skiptir litlu máli, meðan aðalágreiningsefnum og meginmáli þessara tillagna er haldið til hliðar.
Ef ætlunin var að spyrja þjóðina nánar um álit á vinnu stjórnlagaráðs, átti að spyrja um hverja einunstu grein tillagnanna. Aðeins þannig var hægt að fá einhverja raunhæfa niðurstöðu. Og ef menn töldu það of viðamikið, átti einfaldlega að sleppa þessari könnun, þar til endanleg niðurstaða var fengin. Þá mátti gera skoðanakönnun um vilja þjóðarinnar til nýrrar stjórnarskrár.
Að efna til skoðanakönnunar um ófulkomandi plagg, skilar engum árangri, enda í raun ekki neitt að kjósa um. Þessi skoðanakönnun var í raun tilgangslaus, en úr því stjórnvöld töldu rétt að sóa fé til hennar, er lágmark að fólk túlki niðurstöðuna í samræmi við það sem spurt var um.
Spurningin var einföld, einungis var spurt um vilja þjóðarinnar til þess hvort nota ætti tillögur stjórnlagaráðs sem grunn að frekari vinnu.
Það er spurning hvernig niðurstaða skoðanakönnuninar hefði orðið ef spurt hefði verið á þann hátt hvort nota ætti þetta plagg óbreytt sem nýja stjórnarskrá. Þá er ekki víst að 30% kjörbærra manna hefðu gefið sitt atkvæði í "já" reitinn!
Vanhæft þing, svo mikið er víst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hún er tvöföld í roðinu það er orðið ljóst, gaf Hreyfinginn ekki Ríkisstjórninni loforð um áframhaldandi stuðning gegn því að tekið yrði á skuldarvanda heimilana, það er eins og mig minnir það...
En það er rétt að þetta var eingöngu könnun í formi Þjóðaratkvæðagreiðslu svo það er spurning hversu bindandi þetta er allt saman...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 9.2.2013 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.